Fjórði bekkur hefur verið að vinna að stóru þemaverkefni um himingeiminn í nokkrar vikur eftir áramótin. Í þessum tímum hafa námsgreinar eins og íslenska, enska, stærðfræði, samfélagsfræði og tölvur verið samþættaðar með náttúrufræði.
Það má segja að hópurinn hafi kafað á dýptina hvað þetta verkefni varðar og nemendur luku lotunni með því að hanna sólkerfið úr pappamassa. Eftir hópinn liggja líka fullt af skemmtilegum afurðum eins og t.d. ferðabæklingar út í sólkerfið. Þar kennir ýmissa grasa eins og tilboð til Mars í mars með Mars súkkulaðistykki í boði á leiðinni til Mars.
Áhafnir geimskipanna eru stundum ekki af verri endanum, Heyrst hefur að Iceguys ætli t.d. að fljúga fólki til Satúrnus og mögulega halda svo tónleika á Venus.
Þá hafa krakkarnir líka útbúið geimflaugar, geimfara og leyst orðasúpur, krossglímur, skrifað sögur og myndasögur sem tengjast himingeimnum o.fl. Þau fylgdust líka spennt með fréttum af geimförunum Suni og Butch sem urðu strandaglópar í Alþjóða geimsstöðinni en komust loks til jarðar eftir níu mánuði. Þessar fréttir gáfu okkur færi á að skoða hvernig geimskip/flaugar eru samansettar, hvernig þær fara á loft og hvernig þær lenda.