Erlend Erasmus+ verkefni
Erlend Erasmus+ verkefni
Dagana 17. - 20. febrúar 2025 sátu tveir kennarar skólans og skólameistari námskeið á eyjunni Fuerteventura. Námskeiðið kallaðist Sjálfbærni í kennslustofunni og í lífinu og var útbúið sérstaklega fyrir íslenska framhaldsskóla af Menningarfélaginu „Cuidando lo Nuestro“ sem starfar á eyjunni. Á námskeiðinu var hvatt til vistfélagslegrar nálgunar og ábyrgðar á náttúrunni, tengd saman staðbundin og alþjóðleg sjálfbærnimál og skoðað hvernig hægt væri að innleiða sjálfbærni og umhverfismennt í skólastarf í takti við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Becoming a Biomaker School – sjálfbært Erasmus+ samstarf
Nemendur úr MTR tóku haustið 2024 þátt í verkefninu Becoming a Biomaker School í Króatíu, ásamt skólum frá Spáni og Portúgal. Verkefnið snerist um umhverfisvitund, loftslagsmál og varðveislu menningararfs í anda heimsmarkmiðanna SDG 4, 11, 12 og 13. Nemendur unnu þverfaglega í alþjóðlegum hópum, kynntust vistkerfum og ræddu áhrif loftslagsbreytinga og hnignun handverks. Þeir miðluðu lærdómi sínum með kynningum og sýndu hvernig menntun getur stuðlað að sjálfbærni og virkri borgaravitund.
Ida Semey, kennari við Menntaskólann á Tröllaskaga, dvaldi vor 2024 í spænska framhaldsskólanum IES Andreu Sempere í Alcoi, þar sem hún kynnti sér skólastarf, menntastefnu og samstarfsverkefni. Báðir skólarnir eru bæði UNESCO- og Erasmus+ skólar og leggja ríka áherslu á inngildingu, alþjóðlega samvinnu og virka þátttöku nemenda. Dvölin var hluti af Erasmus+ starfsþróun kennara. Á fundum með nemendum, kennurum og stjórnendum kom fram að áherslur skólanna eru mjög líkar – m.a. í vali á verkefnum, áherslu á sjálfbærni og mikilvægi þess að nemendur læri hver af öðrum. Undirbúningur stendur nú yfir fyrir heimsókn spænskra nemenda til MTR í næsta mánuði, þar sem þau munu dvelja hjá íslenskum jafnöldrum, kynna sér skólastarf og heimsminjar í náttúru og menningu. Samstarfið tengist skýrt heimsmarkmiðunum SDG 4 (menntun), SDG 10 (minnkun ójöfnuðar), SDG 11 (sjálfbær samfélög) og SDG 17 (alþjóðlegt samstarf). Það styrkir jafnframt borgaravitund og inngildingu með því að leggja áherslu á samvinnu yfir landamæri og virka þátttöku nemenda í þróun sjálfbærs og fjölmenningarlegs skólasamfélags.
Vorið 2024 tók Menntaskólinn á Tröllaskaga á móti nemendahópi og kennurum frá spænska UNESCO-skólanum IES Andreu Sempere í Alcoy. Heimsóknin var hluti af samstarfsverkefni þar sem áhersla var lögð á að dýpka skilning nemenda á hlutverki UNESCO-skóla, heimsmarkmiðunum og möguleikum til framtíðarsamstarfs. Nemendur unnu saman að skapandi verkefnum þar sem þeir tengdu saman sjálfbæra neyslu og matarmenningu, jafnrétti og frið – með skýrum tengingum við heimsmarkmið á borð við SDG 4 (menntun), SDG 12 (ábyrg neysla), SDG 5 (jafnrétti) og SDG 16 (friður og réttlæti). Verkefnið styrkti einnig félagsfærni, tungumálakunnáttu og fjölmenningarskilning. Auk verkefnavinnu tóku nemendur þátt í vettvangsferðum um norðurland, heimsóttu Félag Sameinuðu þjóðanna og Bessastaði, þar sem forseti Íslands lagði áherslu á lýðræðislega þátttöku, mikilvægi þess að nýta kosningarétt og virða menningararf. Með því að hitta samnemendur frá öðru landi, búa saman, vinna saman og ræða samfélagsmál öðluðust nemendur dýpri meðvitund um hlutverk sitt í hnattrænu lýðræðissamfélagi.
Í áfanganum Erlent verkefni: Ísland, Danmörk, fjölmenning sem kennt var haustið 2023 kynntust nemendur sögulegum tengslum Íslands og Danmerkur í samhengi við alþjóðasamvinnu og sjálfbæra framtíð. Þungamiðja áfangans var Erasmus+ ferð til Kaupmannahafnar þar sem nemendur unnu með dönskum jafnöldrum að viðfangsefnum á borð við loftslagsmál, menningararf og hnattræna ábyrgð. Í ferðinni heimsótti hópurinn m.a. Jónshús, Þjóðminjasafn Dana, stofnun Árna Magnússonar og höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn, þar sem fjallað var um starfsemi SÞ og tengingu hennar við skólastarf. Þar fengu nemendur innsýn í heimsmarkmiðin í alþjóðlegu samhengi og ræddu hlutverk ungs fólks í sjálfbærri þróun. Í samstarfi við KVUC-skólann unnu íslenskir og danskir nemendur saman að lausnamiðuðum verkefnum sem tengjast heimsmarkmiðunum, sérstaklega SDG 4 (menntun), SDG 13 (loftslagsaðgerðum), SDG 16 (friði og öflugri stofnun) og SDG 17 (samstarfi). Ferðin stuðlaði að aukinni menningarlegri meðvitund, gagnkvæmri virðingu og vitund um mikilvægi þess að skoða söguna með nútímagleraugum – og að byggja framtíð á virku samtali þvert á landamæri.
Á meðfylgjandi mynd sést hópur nemenda og kennara fyrir framan Colosseum í Róm með skjalið frá UNESCO. Þessi hópur var staddur á Ítalíu vorið 2022 að vinna að verkefninu Let’s Eat Culture ásamt nemendum frá Ítalíu og Lanzarote á Kanaríeyjum. Verkefnið snerist um matarmenningu á mismunandi svæðum en einnig um sjálfbærni og umhverfisvitund og tengdist heimsmarkmiðum UNESCO.