Samantekt
Samantekt
Verkefnið „Heimsmarkmiðin í öllu skólastarfi – lýðræðislegt samfélag í framkvæmd“ er heildræn og skapandi nálgun Menntaskólans á Tröllaskaga (MTR) að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í allt skólastarf. Frá árinu 2022 hefur skólinn, sem virkur þátttakandi í UNESCO-skólahreyfingunni, unnið markvisst að því að gera heimsmarkmiðin að leiðarljósi í námskrá, kennslu, skólamenningu og daglegum samskiptum. Verkefnið byggir á þeirri hugsjón að menntun eigi ekki aðeins að miðla fræðilegri þekkingu, heldur móta meðvitund, siðferðiskennd og virkni ungs fólks sem borgara í lýðræðislegu og sjálfbæru samfélagi.
Aðferðafræðin byggir á þverfaglegri samþættingu, verkefnamiðuðu námi og skapandi útfærslum. Nemendur vinna með heimsmarkmiðin á fjölbreyttan hátt – með því að rannsaka samfélag sitt, fjalla um plastmengun og loftslagsmál, greina jafnrétti í bókmenntum og kynjafræði og vinna matardagbækur, ljósmyndaverkefni, ritgerðir og sýningar sem spegla eigin nálgun. Námið er einstaklingsmiðað og nemendur fá að nýta hæfileika sína til að tjá viðfangsefnin á eigin forsendum. Kennarar þróa nýja áfanga í samvinnu, leggja áherslu á sjálfsmat og samvinnu og nýta heimsmarkmiðin sem sameiginlegan ramma til að efla gæði og samhengi í námi.
Verkefnið snertir alla í skólasamfélaginu. Aðalmarkhópur eru nemendur – bæði staðnemar og fjarnemar – sem fá að axla ábyrgð, læra að beita eigin rödd og vinna með gildin sem heimsmarkmiðin standa fyrir. Kennarar og starfsfólk taka virkan þátt í þróun verkefna, skipulagningu og menntunarstefnu og læra saman í gegnum faglegt samstarf. Verkefnið nær einnig til nærsamfélagsins í Fjallabyggð, með opnum sýningum og þátttöku í samfélagsverkefnum, og til evrópskra samstarfsaðila í gegnum Erasmus+, þar sem nemendur fara í námsferðir og taka á móti erlendum gestum. Þessi gagnkvæma heimsókn skapar fjölmenningarlegt lærdómssamfélag og dýpkar samábyrgð og alþjóðavitund.
Nýsköpun verkefnisins felst í því að heimsmarkmiðin eru ekki kennd sem sértækt efni heldur samþætt öllu skólastarfi – þau eru lifandi hluti af verkefnum, samtölum, námsmati og félagslífi. Nemendur fá virkt hlutverk í mótun verkefna, áhrif á viðfangsefni og rými til að tjá sig skapandi og með gagnrýninni hugsun. Verkefnið byggir á Tröllaskagamódelinu (Lára Stefánsdóttir og Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, 2021)1 , þar sem frumkvæði, sköpun og áræði eru lykilhugtök – og gefur skólanum sveigjanleika til að þróa menntun sem tengist lífi, umhverfi og samfélagi á raunverulegan hátt.
Verkefnið hefur þegar skilað fjölbreyttum afurðum: Rafrænum verkefnabókum, ljósmyndaverkefnum, hlaðvörpum, fjöltyngdum verkefnum og opnum sýningum. Kennarar hafa þróað leiðbeinandi efni sem hægt er að miðla til annarra skóla og verkefnin hafa verið kynnt á viðburðum og í alþjóðlegu samstarfi. Skólinn hefur einnig lokið öllum Grænum skrefum í ríkisrekstri og tekur virkan þátt í sjálfbærri stjórnsýslu, sem undirstrikar skuldbindingu hans við samfélagslega ábyrgð á öllum sviðum.
Áhrif verkefnisins hafa verið víðtæk. Nemendur hafa dýpkað skilning sinn á sjálfbærni, inngildingu og samfélagslegri ábyrgð. Þeir tengja heimsmarkmiðin við eigið líf og læra að hugsa og vinna með alþjóðleg gildi í staðbundnu samhengi. Verkefnið hefur styrkt sjálfsmynd skólans sem frumkvöðuls í menntun til sjálfbærrar þróunar og orðið fyrirmynd að menntun þar sem heimsmarkmiðin eru ekki aðeins kennd – heldur upplifuð.
Verkefnið hefur sterkt yfirfærslugildi. Aðferðirnar eru sveigjanlegar, aðlagaðar að mismunandi námsgreinum og aðstæðum og má innleiða á ólíkum skólastigum. Með því að sameina skapandi nálganir, lýðræðislegt samtal, alþjóðlegt samstarf og heildræna skólamenningu er verkefnið kraftmikið dæmi um hvernig menntun getur verið verkfæri til að móta réttláta og sjálfbæra framtíð.
1) Lára Stefánsdóttir og Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir. (2021). The Tröllaskagi Model, Teaching and learning at the Menntaskólinn á Tröllaskaga upper secondary school. Skólaþræðir, Journal of Enthusiasts for Educational Development. https://tinyurl.com/37jdnr6t