Nordplus samstarf og verkefni
Nordplus samstarf og verkefni
Menningararfur og alþjóðleg tengsl – heimsmarkmið í Nordplus-verkefni
Nemendur Menntaskólans á Tröllaskaga heimsóttu vorið 2025 Saldus vidusskola í Lettlandi sem hluti af Nordplus-verkefni sem snýst um menningararf. Verkefnið hófst haustið 2023 með heimsókn lettneskra nemenda til Ólafsfjarðar og nú var komið því að endurgjalda heimsóknina. Markmið verkefnisins er að efla meðvitund um menningararfleifð – bæði áþreifanlega og óáþreifanlega – og skoða hvernig hún getur tengt saman fólk með ólíkan bakgrunn. Dagskráin í Lettlandi innihélt heimsóknir í söfn, listaskóla og bæjarstjórn, þátttöku í þjóðlegri matargerð, heimsókn í smiðju þjóðarhljóðfærisins kokles og ferð til Kuldīga – miðaldabæjar sem er á Heimsminjaskrá UNESCO. Þar upplifðu nemendur lifandi menningu, gamlar hefðir og alþjóðleg tengsl á áhrifaríkan hátt. Áhersla var einnig lögð á inngildingu með heimagistingu sem veitti innsýn í daglegt líf og styrkti tengsl milli hópanna.
Verkefnið tengist sérstaklega heimsmarkmiðunum SDG 4 (góðri menntun), SDG 10 (minnkun ójöfnuðar), SDG 11 (sjálfbærum samfélögum), SDG 16 (friði og réttlæti) og SDG 17 (alþjóðlegu samstarfi). Það er skýrt dæmi um hvernig MTR samþættir heimsmarkmiðin í alþjóðleg verkefni, ekki aðeins í kennslu heldur í samskiptum, upplifunum og sameiginlegri vinnu yfir landamæri.
Nordplus samstarf um félagslega sjálfbærni drengja
Menntaskólinn á Tröllaskaga tekur þátt í Nordplus-verkefni sem snýst um að greina áskoranir í námi drengja og finna leiðir til að bæta félagslega sjálfbærni og draga úr brottfalli. Verkefnið er samstarf við tvo framhaldsskóla í Danmörku og einn á Grænlandi og hefur snúist um að skoða áhrif samfélagsmiðla, staðalímynda um karlmennsku og kynjaðra væntinga á námsárangur drengja.
Verkefnið hófst með heimsóknum til GUX Nuuk á Grænlandi, Christianshavn gymnasium og Örestad gymnasium í Kaupmannahöfn. Þar var rætt við nemendur og kennara, gögnum safnað og fjölbreyttar leiðir skoðaðar til að mæta þörfum ungra karla í námi. Lokahnykkurinn fór fram við MTR þar sem þátttakendur kynntu sér Tröllaskagamódelið, hlýddu á kynningar frá nemendum og kennurum og áttu dýrmæt samtöl við alla hlutaðeigandi í skólasamfélaginu. Gestirnir lýstu sérstakri ánægju með ábyrgð nemenda á eigin námi, afslappað andrúmsloft og fjölbreyttar leiðir til verkefnavinnu – og sáu að orðspor skólans stóðst allar væntingar.
Verkefnið tengist sérstaklega heimsmarkmiðunum SDG 4 (menntun), SDG 5 (jafnrétti kynjanna), SDG 10 (minnkun ójöfnuðar) og SDG 16 (samfélagslegri þátttöku og réttlæti). Með því að opna fyrir samtal um kynjaðar áskoranir í námi og veita innsýn í virka námsmenningu MTR, er stuðlað að inngildingu, sjálfseflingu og alþjóðlegu samstarfi sem hefur bein áhrif á stefnumótun í menntun.
Virk borgaravitund og inngilding
Kennarar við Menntaskólann á Tröllaskaga tóku skólaárið 2022-2023 þátt í Nordplus-verkefni ásamt samstarfsaðilum frá Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, þar sem markmiðið var að efla virka borgaravitund og lýðræðislega þátttöku í fjölbreyttum samfélögum. Verkefnið snerist um að þróa aðferðir og verkfæri sem gerðu fólki úr öllum samfélagshópum kleift að taka þátt, eiga rödd og hafa áhrif – óháð uppruna, tungumáli eða stöðu.
Verkefnið var valið sem „Best Practice“ innan stefnumiða Norðurlandaráðs um félagslega sjálfbærni, sem undirstrikar mikilvægi þess í að styðja lýðræðislega þátttöku og inngildingu á Norðurlöndunum.
Í heimsókn samstarfshópsins til MTR kynntu erlendu þátttakendurnir sér Tröllaskagamódelið og lýstu þeir sérstakri hrifningu á því hvernig ábyrgð, frelsi og fjölbreyttar leiðir til verkefnavinnu einkenndu skólastarfið. Þeir hlýddu á kynningar frá nemendum, kennurum og stjórnendum, og fundu mikinn samhljóm í upplifun allra þátttakenda í skólasamfélaginu.
Í tengslum við sama verkefni heimsóttu Ida Semey og Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir einnig Helsinki, þar sem þær tóku þátt í fundum, skólaheimsóknum og skapandi vinnustofum með áherslu á fjölmenningu, réttindi, jafnrétti og inngildingu. Nasima Razmyar, yfirmaður menntamála í Helsinki, tók á móti hópnum og lagði áherslu á gæði skólakerfisins, fjölbreytt samfélag og mikilvægi kennara í að byggja sjálfbært samfélag.
Verkefnið tengdist skýrt heimsmarkmiðunum SDG 4 (góðri menntun), SDG 5 (jafnrétti), SDG 10 (minnkun ójöfnuðar), SDG 16 (lýðræði og réttlæti) og SDG 17 (alþjóðlegu samstarfi). Með því að skapa vettvang fyrir sameiginlega greiningu, reynsludeilingu og lausnaleit stuðlaði verkefnið að dýpri skilningi á inngildingu og félagslegri sjálfbærni í menntun.