Skólar á grænni grein

Vertu útipúki - það er bara til ein jörð

Engjaskóli fékk sinn fyrsta Grænfána í byrjun júní 2023. Nemendur í Grænfánanefndinni stóðu sig mjög vel og eftir afhendingu vorum við með smá veislu fyrir þau.

Skólar á grænni grein (Eco-Schools) eru alþjóðlegt verkefni sem menntar milljónir nemenda í 67 löndum víðsvegar um heim í sjálfbærni og umhverfisvernd. Verkefnið byggir á lýðræðismenntun og getu til aðgerða.

Skólar á grænni grein fylgja sjö skrefa ferli sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Ef skólinn nær markmiðum sínum fær hann að flagga Grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.

Verkefnið hefur víðtæk áhrif og taka skólar ábyrga afstöðu í málum sem snerta umhverfið. Með því að innleiða raunhæfar aðgerðir og vinna á markvissan hátt að sjálfbærni í skólanum sýnir reynslan að skólar geta sparað talsvert í rekstri.

Tekið af heimasíðu verkefnisins, https://graenfaninn.landvernd.is/

Engjaskóli

Skólinn er staðsettur í norðanverðum Grafarvogi í mikilli nánd við ósnerta náttúru, fjaran í Gorvík er skammt undan, áin Korpa rennur rétt við skólann og við erum í göngufæri við Gufunesbæ (MÚÚ) þar sem Miðstöð útivistar og útimenntunar hefur aðsetur sitt. 

Við erum komin vel af stað með að setja upp útikennslustofu á skólalóðinni í samstarfi við MÚÚ en hún var formlega opnuð á vetrarhátíð Engjaskóla þann 1. desember 2022. 

Í vali á miðstigi er boðið upp á útikennslu í byrjun haustannar og í lok vorannar. Útikennslan tekur hlé yfir svartasta skammdegið. List- og verkgreinakennarar eru öflugir í útikennslu með yngri börnum ásamt umsjónarkennurum allra árganga. 

Þemað okkar árin  2021-2023 var Lýðheilsa og í júní 2023 fengum við fyrsta fánann okkar afhentan.

Engjaskóli er einnig að vinna að viðurkenningu fyrir verkefnið Heilsueflandi skóli og verkefnið Réttindaskóli UNICEF. Þessi þrjú verkefni tengjast vel hvert öðru og styðja vel við hvert annað. 

Við höfum opnað vef um útikennslu sem er alltaf að aukast og styrkjast sem kennsluaðferð hjá okkur, vefinn má finna hér.

Slagorðið okkar er: 

Vertu útipúki - það er bara til ein jörð

Á næsta tímabili 2023-2025 höfum við ákveðið að þemu Grænfánans skiptist á árgangana miðað við námsefni í hverjum árgangi. Þannig náum við að taka hvert viðfangsefni dýpra og í meiri tengingu við Aðalnámskrá Grunnskóla. Nánari útlistun á þessu fyrirkomulagi má finna hér fyrir yngsta stig og hér fyrir miðstig.

Grænfánaveggur skólans er staðsettur á stóra ganginum þar sem nemendur borða hádegismatinn. Veggurinn er lifandi og nýjar auglýsingar birtast reglulega á veggnum en þar er minnt á þau málefni sem eru efst á baugi í hvert sinn. Þar er einnig að finna fundarboð fyrir grænfánanefndina.

Skref 1, Umhverfisnefnd

Verkefnið er nemendamiðað sem þýðir að nemendur gegna mikilvægu hlutverki í umhverfisnefndinni, best er ef 2-3 fulltrúar úr hverjum árgangi eru í nefndinni ásamt fullorðnum, t.d. kennara, umsjónarmanni fasteigna, matráði og skólaliða.

Í september 2021 var nemendum á miðstigi boðið að taka þátt í Grænfánaverkefninu. Mikill áhugi reyndist vera fyrir starfinu en 38 nemendur vildu vera í nefndinni af 121 nemanda á miðstigi. Tíu nemendur voru valdir í nefndina, 5 stúlkur og 5 drengir.

Í september 2022 var settur listi á Grænfánavegginn þar sem nemendum í 3. -7. bekk var boðið að skrá sig í nefndina. 20 nemendur skráðu sig og mynda nefnd vetrarins.

Grænfánafundir voru reglulega yfir veturinn, u.þ.b. á 3-4 vikna fresti, sjá fundargerðir.

Skref 2, Mat á stöðu umhverfismála

Gott er að nota gátlista af heimasíðu verkefnisins til að meta stöðu umhverfismála í byrjun tímabils, um miðbik tímabilsins og í lokin þegar skýrslan er skrifuð.

Í febrúar 2022 fór nefndin yfir gátlista fyrir þemað Lýðheilsa sem við leggjum áherslu á í vetur. Gátlistinn er hér. Í stuttu máli voru niðurstöðurnar þessar: við þurfum að tala meira um svefnvenjur og vatnsdrykkju, líkamsbeitingu, sálfræðiþjónustu fyrir nemendur, fræðslu um andlega líðan, fræðslu frá samtökunum  ́78 og feministafélögum.

Í febrúar 2023 var listinn yfirfarinn aftur og kom í ljós að töluvert hafði áunnist en nokkur atriði stóðu út af sem skerpa þarf á fyrir vorið, t.d. að tala meira um vatnsdrykkju, fá fræðslu um andlega líðan og fá námsráðgjafa til starfa í skólanum. 

Skref 3, Áætlun um aðgerðir og markmið

Í framhaldi af stöðumati eru gerðar áætlanir um aðgerðir, nemendur í umhverfisnefnd ákveða hvaða skref verða tekin til að ná markmiðum.

Niðurstöður Grænfánanefndar á vorönn 2022 eftir fyrstu yfirferð á gátlistanum voru sendar stjórnendum og kennurum. Stjórnendur brugðust strax við og ætla að sinna þessum erindum hið fyrsta. Kennarar geta sinnt um helmingi athugasemdanna.

Haustið 2022 ákvað nefndin að vinna að fræðsluefni um svefn, matarvenjur og hreyfingu sem yrði flutt nemendum í öllum árgöngum skólans. Flestir fundir nefndarinnar á haustönn fóru í þessaa vinnu. Það voru ekki allir hópar sem náðu að klára þetta verkefni.

Við fengum fræðslu frá Þorgrími Þráinssyni, bæði fyrir nemendur og foreldra, um seiglu, úthald, leiðir til að ná árangri, heilsusamlegt líferni og læsi. 

Starfsfólk skólans er að innleiða regnbogavottun Reykjavíkur ásamt því að fræðsla um kynheilbrigði og eðlileg mörk fór inn í alla árganga bæði frá Eyrúnu, hjúkrunarfæðingi skólans og umsjónarkennurum í viku6. Engjaskóli fékk regnbogavottun í lok apríl 2023.

Skólinn er að vinna að grænum skrefum borgarinnar og er umsjónarmaður fasteigna og skólaliðar lykilfólk þar. Stefnt er að viðurkenningu fyrir fyrsta skrefið fyrir skólalok vorið 2023.

Skref 4, Eftirlit og endurmat

Nauðsynlegt er að sinna eftirliti og endurmati á umhverfisfundum sem þurfa að vera u.þ.b. 1 sinni í mánuði. Í þessum lið er gott að nota gátlistana sem notaðir voru í skrefi 2.

Í febrúar 2023 fórum við yfir gátlistann frá febrúar 2022 og ýtt á þau verkefni sem þarf að vinna (sjá skref 2).

Skref 5, Námsefnisgerð og tenging við Aðalnámskrá

Námsmarkmið Aðalnámskrár fléttast inn í þessa vinnu ásamt kynningu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Verkefni sem árgangar gera er hægt að safna saman og leyfa öðrum að njóta, t.d. með því að senda þau í verkefnakistu Grænfánans, eða deila með öðrum á fb spjalli Grænfánans.

Haustið 2022 vann Grænfánanefndin fræðsluefni fyrir alla árganga skólans um lýðheilsu. Þau gera kynningar og fara með þær inn í bekkina og halda stutta hugvekju um mikilvægi svefns, næringar og hreyfingar. Um helmingur árganga hefur fengið þessa fræðslu, því ekki náðu allir hópar að ljúka við verkefnið.

Í vali á miðstigi á haustönn og vorönn er boðið upp á útival, sem felst í alls konar verkefnum úti í og við skólalóðina. Við merktum 4 tegundir af trjám og fylgdumst með þeim fara í vetrardvala og vakna svo aftur um vorið. Við lærðum að tálga og gera te úr jurtum úr móanum nálægt skólanum. Við elduðum brauð og sykurpúða yfir eldi. Fræðsla var einnig um tré, gróður, fugla og skordýr.

2021-22: List- og verkgreinakennarar fóru með yngstu árgangana í fjöruferð i Gorvík á haustönn þar sem þau skoðuðu lífríki fjörunnar og elduðu.

Nemendur í Grænfánanefndinni fóru yfir óskilamuni í lok haustannar 2021 og gátu komið nokkru magni af fötum aftur til eigenda sinna.

2022-23: Áframhaldandi námskeið í útikennslu með sama sniði og í fyrra. Umsjónarkennarar og list-og verkgreinakennarar nýta útiveru til útvíkka kennsluna. 

Nýr útikennsluvefur Engjaskóla og Borgaskóla var opnaður í maí 2023.

Skref 6, Að upplýsa og fá aðra með

Verkefnið þarf að vera sýnilegt gestum og gangandi og a.m.k. einn viðburður á ári þarf að vera tileinkaður Grænfánaverkefninu. Gott er að búa til Grænfánavegg eða tilkynningatöflu, þar sem sést að skólinn sé Grænfánaskóli og hvaða þemu eru tekin fyrir hverju sinni.

Nemendur í grænfánanefnd undirbjuggu og stýrðu þemaverkefni um hreyfingu og lýðheilsu á umhverfisdaginn 25. apríl 2023. Það voru vinabekkir sem unnu saman á stöðvum undir stjórn grænfánakrakka (þau höfðu kennara sér til aðstoðar). Það fóru 2 kennslustundir í þetta.

Grænfánaveggur var settur upp á haustönn 2021, þar sem vísað er í heimasíðu þessa. Nýr og endurbættur grænfánaveggur var settur upp við hlið myndmenntastofunnar haustið 2022, þar er hann betur sýnilegur nemendum.

Kennarar voru duglegir að senda fréttir á heimasíðu skólans og sýna myndir frá Grænfánaverkefnum s.s fjöruferðum, ferðum í Gufunesbæ, útikennslunni samvinnuverkefnum vinabekkja o.s.frv. ásamt því að segja frá vinnunni í vikulegum fréttabréfum heim til foreldra.

Hér er nánar um vinnu kennara og nemenda í Grænfánaverkefnum á yngsta stigi og miðstigi.

Skref 7, Umhverfissáttmáli

Nemendur í umhverfisnefnd gera sáttmála fyrir umhverfið fyrir hönd nemenda og starfsfólks skólans.

Á fimmta fundi grænfánanefndarinnar í apríl 2022 var umhverfissáttmálinn á ákveðinn:

Vertu útipúki - það er bara til ein jörð
Grænfáninn í Engjaskóla

---

Þegar skrefin 7 hafa verið framkvæmd er hægt að sækja um úttekt hjá Landvernd.

Grænfánaúttekt var gerð 26. maí 2023.

Við fengum afar góða endurgjöf frá Landvernd, sjá hér.

Afhending Grænfánans fór fram á íþróttadegi 2. júní 2023, sjá myndir efst á síðunni.

Svona vinnum við í Engjaskóla:

Grænfánanefndin veturinn 2022-23 er skipuð 16 nemendum úr 3. - 7. bekk.

Grænfánanefndin veturinn 2021-22 er skipuð 10 nemendum úr 5. - 7. bekk. 

Nefndin er áhugasöm og leggur áherslu á fræðslu um lýðheilsu ásamt því vekja fólk til umhugsunar um matarsóun, fatasóun og að minnka neyslu.

Fundargerðir nefndarinna má finna í felliglugganum efst.

Skólar velja 1-3 þemu á hverju tveggja ára tímabili til að vinna með. Í Engjaskóla höfum við ákveðið að byrja á þemanu um lýðheilsu í samstarfi við íþróttakennara ásamt fræðslu um neyslu og úrgang

Í skólanum flokkum við sorpið í þrjá flokka, endurvinnsluefni (pappír, plast, málmar), lífrænt (matarleifar) og almennt rusl. Samkvæmt nýjum lögum sem tóku gildi í janúar 2023 komum við til með að endurskoða úrgangsmálin hjá okkur í apríl/maí þegar borgin fer í breytingarnar hjá sér. Endurskoðun fór fram í apríl 2023.

Allir árgangar taka þátt í að halda skólalóð og nánasta umhverfi hreinu nokkrum sinnum á ári.

Hér má sjá verkefni sem unnin eru í hverjum árgangi fyrir sig: