Fræðsla - fróðleiksmolar

Bananar: Ofþroskaða banana má auðveldlega frysta. Þeir eru afhýddir, settir í poka og kreistir, pokinn flattur smá út og frystur. Þá eigum við alltaf banana til að henda í drykkinn okkar. Bananar eru fullir af kalíum, sem styrkir vöðva og taugar, jafnar sýrustig í líkamanum og minnkar hættu á of háum blóðþrýstingi. Bananar eru einnig járnríkir, þeir byggja upp blóðrauða og gefa A-, B-, og C-vítamín.


Hörfræolía gefur okkur omega-3 og omega-6 fitusýrur. Hún er einstaklega góð fyrir húð, hár og liði þar sem hún bókstaflega smyr líkamann. Það er mikilvægt að setja hörfræolíuna út í blandarann í lokin og þeyta aðeins í örstutta stund. Olían er viðkvæm og brotnar niður þegar hún er þeytt í blandara. Af sömu ástæðu geymist hún best í kæli.


Fersk límóna jafnar sýrustigið í líkamanum, en það er mjög mikilvægur liður í að byggja upp og viðhalda góðri heilsu. Límóna er troðfull af A-, C-, B1 og B6-vítamínum.


Bláber eru full af andoxunarefnum og frábær fyrir æðakerfið. Þau sópa burt sindurefnum og magna virkni C-vítamíns. Bláber styrkja heilastarfsemina. Þau bæta minni og veita vernd gegn streitu.


Hafrar eru ríkir af trefjum, kalki og ýmsum steinefnum. Hafrar eru taldir geta styrkt varnarkerfið gegn sýkingum, lækkað kólesteról og minnkað líkur á hjartasjúkdómum. Þeir innihalda flókin kolvetni sem meðal annars jafna blóðsykur.


Kókosmjólk er talin komast næst móðurmjólkinni í næringargildi. Hún er sneisafull af vítamínum, steinefnum og auðmeltanlegu prótíni.


Óunnin kókosolía er talin hollasta olía sem völ er á, þess vegna er gott að setja smá slettu af kókosolíu í drykkinn sinn daglega.


Hveitikím er agnarögn innst í hveitikjarnanum. Það er næringarríkasti hluti kjarnans. Hveitikím inniheldur olíur og geymist því best í kæli. Þegar því er blandað í drykki skal setja það út í síðast til að vernda næringargildið sem best. Það inniheldur mörg steinefni og vítamín og er einstaklega ríkt af E-vítamíni. Í því eru einnig nauðsynlegar fitusýrur, sem auka orku og bæta lífsgæði. Hveitikím getur lækkað kóleseról og hjálpað okkur að takast í við steitu.


Kanill er bakteríudrepandi, getur aukið orku, jafnað blóðsykur og slegið á tíðaverki. Einnig er hann notaður til að bæta meltingu og vandamál henni tengd. Hann er bólgueyðandi og góður við kvefi.


Vatnsmelóna er afar hreinsandi. Hún er bólgueyðandi og getur slegið á einkenni af astma, sykursýki og liðagigt. Vatnsmelóna er full af A- og C-vítamínum. A-vítamín er mikilvægt fyrir augun og húðina. Einnig styrkir A-vítamín frumuhimnurnar og gefur þeim raka. Bæði A- og C-vítamín styrkja ónæmiskerfið.


Engifer er gott fyrir meltinguna og hvers kyns meltingar-óróa. Engifer minnkar bólgur og styrkir ónæmiskerfið. Gott er að taka inn engifer gegn kvefi og flensu, því það hjálpar líkamanum að svitna á heilbrigðan hátt.


Epli eru talin sérlega góð fyrir hjartað. Þau innihalda mismunandi tegundir af trefjum, sem geta komið í veg fyrir að magn kólesteróls hækki og lækkað það ef það er of hátt. Epli gefa okkur pektín sem mýkir æðarnar, eru góðar fyrir astmasjúklinga og lungun yfirleitt.