Hvað er seyra?
Samkvæmt íslensku nútímamálsorðabókinni er hugtakið seyra skilgreint sem: ,,Óhreinindi sem skiljast frá fráveituvatni".
Til að útskýra hugtakið aðeins nánar getum við hugsað okkur allan þann úrgang og hluti sem fara niður í salerni og niðurföll. Allir þeir hlutir sem fara þar í gegn safnast saman í rotþró, en það er tankur sem safnar saman allri botnfellingu/botnlagi og öllu því vatni sem kemur úr niðurföllum (fráveituvatn). Þegar vökvinn (fráveituvatnið) er aðskilinn botnfellingunni, með einhverskonar síun eða fleytingu, verður eftir fastur lífrænn úrgangur og kallast hann seyra.
Nýting á seyru á Íslandi
Sveitarfélögin Ásahreppur, Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur standa að seyruverkefninu.
Verkefnið er samstarfsverkefni sveitarfélaganna, Lands og skóga (áður Landgræðslan) og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Verkefnið felst í því að sveitarfélögin 6 sjá um hreinsun rotþróa en hverja rotþró þarf að hreinsa á þriggja ára fresti.
Seyrunni er safnað með seyrubíl sem síðan sturtar henni í kalkara þar sem henni er blandað saman við kalk og stundum einnig grasfræ. Þegar seyran hefur verið kölkuð er henni dreift á sérstakt dreifingarsvæði á afrétti Hrunamanna, þar sem hún er notuð til uppgræðslu.
Sveitarfélögin reka móttökustöð fyrir seyru á Flúðum, þar er tekið á móti seyru og hún er unnin.
Seyruverkefnið sinnir ekki hreinsunum á rotþróm yfir vetrartímann, hreinsun rotþróa hefst með vorinu. Störf hefjast að vori um leið og hægt er að fara með seyru til dreifingar á uppgræðslusvæðið þeirra og starfa eins langt fram eftir hausti og hægt er vegna veðurs og færðar.