Verkefnið Slam!
Hrunamannahreppur hafði lengi haft áhuga á að finna lausn á því hvernig hægt væri að finna farveg fyrir nýtingu á seyru sem safnast upp í rotþróm. Þegar sú hugmynd fæddist að reyna að nýta seyru heima í héraði í stað þess að keyra hana til urðunar um langan veg var farið í það að kynna sér möguleika á nýtingu fastefnis rotþróa til landgræðslu eða skógræktar og koma á fót tilraunaverkefni í því skyni. Á nokkrum árum þróaðist það tilraunaverkefni þannig að 6 sveitarfélög á Suðurlandi tóku höndum saman og stofnuðu Seyruverkefnið og byggðu upp hreinsistöð í Hrunamannahreppi.
Samvinna Flúðaskóla við Seyruverkefnið á Flúðum og danskan skóla
Flúðaskóli hafði um nokkurt skeið haft hug á að nýta þá þekkingu sem liggur í ferli hreinsistöðvarinnar og vera í einhvers konar samstarfi við stöðina og nýta til kennslu í skólanum. Á haustdögum 2022 kom upp sú hugmynd að leita eftir slíku samstarfi og leggja áherslu á samþættingu í nokkrum námsgreinum. Ákveðið var í því sambandi að leita einnig eftir samstarfi við danskan skóla sem væri til í að vinna að sameiginlegum verkefnum um hreinsistöðvar. Jafnframt var augljóslega hægt að tengja hugtakið sjálfbærni við starfsemi slíkrar hreinsistöðvar og var strax í upphafi lögð megináhersla á þann þátt.
Nordplus - styrkir
Flúðaskóli ákvað að sækja um styrk hjá Nordplus Junior þar sem slíkt verkefni fellur vel undir meginmarkmið Nordplus um þessar mundir þar sem áhersla er lögð á samfélagslega sjálfbærni og samstarf skóla og stofnana í því samhengi. Í umsóknarferlinu fékk verkefnið nafnið Slam með vísan til dönsku en það er danska orðið yfir seyru og þýðir það einnig skellur. Þar með var hægt að tengja nafnið við þá staðreynd einnig að veröldin væri e.t.v. að upplifa ákveðinn skell í sambandi við vatn, vatnslindir og vatnssóun og að veröldin væri alls ekki nógu upplýst um mikilvægi sjálfbærni í því samhengi. Styrkur fékkst hjá Nordplus Language til undirbúningsvinnu kennara og síðan fékkst styrkur hjá Nordplus Junior til nemendasamskipta.
Þegar undirbúningur að verkefninu hófst var því aðaláhersla lögð á fjóra grunnþætti; vatnsnotkun, vatnssóun, nýtingu seyru sem áburðar og til uppgræðslu lands. Nemendur fengu það verkefni í upphafi að leggja fram spurningar sem nýtast myndu sem rannsóknarspurningar út frá þessum fjórum megináherslum. Þær spurningar hafa verið leiðarljós í öllu verkefninu með aðaláherslu á tengingu við sjálfbærni.
Árgangur 2008 í Flúðaskóla nýkominn til Holbæk í Danmörku