Sjötti bekkur fékk að fara í Sjóferð um sundin í maí, í boði Faxaflóahafna í umsjá Fjölskyldu- og húsdýragarðsins.
Markmið heimsóknarinnar var að gefa nemendum kost á að kynnast umhverfi Reykjavíkurhafnar og lífríki sjávar úti á sundunum. Ferðin var einstaklega skemmtileg, nemendur fengu að skoða dýr sem finnast úti á sundunum ásamt því að njóta þess að fá að vera úti á sjó og sjá Reykjavík frá nýju sjónarhorni. Það sem stóð samt mest upp úr hjá krökkunum var þegar skipstjórinn brá á þann leik að skvetta yfir þau sjó. Það voru flestir blautir frá toppi til táar en höfðu virkilega gaman af.