7. bekkur á Reykjum í Hrútafirði
7. bekkur fór í skólabúðir á Reyki í Hrútafirði 13. - 16. október.
Fimm nemendur úr 7. bekk, Hrafntinna, Norma, Vera, Sólbjört og Dalrós skrifuðu stutta ferðasögu frá Reykjum sem sjá má hér fyrir neðan.
Við lögðum af stað á Reyki á mánudaginn. Gildi Reykja eru GLEÐI - TRAUST - SAMVINNA og við vorum mikið að vinna með það á meðan við vorum þar. Okkur var skipt í þrjá hópa og við fórum á alls konar stöðvar alla vikuna sem eru tengdar sveitinni. Fyrsta kvöldið fórum við í sundlaugarpartý með ljósum, tónlist, vatnsbyssum og sápu. Enginn var með neitt vesen eða læti um kvöldið og allt gekk mjög vel. Hápunktur þriðjudagsins var kvöldvakan en á henni fengum við að koma með skemmtiatriði. Það var tískusýning á miðvikudeginum og þá var verið að farða bæði stráka og stelpur. Þetta var keppni og sigurvegarinn vann bleikt tröll úr myndinni Trolls. Elín og Mjöll voru einu kennararnir sem tóku þátt í tískusýningunni. Síðan var diskóball með lögum og stemningu út um allan íþróttasal! Margir smökkuðu hákarl. Hann var bæði vondur og góður en við erum öll sammála um að það er ógeðsleg lykt af honum. Við fengum nóg að borða. Við kynntumst fullt af krökkum úr öðrum skólum og lærðum nýja leiki.
Hrafntinna, Norma, Vera, Sólbjört og Dalrós
Þessi ferð á Reyki var algjörlega frábær frá upphafi til enda! Það er eitthvað svo dýrmætt fyrir okkur sem kennara að fá að kynnast krökkunum svona í allt öðrum aðstæðum en í skólanum.Dagskráin og skipulagið hjá UMFÍ var frábært, krakkarnir glaðir og jákvæðir og flestir brostu hringinn alla dagana. Við erum rosalega stoltar af nemendum okkar, þau voru kurteis, góð við hvort annað, stóðu alltaf við bakið á bekkjarsystkinum sínum og voru að auki ekki með neitt óþarfa vesen!
Starfsmennirnir frá UMFÍ sem sáu í raun alfarið um krakkana á daginn hrósuðu þeim í hástert í lok ferðar við okkur kennarana. Þau töluðu um það að þau hafi sjaldan fengið jafn kurteisa og góða krakka til sín, frá öllum skólunum. Þeim fannst þau líka svo glöð og hjálpsöm og alltaf svo jákvæð.
Elín og Mjöll