Svakalega lestrarkeppnin var lestrarátak fyrir nemendur í 1. til 7. bekk um land allt. Keppnin hófst 15. september og stóð fram til 15. október.
Markmið lestrarkeppninnar var að hvetja nemendur til að lesa meira og efla áhuga þeirra á bókum. Nemendur skráðu niður hversu lengi þeir lásu á tímabilinu. Í lok keppninnar var heildarfjöldi lestrarmínútna skólans sendar inn. Nemendur stóðu sig mjög vel og gaman að sjá hvað þeir eru duglegir að lesa en nemendur Hvassaleitisskóla lásu alls 275.462 mínútur samtals sem gera 1.293 mínútur á hvert barn.
Sigurvegari keppninnar verður tilkynntur á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, í sjónvarpsþættinum Málæði á RÚV. Skólinn sem les í flestar mínútur sigrar keppnina og hreppir titilinn Svakalegasti lestrarskóli landsins ásamt því að fá glæsileg bókaverðlaun. Að auki fær sá skóli sem les mest í sínum landshluta sérstaka viðurkenningu.
Þegar átakinu var lokið fengu allir nemendur skólans íspinna í viðurkenningarskyni
og hér fyrir neðan má sjá myndir af kampakátum nemendum í 1. og 2. bekk.