Lausnamiðuð nálgun er hugarfar og tungumál sem getur tekið tíma að venja sig á að nota. Það er mikilvægt að muna að æfingin skapar meistarann!
Ef þú vilt verða betri í lausnamiðaðri nálgun er gott að hafa minnismiða handhæga og spjöldin hér fyrir neðan eru hugsuð sem slíkir minnismiðar.
Spjöldin má nota á margvíslegan hátt:
Líma á skjáborð
Hengja upp á veggi
Líma á vinnuborð eða inn í vinnubækur
Prenta í litlu formi, klippa út og plasta og setja saman í lyklakippu sem hægt er að ganga með á sér í daglegu starfi.
Spjöldin tala til þín í 2. persónu. Þessi "þú" getur verið kennarinn eða nemandinn, allt eftir því hvað hentar í ólíkum aðstæðum. Við leggjum samt áherslu á að kennari stýri notkun spjaldanna og sendi þau ekki til nemenda nema þeir hafi fengið kynningu á þeim. Spjöldin eru hugsuð sem minnismiðar til kennarans. Þau minna okkur á að horfa á styrkleika nemenda, hugsa í lausnum og sýna okkur góðar spurningar og setningar til að leiða samtöl við nemendur í uppbyggilegar áttir.
Mörg spjaldanna er hægt að nota í samtölum við nemendur, sérstaklega spjöldin með skölunum. Kennarinn getur þá rétt nemandan eitt spjald til að hjálpa honum að hugsa sig út úr vandamálinu. Varist að nota of mörg spjöld í einu eða láta nemendur svara mörgum spurningum í röð ef samtalið snýst um að leysa vanda í daglegu amstri. Spurningalistarnir eru frekar hugsaðir svo kennarinn geti valið úr þá sem hentar best hverju sinni.
Hentar til að hengja á veggi
Hentar til að plasta, klippa niður og festa í spjaldakippu