Lausnamiðuð nálgun krefst hugsunar og viðhorfa sem mörg okkar eru ekki vön og þurfum því að æfa okkur í.
Hér fyrir neðan er lýsing á röð kennslustunda til að þjálfa lausnamiðaða hugsun. Sérstök áhersla er lögð á verkefni sem auka sjálfsþekkingu og styrkja sjálfsmyndina.
Við mælum með að kennarar nýti þetta námsefni í samráði við náms- og starfsráðgjafa skólans. Þeir eru sérmenntaðir í ráðgjöf, geta leiðbeint kennurum og stutt við nemendur ef í ljós koma mál sem vinna þarf með á einstaklingsmiðaðri hátt en mögulegt er í bekkjarkennslunni.
Gott er að fara í gegnum verkefnin í þeirri röð sem hér er gefin upp því seinni verkefni byggja á því sem á undan er komið. Hver kennslustund er 30-40 mínútur. Við mælum með að hafa nokkra daga á milli kennslustunda, til dæmis að kenna efnið einu sinni í viku.
Yfirlit um öll verkefnablöð er á þessari síðu.
Verkefnin miðast við að þjálfa hæfni nemenda í sjálfsþekkingu, ábyrgð á eigin hegðun og samskiptum. Hægt er að meta eftirfarandi hæfniviðmið úr Aðalnámskrá grunnskóla, greinasvið 2013 í vinnu nemenda:
Nemandi getur hugleitt og tjáð hver hann er í augum sjálfs sín og annarra [...].
Nemandi getur rökstutt gildi jákvæðra lífsviðhorfa, dygða og gildismats, sem mikilvægs þáttar í heilbrigðri sjálfsvitund.
Nemandi getur átt góð samskipti þar sem gætt er að máli, hlustun, tillitssemi, virðingu og kurteisi.
tjáð hugmyndir sínar og skoðanir og fært rök fyrir þeim í rituðu máli [...].
Nemandi geturtjáð hugsanir sínar, hugmyndir og tilfinningar á skipulegan, skýran og viðeigandi hátt.
Nemandi getur skilgreint og rökstutt viðmið um árangur.
Nemandi getur verið óhræddur að nýta sér mistök og óvæntar niðurstöður á gagnrýninn og skapandi hátt og séð í þeim nýja möguleika.
Nemandi getur beitt mismunandi sjónarhornum, gagnrýninni hugsun við mótun og miðlun viðfangsefna á skapandi hátt.
Nemandi getur gert sér grein fyrir hvernig hann getur hagnýtt sterkar hliðar sínar á skapandi hátt í námi og haft skýra sjálfsmynd.
Nemandi getur sett sér raunhæf markmið um frammistöðu og framvindu eigin náms, unnið eftir þeim og lagt mat á hvernig til hefur tekist.
Markmið: Að nemendur sjái og viðurkenni styrkleika sína; Að kennari kynnist styrkleikum nemendanna betur.
Fyrsti hluti: Hugflæði um styrkleika.
Annar hluti: Minnisleikur um styrkleika.
Í lok tíma (og heimavinnu): Nemendur vinna verkefnablaðið Styrkleika skjöldurinn.
Markmið: Að nemendur hugsi um hvað skiptir þá mestu máli í lífinu, læri að lýsa gildum sínum og bera þau saman við gildi annarra.
Fyrsti hluti: Kennari útskýrir fyrir nemendum hvað "gildi" séu, tekur dæmi og hlustar eftir hugmyndum nemenda. Gott getur verið að gera hugflæði sem er skráð á töflu sem er sýnileg öllum nemendum og skrifa upp öll gildi sem nemendur þekkja og finnst skipta máli. Hægt er að sýna þetta stutta myndband á ensku til að koma hugmyndum af stað.
Annar hluti: Einstaklingsverkefni. Kennari lætur nemendur hafa vinnublaðið "Gildapýramídinn" (bls. 1 og 2 í heftinu) og aðstoðar eftir þörfum.
Þriðji hluti: Unnið í 3-6 manna hópum. Kennari lætur nemendur hafa vinnublaðið "Sameiginleg gildi 1." (bls. 3 í heftinu) og aðstoðar hópa eftir þörfum.
Fjórði hluti: Unnið í sömu hópunum og þriðji hluti. Kennari lætur nemendur hafa vinnublaðið "Sameiginleg gildi 2." (bls. 4 í heftinu) og aðstoðar hópa eftir þörfum.
Fimmti hluti: Allur bekkurinn kemur saman í umræðu. Hópar segja frá helstu niðurstöðum sínum.
Markmið: Að nemendur læra að lýsa aðstæðum og tilfinningum á skala frá 0-10 og útskýra hvað veldur einkunninni. Að nemendur æfi sig að skoða stöðu frá ólíkum sjónarhornum, betri og verri.
Fyrsti hluti: Kennari fer yfir sýnidæmi um hvernig skali er notaður til að lýsa vandamáli.
Annar hluti: Nemendur vinna í pörum verkefnablaðið Skalinn. Á seinni síðunni mælum við með að nemendur velji sér sameiginlegt vandamál sem þeir svara saman því verkefnið er mikilvægur undirbúningur fyrir einstaklingsvinnu í næstu kennslustundum.
Markmið: Að nemendur læri að vinna með kraftaverkaspurninguna.
Fyrsti hluti: Kennari fer yfir sýnidæmi með kraftaverkaspurningunni.
Annar hluti: Nemendur vinna í pörum verkefnablaðið Kraftaverkaspurningin.
Þriðji hluti - ef tími vinnst til: Nemendur vinna verkefnablaðið Kraftaverkaspurningin einstaklingslega. Kennari leggur áherslu á að þeir taki fyrir atriði sem þeir hafa upplifað sem vandamál hjá sér undanfarna sjö daga. Það þarf ekki að vera stórt vandamál, bara eitthvað sem þeir vilja gera betur, hætta að gera eða byrja að gera.
Markmið: Að nemendur æfi sig að skilgreina hegðun sem losar þá frá vandamálum sem þeir upplifa og leiðir að betri líðan.
Í þessari kennslustund er gott að gefa nemendum val milli nokkurra verkefnablaða sem hægt er að nota: Upp og niður skalann, Undantekningin og Hvernig lítur betri staða út?
Fyrsti hluti: Kennari sýnir dæmi um hvernig hægt er að vinna með vandamál í vinnublöðunum. Gott er að útskýra hvað er líkt í vinnublöðunum, hvað er ólíkt, og leyfa nemendum síðan að velja eitt vinnublað til að æfa sig á. Ef þeir hafa áhuga og tíma geta þeir síðan fengið fleiri vinnublöð úr bunkanum og þá er æskilegt að þeir haldi áfram að fjalla um sama vandamálið, frekar en að taka nýtt fyrir. Þannig ná þeir að skoða og finna fjölbreyttari lausnir við þeim vanda sem þeir eru að hugsa um.
Annar hluti: Nemendur vinna verkefnablöðin.
Þriði hluti - Útgöngumiði: Í lok kennslustundar lætur kennari nemendur hafa miða til að skrifa á og biður þá um að svara tveimur spurningum:
"Hvað lærðir þú af því að hugsa í gegnum spurningarnar í verkefnablaðinu?"
"Getur þú nýtt svona spurningar til að hjálpa þér að ganga betur eða líða betur í daglegu lífi?"
Markmið: Að nemendur vinni sig í gegnum heilt ferli lausnamiðaðarar nálgunar, unnið í verkefnabók. Að kennari fari yfir vinnu nemenda og meti þörf á einstaklingsmiðaðri ráðgjöf.
Verkefnið tekur 40-45 mínútur.
Öll gögn (leiðbeiningar til kennara og vinnhefti nemenda) eru á þessari síðu. Nemendur fá verkefnahefti hjá kennara og skrifa ígrundun samkvæmt leiðbeiningum. Nemendur skila vinnuhefti til kennara í lok tímans.
Gert er ráð fyrir að búið sé að vinna kennslustundir 1-6 áður en þetta verkefni er lagt fyrir að hausti. Við mælum líka með að endurtaka svo þessa kennslustund um mitt vor.