Lausnamiðuð nálgun er aðferð sem þróuð hefur verið fyrir ráðgjöf og meðferðarstarf en getur nýst öllum til að leysa vandamál í samskiptum eða líðan, vandamál sem koma upp hjá öllum í hversdagslífinu og daglegu starfi skóla.
Lausnamiðuð nálgun er fljótleg og tiltölulega einföld aðferð til að bregðast við vanda sem einstaklingur eða hópur upplifir. Hún felst í því að eftir að vandamál hefur verið tilgreint er það sett á skala til að meta hversu alvarlegt það er. Síðan er skoðað frá nokkrum sjónarhornum hvernig lífið væri án þessa vandamáls og hvað hægt er að gera til að komast á þann áhyggjulausa stað.
Lausnamiðuð nálgun hefur reynst vel í skólastarfi til að hjálpa nemendum að finna leiðir til betri hegðunar og líðunar. Nokkrir þættir skýra árangur aðferðarinnar á vettvangi skólanna:
Byggt er á þeirri trú að börn vilji gera vel og geti leyst sín eigin vandamál.
Aðferðin er valdeflandi fyrir börn, þau upplifa að á þau sé hlustað og að þau fái að ráða einhverju um sín eigin mál.
Aðferðin horfir á lausnir, frekar en vandamál. Þetta er oft áhrifaríkur þáttur í samstarfi við nemendur sem upplifa að þeir séu alltaf að valda vandamálum.
Aðferðin er ekki tímafrek. Í ráðgjöf er gert ráð fyrir að samtal ráðgjafa við ráðþega taki um 30-40 mínútur og að hvert vandamál megi leysa með 1-3 samtölum þar sem öllu ferlinu er fylgt og styttri eftirfylgnisamtölum.
Aðferðina má aðlaga að bekkjarstarfi.
Hægt er að vinna verkefni með hópum þar sem nemendur skrifa sig í gegnum sjálfvalin vandamál undir stjórn kennara sem segir þeim um hvaða skref þeir eiga að taka í ferlinu.
Kennarar geta nýtt tungumál aðferðarinnar í samtölum við nemendur sem þurfa einstaklingsmiðaða athygli og aðstoð við að leiðrétta hegðun eða ná betri íðan.
Kennarar geta líka nýtt þætti úr aðferðinni við bekkjarstjórnun og til að halda utan um bekkjarbrag.
Vandamál er skilgreint og sett á skala frá 0-10 þar sem 0 þýðir að vandinn gæti ekki verið meiri en 10 þýðir að vandinn er horfinn. Spurningin um skalann er endurtekin einu sinni til tvisvar í samtalinu til að fá einstaklinginn til að endurmeta stöðuna.
Lýsingar eru settar fram á stöðunni án vandamálsins. Áhersla er lögð á að lýsa hegðun einstaklinga til dæmis með því að biðja þá að lýsa stöðunni eins og í myndbandi: "Hvað ert þú að gera þegar þú hefur leyst vandamálið þitt? Lýstu því sem þú gerir en ekki því sem þú vilt ekki vera að gera." Beðið er um að fleiri atriði séu nefnd með spurningum á borð við: "Hvað annað ertu að gera þegar..." eða "Hvað annað sérðu að fólk er að gera þegar..."
Kraftaverkaspurningin er notuð til að hjálpa fólki að horfa á lausnir frekar en vandamál, horfa til framtíðar frekar en fortíðar. Kraftaverkaspurningin er í raun stutt saga sem endar á spurningunni:
"Ímyndaðu þér að í nótt gerist kraftaverk sem eyðir vandamálinu þínu. Þegar þú vaknar í fyrramálið þá er vandamálið horfið, eins og það hafi aldrei verið til staðar. Hvað er fyrsta breytingin sem þú sérð á sjálfri þér í fyrramálið? Lýstu einhverri sýnilegri breytingu, sem bæði þú og aðrir myndu taka eftir og sem myndi sýna að þú værir að gera eitthvað öðruvísi en áður."
Horft er á stöðuna frá sjónarhorni annars fólks. Þetta er gert til að hjálpa einstaklingnum að horfa á stöðuna frá fleiri hliðum. Til dæmis er hægt að fylgja kraftaverkaspurningunni eftir með því að segja: "Segðu frá einhverjum sem myndi taka eftir þessari breytingu hjá þér. Hvernig myndi sú persóna bregðast við þér? Lýstu hvað hún myndi gera eða segja."
Spurt er hvernig sýn einstaklingsins breytist síðan eftir að hafa hugsað málið frá sjónarhorni annars fólks: "Lýstu næst hvað þú myndir gera þegar þessi persóna væri búin að segja eða sýna þér það sem hún gerði. Lýstu hegðun sem þú og aðrir myndu taka eftir hjá þér. Ekki lýsa einhverju sem þú myndir ekki gera."
Einstaklingurinn er beðinn um að sjá fyrir sér vel heppnuð tilvik, það er, aðstæður þar sem vandinn var minni eða einstaklingnum tókst betur að glíma við hann: "Lýstu tíma eða atviki þegar líf þitt var eins og kraftaverkið hefði gerst, þótt það sé ekki nema eitthvað pínulítið atvik."
Skoðað er hvernig hugsanir og hegðun eru ólík eftir því hvar vandamálið er statt á skalanum frá 0-10. Hægt er að búa til lýsingu fyrir nokkrar einkunnir til að sjá í hverju betri og verri staða felst: "Lýstu hvað þú hefur gert til að komast upp í þessa einkunn á skalanum. Segðu frá sýnilegri hegðun, einhverju sem bæði þú og aðrir taka eftir. Ekki lýsa einhverju sem þú myndir ekki gera." " Lýstu hvað þú myndir gera ef þú værir komin enn einu stigi hærra á skalanum. Segðu frá sýnilegri hegðun, einhverju sem..."
Mikil áhersla er lögð á að einstaklingurinn fái jákvæð skilaboð og hjálp við að sjá styrkleika sína: "Flott hjá þér að bíða með að svara henni!", "Rifjaðu upp hvað þú varst ánægð með hjá sjálfri þér þarna."
Samtölum, bæði með einstaklingum og hópum, er lokað með samantekt ráðgjafa/kennara þar sem hann dregur fram þá stöðu sem lýst hefur verið, hvaða ákvarðanir hafa verið orðaðar og gefur einstaklingnum/hópnum verkefni til að vinna þar til staðan er næst skoðuð.
Eftirfylgni getur falist í að aftur er farið í gegnum öll skrefin eða bara með örstuttum spurningum á förnum vegi um hvernig gangi með verkefnið sem sett var fyrir í lok samtalsins.
Insoo Kim Berg og Arnoud Huibers:
Classroom Solutions - Application of the Solution-Focused Approach
Lausnamiðaða nálgun má nota með kennurum jafnt sem nemendum. Í þessu myndbandi sést hvernig Insoo Kim Berg, einn af upphafsmönum aðferðarinnar, aðstoðar kennara og nemendur í hollenskum skóla að snúa neikvæðum bekkjarbrag yfir í jákvæðan.
Myndbandið er tæplega 24 mínútur og sýnir hvernig kennarar og nemendur læra nokkur grundvallaratriði lausnamiðaðrar nálgunar og má þar helst nefna:
1. Að trúa á vilja nemenda til að gera vel og getu þeirra til að leysa vandamálin sín.
2. Að horfa á styrkleika nemenda og byggja á þeim til að leysa vandamál.
3. Að nota skala til að meta stöðuna og útskýra þessa stöðu með nákvæmum lýsingum á hegðun, því sem hægt er að sjá og heyra í skólastofunni.
4. Að fylgja samtali um úrbætur eftir með því að endurmeta stöðuna reglulega, hrósa fyrir það sem gengur vel og setja ný markmið.
Ráðgjafinn Mark Tyrell útskýrir tilganginn með því að setja vandamál á skala og tekur dæmi um hvernig hægt er að nota skala í samtölum við ráðþega eða nemendur.
Mark snýr skalanum öndvert við það sem við gerum í verkefnunum á þessum vef, en að öðru leyti á allt sem hann segir vel við.
Kennari getur notað tungumál lausnamiðaðrar nálgunar til að sýna nemendum virka hlustun og leiðbeina þeim út úr neikvæðum aðstæðum á þann hátt að barnið upplifir að það stjórni sér sjálft. Á þessari síðu eru góð ráð sem klippa má niður og plasta til að geyma í vasanum eða á kennarapúltinu sínu og grípa til á meðan aðferðin er ekki orðin fullkomlega sjálfkrafa.
Mundu að æfingin skapar meistarann!
Fyrirmyndin að þessari útfærslu er á vefnum uppbygging.is: Góð ráð - Spjaldakippa