Lög félagsins


Hestamannafélagið Blær

Lög


1.grein

Nafn félagsins er Hestamannafélagið Blær og heimili þess, félagssvæði og varnarþing er í Fjarðabyggð. Félagið er aðili að UÍA, L.H. og ÍSÍ og er háð lögum, reglum og samþykktum þessara samtaka.


2.grein

Markmið félagsins er: að stuðla að iðkun hestamennsku sem tómstundargamans, almenningsafþreyingu og hestaíþróttastarfsemi, stuðla að góðri meðferð hrossa og efla áhuga og þekkingu á ágæti þeirra.


Að vinna að, á vegum félagsins, kennslu í hestamennsku, fræðslu tengdri hestum og hestaíþróttum, hrossarækt og öllum hestatengdum málefnum á áhugasviði hestamanna.


Að reiðvegir séu gerðir sem víðast, þannig að önnur umferð verði til sem minnstrar hindrunar og óþæginda fyrir útreiðar og gagnkvæmt. Vegum þessum sé ávallt haldið eins vel við og efni og aðstæður leyfa.


Að gangast fyrir að félagsmönnum verði úthlutað sumarhagagöngu fyrir hesta sína.


Að gangast fyrir að nægilegt framboð sé af byggingarlandi fyrir hesthús í nánu samstarfi við bæjaryfirvöld.


Eiga og reka félagsaðstöðu. Að bæta aðstöðu félagsmanna til að iðka hestamennsku sem tómstundagaman, keppnis- og sýningaríþrótt með því m.a. að koma upp/viðhalda velli, byggja upp íþróttamannvirki og viðhalda þeim til æfinga, keppni og hestaíþrótta.


Hestamannafélagið skal standa fyrir félagsmóti árlega. Félagsmót skulu haldin eins og lög og reglur L.H. segja til um og vera lögleg mót. Félagsmót skulu ávallt vera opin mót.


3.grein

Félagar geta allir orðið. Umsókn skal koma til stjórnar félagsins. Stjórn félagsins getur samþykkt félagsaðild til bráðabirgða. Leggja skal afgreiðslu stjórnar fyrir aðalfund til staðfestingar.


Félagsmenn bera ekki fjárhagslega ábyrgð vegna skuldbindinga félagsins umfram greiðslu árgjalda.


4.grein

Félagsmaður sem skuldar árgjald eða stendur að öðru leyti í skuld við félagið fellur af félagatali við lok reikningsárs hafi hann ekki samið um annað. Viðkomandi getur ekki öðlast félagsréttindi á ný nema eldri skuld sé greidd.


Félagsmenn yngri en 18 ára hafa almennt ekki atkvæðisrétt á aðalfundum og almennum félagsfundum. Stjórn félagsins getur gefið undanþágu frá þessu ákvæði. Við 18 ára aldur öðlast félagsmenn full réttindi til atkvæðagreiðslna.


5.grein

Reikningsár félagsins er almanaksárið.


Stjórn félagsins ber alla ábyrgð og hefur yfirstjórn á fjárreiðum félagsins og einstakra deilda og nefnda. Deildum og nefndum er óheimilt að stofna til fjárskuldbindinga án heimildar stjórnar félagsins.


Reikningar félagsins skulu endurskoðaðir og áritaðir af kjörnum skoðunarmönnum félagsins og liggja frammi á aðalfundi.


Hefja skal innheimtu félagsgjalda eigi síðar en 1. maí og eindagi þeirra er 15. maí. Þeir félagar sem náð hafa sjötugs aldri skulu undanþegnir greiðslu árgjalda. Börn að 14 ára aldri greiði barnagjald og unglingar frá 14 ára að 18 ára aldri greiði unglingagjald. Breytingar á félagsgjaldi eru einungis heimilar samþykki aðalfundur þær.


6.grein (breyting 2021 á Aðalfundi)

Aðalfund skal halda eigi síðar en í október ár hvert. Til hans skal boða með minnst tveggja vikna fyrirvara með bréflegri tilkynningu og auglýsingu á félagssvæðinu. Í fundarboðum skal gera grein fyrir dagskrá og tillögum að lagabreytingum, sé um þær að ræða.


Dagskrá aðalfundar er: 1. kosning fundarstjóra og fundarritara. 2. innganga nýrra félaga borin upp til samþykktar. 3. skýrsla stjórnar framlögð og skýrð af formanni þar sem farið er yfir starfsemi félagsins á liðnu ári. 4. reikningar félagsins lagðir fram og skýrðir af gjaldkera, Umræður og atkvæðagreiðslur um liði 3 og 4. 5. formenn nefnda gera grein fyrir störfum nefnda sinna á liðnu ári. 6. kosning stjórnar, fimm stjórnarmeðlima og tveggja til vara, stjórn skiptir með sér verkum. 7. kosning tveggja endurskoðenda. 8. kosið í nefndir en þær eru: fimm fulltrúar í æskulýðsnefnd, fimm fulltrúar í mótanefnd, fimm fulltrúar í firmanefnd (skal gjaldkeri félagsins vera formaður hennar), þrír fulltrúar í reiðveganefnd og þrír fulltrúar í kaffinefnd. 9. tillaga lögð fram um árgjald næsta árs. 10. lagabreytingar. 11. önnur mál sem félagið varðar.


Kosningar skulu vera leynilegar ef minnst þriðjungur atkvæðabærra fundarmanna óskar þess.

7.grein

Stjórn ákveður félagsfundi. Ef minnst tíu félagsmenn æskja þess skriflega og tilgreina fundarefni skal boða til fundar innan 10 daga frá móttöku beiðninnar. Til félagsfunda skal boða með minnst þriggja daga fyrirvara með auglýsingu á félagssvæðinu ásamt bréflegri eða rafrænni tilkynningu. Stjórn félagsins ber ábyrgð á að uppfæra heimasíðu félagsins reglulega og setja þar inn fréttir af starfsemi þess.


8.grein

Formaður félagsins boðar til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Stjórnarmenn geta hvenær sem er óskað eftir stjórnarfundi. Varamenn skulu ávallt boðaðir og skulu þeir hafa tillögurétt og málfrelsi. Formaður félagsins er fulltrúi og talsmaður félagsins út á við og hefur ásamt félagsstjórninni yfirumsjón með allri starfsemi þess. Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans.


9.grein

Ritari annast allar bréfaskriftir og tölvusamskipti fyrir félagið í samráði við stjórn. Hann ritar allar fundargerðir stjórnarfunda í þar til gerða fundarbók og undirritar þær.


10.grein

Gjaldkeri sér um innheimtu félagsgjalda og annast allar fjárreiður félagsins. Hann skal fyrir aðalfund ár hvert gera eða láta gera reikningsyfirlit um hag félagsins og leggja reikninga þess endurskoðaða fyrir aðalfund til úrskurðar.


11.grein

Stjórn félagsins er einni heimilt að tilnefna heiðursfélaga. Heiðursfélagar geta þeir einir orðið sem sýnt hafa frábæran áhuga og dugnað í störfum sínum til eflingar félagsins og markmiðum þess.


12.grein

Formaður félagsins skal vera sjálfkjörinn á ársþing L.H. Stjórn félagsins skal kjósa annan í hans stað ef þarf. Fulltrúar félagsins á ársþing L.H. eiga rétt á greiðslu ferða- og dvalarkostnaðar samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.


13.grein

Heimilt er á aðalfundi að kjósa nefndir og stofna deildir innan félagsins. Einnig getur stjórn félagsins skipað nefndir til ákveðinna verkefna. Deildir og nefndir eru bundnar af lögum félagsins. Deildir og nefndir sem stofnaðar eru á aðalfundi verða ekki lagðar niður nema með ákvörðun aðalfundar.


14.grein

Stjórn félagsins er óheimilt að selja fasteignir félagsins, kaupa fasteignir eða hefja byggingu þeirra nema með samþykki aðalfundar eða félagsfundar. Hyggist stjórnin leita samþykkis fundar fyrir slíkri ráðstöfun skal geta þess í fundarboði.


Hestamannafélagið Blær skal eiga 100% hlut í Dalahöllinni ehf. Kjörin stjórn hestamannafélagsins skal að loknum aðalfundi kjósa fimm manna stjórn Dalahallarinnar ehf. ár hvert og tvo varamenn.


15.grein

Nefndum, deildum og stjórn ber að fara eftir „starfslýsingum“ sem samþykktar eru á aðalfundi um starfshætti, starfssvið og annað sem þar er getið. Með tillögur til breytinga á þeim skal fara sem um tillögur til lagabreytinga.


16.grein

Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi þar sem mættir eru minnst 1/5 lögmætra og atkvæðabærra félagsmanna og 2/3 hlutar greiddra atkvæða samþykki breytinguna. Mæti of fáir skal boða til fundar á ný og öðlast þá áður fram borin lagabreyting gildi ef hún er samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða án tillits til þess hve margir félagsmanna eru mættir á fundinn. Tillögur sem félagsmenn vilja bera fram á lögum félagsins eða reglum þess skulu berast stjórninni skriflega eigi síðar en 20 dögum fyrir aðalfund. Ber stjórn að gera grein fyrir slíkum tillögum í fundarboði aðalfundar svo og tillögur sem hún hyggst bera fram til breytinga á lögum og reglum félagsins.


Lög og lagabreytingar Hestamannafélagsins Blæs öðlast gildi þegar þau hafa verið samþykkt á lögmætum aðalfundi og stjórnir UÍA, L.H. og ÍSÍ hafa staðfest þau sbr. lög Íþrótta- og ólympíusambands Íslands nr. 22.2.


17.grein

Tillögur um félagsslit skulu sæta sömu meðferð og lagabreytingar. Komi til þess að félagið verði leyst upp skulu eignir þess vera í vörslu Fjarðabyggðar og ráðstafar þá Fjarðabyggð eignum þess í sem bestu samræmi við þann tilgang sem félaginu var settur í upphafi. Það telst ekki upplausn þótt félagið sameinist öðrum hliðstæðum samtökum í öðrum héruðum. Ráðstöfunarréttur á fjáreign félagsins kemur ekki til framkvæmda fyrr en að minnst þremur árum liðnum frá upplausn félagsins.



Samþykkt á aðalfundi Hestamannafélagsins Blæs 21. nóvember 2013.