Flauelskanínan segir frá litlum dreng og tuskukanínunni hans, sem dreymir um að verða raunveruleg. Sagan fjallar um vináttu, gleði og sorg, frá sjónarhorni kanínunnar og drengsins sem fær hana í jólagjöf og um töfra barnaherbergisins sem glætt geta leikföng lífi. Bókin hefur virkjað ímyndurnarafl lesenda á öllum aldri með því að færa þeim heim ýmis tímalaus sannindi um tilveruna frá því hún kom út árið 1922.
Bókin heitir á frummálinu The Velveteen Rabbit (or How Toys Become Real) og höfundur hennar er Margery Williams Bianco (22. júlí 1881 – 4. september 1944). Þýðinguna skreyta upprunalegu teikningarnar eftir William Nicholson (5. febrúar 1872 – 16. maí 1949).
Íslenskun, umbrot o.fl. var í höndum Haraldar Steinþórssonar og deilir hann kennitölu með útgáfufélaginu Skrifræði, sem gefur söguna út. Söguna má nálgast hér á síðunni undir Niðurhal.
Bókin er 40 bls. að öllu meðtöldu og áætlaður lestrartími um 15 mínútur. Staða í ISBN kerfinu er 978-9979-72-345-5.
* * *
Sagan um Flauelskanínuna hefur ekki áður verið þýdd á íslensku svo kunnugt sé. Kanadísk barnamynd frá 1985, byggð á sögunni, var hins vegar sýnd í Ríkissjónvarpinu árið 1988 undir heitinu Floskanínan, í þýðingu Sigurgeirs Steingrímssonar.
Þýðingin sem hér er aðgengileg víkur í örfáum atriðum frá sögunni á frummálinu sem kom út árið 1922. Þannig hefur barnfóstru drengsins verið skipt út fyrir móður hans, kanínan er fyllt með hálmi í staðinn fyrir sag og rifsberjarunnar eru teknir fram yfir hindberjarunna í íslensku útgáfunni. Síðast en ekki síst er kanínan úr flaueli (e. velvet) í stað þess að vera úr baðmullarflaueli (e. velveteen) eins og í frumútgáfunni.