Athugasemd þýðanda
Þetta er óformleg íslensk þýðing á almenningsleyfinu eignun - ekki í hagnaðarskyni - deilist með sömu skilyrðum 4.0 - alþjóðlegt almenningsleyfi skapandi sameignar (CC BY-NC-SA 4.0). Önnur þýðing á nafni leyfisins er Tilvísun-EkkiÁgóðaskyni-DeilaEins 4.0 Alþjóðlegt. Leyfið er hluti af verkefninu skapandi sameign (e. Creative Commons). Notkunarleiðbeiningarnar sem fylgja með enskri útgáfu þess eru eingöngu þýddar að hluta enda eru þær ekki órjúfanlegur hluti leyfisins.
This is an unofficial Icelandic translation of the Public Licence below.
---
Creative Commons, aðstandendur verkefnisins skapandi sameign, veita ekki lögfræðiþjónustu og með því að gera þetta leyfi aðgengilegt skapast ekki trúnaðarsamband eða annars konar samband við Creative Commons. Eftirfarandi almenningsleyfi og tengdar upplýsingar eru látnar í té án ábyrgðar.
Notkun Creative Commons almenningsleyfa
Með almenningsleyfum verkefnisins skapandi sameignar (Creative Commons, CC) eru settir fram skilmálar og skilyrði á samræmdan hátt, sem höfundum og öðrum rétthöfum er heimilt að nota til að deila upprunalegum höfundaréttarverkum og öðru efni sem háð er höfundarétti og öðrum réttindum sem tilgreind eru að neðan. Eftirfarandi atriði eru eingöngu til upplýsingar. Ekki er um tæmandi talningu að ræða og atriðin teljast ekki hluti leyfisins.
Almenn atriði fyrir leyfisveitanda: Almenningsleyfi eru ætluð til notkunar þeirra sem eru til þess bærir að veita almenningi leyfi til notkunar á efni með þeim hætti sem að öðrum kosti væri ekki heimill samkvæmt höfundarétti og öðrum réttindum sem kunna að eiga við. Leyfin eru óafturkallanleg. Leyfisveitendum er rétt að kynna sér skilmála og skilyrði leyfisins áður en þeir taka ákvörðun um að nýta sér það, til þess að almenningur megi endurnota efnið með þeim hætti sem til er ætlast. Leyfisveitendum er einnig rétt að auðkenna það efni sem leyfið tekur ekki til. Fleiri atrið fyrir leyfisveitanda (á ensku).
Almenn atriði fyrir almenning: Með notkun á almenningsleyfi CC hefur leyfisveitandi gefið almenningi leyfi til að nota efnið sem leyfið tekur til, samkvæmt þeim skilmálum og skilyrðum sem tilgreind eru. Sé heimildar leyfisveitanda ekki þörf, til dæmis vegna takmarkana eða undanþága frá höfundarétti, veltur heimil notkun efnisins ekki á skilmálum leyfisins. Leyfi CC kveða einungis á um heimildir samkvæmt höfundarétti og öðrum réttindum sem kunna að eiga við, sem leyfisveitandi er bær til að ráðstafa. Notkun á efninu sem leyfið tekur til getur verið háð takmörkunum af öðrum ástæðum, svo sem ef aðrir eiga höfundarétt eða önnur réttindi að efninu. Leyfisveitandi getur farið fram á sérstakar ráðstafanir, svo sem að allar breytingar séu auðkenndar eða þeim lýst. Enda þótt slíkar beiðnir falli ekki undir leyfi CC eru notendur hvattir til að viða þær, enda séu þær hæfilegar. Fleiri atriði fyrir almenning (á ensku).