Höfundaréttur

Flauelskanínan (The Velveteen Rabbit, or, How Toys Become Real) kom fyrst út í Bandaríkjunum árið 1922. Höfundaréttarvernd verka sem gefin voru út þar í landi fyrir 1. janúar 1923 takmarkast við 75 ár frá útgáfu. Verndartími upprunalega verksins er þannig liðinn frá og með 1. janúar 1998 og engar takmarkanir á því hverjum er heimilt að gefa það út, aðlagað eða í óbreyttri mynd.

Íslenska þýðingu bókarinnar annaðist Haraldur Steinþórsson. Þýðing er sköpun sem nýtur sjálfstæðrar verndar höfundaréttar, óháð því hvort frumverkið er orðið almenningseign. Öllum er heimilt að sækja sér þýðinguna hér á vefnum, prenta út eintök af henni og dreifa henni til einkanota. Útgáfa eða önnur dreifing þýðingarinnar í ágóðaskyni er hins vegar óheimil nema með samþykki höfundar. Sjá nánar undir Niðurhal.

Samkvæmt íslenskum höfundalögum helst höfundaréttur bókmennta og teikninga almennt í 70 ár frá næstu áramótum eftir lát höfundar. Sæmdarréttur, réttur til eintakagerðar og hvers konar fjárhagsleg réttindi í tengslum við verkið falla niður að þeim tíma liðnum.

Svokölluð regla um styttra tímabil (e. rule of the shorter term), sem m.a. er að finna í Bernarsáttmálanum til verndar bókmenntum og listaverkum og tilskipunum ESB um höfundarétt sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn, kveður á um að verndartímabil verka skuli ekki vera lengri en sá tími, sem tiltekinn er í upprunalandi verksins (ef upprunaland er utan EES). Af þeim sökum er höfundaréttur í tengslum við frumtexta og myndskreytingar Flauelskanínunar fallinn niður á Íslandi, en samkvæmt meginreglu höfundaréttarlaga myndi verndartími bókarinnar renna út í lok árs 2014.