Kveikja verkefnisins er að í störfum þeirra sem vinna þetta verkefni, annars vegar í Oddeyrarskóla og hins vegar í Þelamerkurskóla og í samtölum þeirra við kennara í öðrum skólum hafa þær orðið varar við að kennurum finnst erfitt að finna út úr því hvaða smáforrit eða vefsvæði eru í boði til að nýta í skólastarfinu. Það er reynsla hópsins að í dagsins önn sé ekki mikill tími til að leita að því sem hentar viðfangsefnum eða nemendahópum hverju sinni eða að kennurum gefist tími til að ráðfæra sig við samstarfsfólk.
Þar sem í hópnum sem vinnur þetta verkefni eru kennarar með víðtæka reynslu af notkun upplýsingatækni með umsjónarnemendum sínum ásamt því að í hópnum eru líka kennarar sem hafa kennt upplýsingatækni sem fag í stundaskrá nemenda var nærtækt að safna saman reynslu hópsins og þekkingu á heimasíðu sem kæmi þá fleiri kennurum að gagni.
Snjalltæki eiga æ stærri hlut af daglegu lífi bæði barna og fullorðinna og það skýtur skökku við að notkun þeirra sé takmörkuð í skólastarfi og jafnvel einangruð við sérstakar kennslustundir í upplýsingatækni. Tilgangur heimasíðunnar sem fylgir þessu verkefni er ekki síður að vera vettvangur sem auðveldar kennurum að samþætta upplýsingatæknina öðrum námsgreinum og þar með að gera notkun hennar að eðlilegum hluta í flestum námsgreinum og viðfangsefnum skólans.
Í þessum hluta er fyrst skoðað hvað lög um grunnskóla nr. 91/2008 segja um hlutverk skóla ásamt því að rýna í skilgreiningu aðalnámskrár grunnskóla frá 2011 á almennri menntuna. Síðan gerir hópurinn grein fyrir rannsóknum á kennsluháttum í grunnskólum á Íslandi. Það var gert til að kanna hvort og þá hvernig kennsluhættir taka mið af möguleikum upplýsingatækninnar til að gera kennsluhætti fjölbreytta. Að lokum er fjallað um erlendar kenningar um breytta kennsluhætti sem reikna með notkun upplýsingatækninnar á flestum sviðum skólastarfsins.