Eru kennsluhættir í grunnskólum almennt fjölbreyttir?

Rannsóknir á kennsluháttum í grunnskólum á Íslandi benda til þess að skólastarf taki lítið mið af breyttum aðstæðum í umhverfi skólanna. Dæmi um það er það sem upplýsingatæknin hefur upp á að bjóða. Í rannsókn Kristínar Jónsdóttur (2005) sem fjallaði m.a. um einstaklingsmiðun náms á unglingastigi í grunnskólum Reykjavíkur kom fram að kennarar nýta mest hefðbundna hópkennslu eins og að lesa, spyrja og spjalla, útskýra nánar á töflu og vinnu í vinnubókum og verkefnaheftum. Þetta er í takti við niðurstöður rannsóknar Gerðar G. Óskarsdóttur (2012) um skil skólastiga á Íslandi. Í þeirri rannsókn kom fram að hjá kennurum 10. bekkjar grunnskóla og 1. bekkjar framhaldsskóla birtust mjög líkar hugmyndir kennara um kennslu. Niðurstöður sýndu að kennsla er miðuð við hóp þar sem kennarar eru í sviðsljósinu í hlutverki fræðara, leiðsögumanns og stjórnanda. Litlar vísbendingar voru um að tekið væri tillit til ólíkra forsenda nemenda til náms.

Birna Sigurjónsdóttir (2015) kemst að sömu niðurstöðu og þær stöllur Kristín og Gerður við greiningu á vettvangsheimsóknum í rúmlega 1000 kennslustundir í ytra mat á grunnskólum í Reykjavík á árunum 2009-2013. Þar kemur fram að lítill munur er á kennsluháttum eftir aldri nemenda og í öllum aldurshópum er verkefnavinna undir stjórn kennara algengust. Bein kennsla með innlögn er þó algengari á unglingastigi en hjá yngri nemendum. Samkvæmt gögnum Birnu er ljóst að nokkuð vantar upp á að áherslur aðalnámskrár frá 2011 séu áberandi og má þar nefna fjölbreytta kennsluhætti, virkni nemenda í eigin námi, þjálfun í samvinnu og sjálfstæðum vinnubrögðum í úrvinnslu verkefna. Enda er það svo að gögnum rannsóknarinnar var safnað á árunum 2009-2011. Birna bendir á að á meðan þessir kennsluhættir verða enn áberandi fá nemendur ekki þjálfun í þeim vinnubrögðum sem aðalnámskrá grunnskóla ætlast til að nemendur tileinki sér, eins og hæfni í tjáningu og miðlun, skapandi og gagnrýninni hugsun, sjálfstæði og samvinnu, nýtingu miðla og upplýsinga og ábyrgð (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011).

Rannsóknirnar sem hafa verið nefndar hér að ofan eru allar gerðar í skólum í Reykjavík. Hafsteinn Karlsson (2009) gerði rannsókn á kennsluháttum í sex íslenskum og fjórum finnskum grunnskólum. Helstu niðurstöður hans eru að hefðbundnir kennsluhættir eru ríkjandi í báðum löndunum þar sem kennarinn byrjar yfirleitt kennslustundina á stuttum fyrirlestri sem fylgt er eftir með vinnu nemenda í vinnubókum. Í rannsókn Hafsteins kemur fram að helsti munurinn á kennsluháttum kennaranna í löndunum tveimur sem tóku þátt í rannsókninni er að þeir finnsku nýta fjölbreyttari kennsluaðferðir en íslensku kennararnir. Finnsku kennararnir eru meðvitaðri um kennsluaðferðir sínar en þeir íslensku og nýta sér líka meira kennsluleiðbeiningar en þeir íslensku. Þeir hafa sig líka meira í frammi í kennslustundum en íslensku kennararnir.

Í rannsókninni Starfshættir í grunnskólum (Ingvar Sigurgeirsson, Amalía Björnsdóttir, Gunnhildur Björnsdóttir og Kristín Jónsdóttir, 2014) var gögnum safnað í 20 skólum. Við gagnaöflun voru tekin viðtöl við kennara, lagðar fyrir þá spurningakannanir og farið í vettvangsheimsóknir. Skólarnir voru bæði utan og innan höfuðborgarsvæðisins. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að megineinkenni kennsluhátta í skólunum 20 voru annars vegar bein kennsla, með eða án samræðna við nemendur og hins vegar kennsla þar sem stuðst var við vinnubækur. Munur var á kennsluháttum á milli skóla og aldursstiga. Hópavinna, tilraunir, verklegar æfingar, leikræn tjáning, útikennsla og þemavinna ásamt sjálfstæðum verkefnum voru meira notaðar af kennurum yngstu barnanna og kennurum í teymiskennsluskólum. Í tveimur af teymiskennsluskólunum sem voru í rannsókninni örlaði á samþættingu upplýsingatækni við aðrar námsgreinar. Það var þegar nemendur unnu áhugasviðsverkefni þar sem þeir völdu sér viðfangsefninu og réðu því hvers konar verkefni þeir unnu úr því. Í niðurstöðum rannsóknarinnar vekur athygli sá mikli munur sem er á skipulagi kennslu í bekkjarskólum annars vegar og teymiskennsluskólum hins vegar.

Í sömu rannsókn (Sólveig Jakobsdóttir, Torfi Hjartarson og Bergþóra Þórhallsdóttir, 2014) var einnig kannað hvernig aðgengi að upplýsingatækni væri háttað í kennslustundum, hvernig nemendur og starfsmenn skólanna nýta upplýsingatækni í námi og kennslu ásamt því að skoða stefnumið stjórnvalda, fræðsluyfirvalda og skóla um nýtingu upplýsingatækni og hvernig þeim væri fylgt eftir. Niðurstöður benda til þess að mikið skorti á gott aðgengi að búnaði í mörgum skólum og að yfirleitt voru fáar tölvur í kennslustofum umfram kennaratölvur. Aðgengi nemenda að tölvubúnaði var að mestu í hefðbundnum tölvuverum. Einnig kemur fram að tölvunotkun og heimildaleit á netinu í almennu skólastarfi er fremur lítil en að kennarar nota upplýsingatæknina töluvert við undirbúning kennslu en nemendur að mestu í sérstökum tímum í upplýsinga- og tæknimennt þar sem allir nemendur sem voru í stofunni höfðu aðgang að tölvu. Rannsóknin sýnir einnig að töluverð sundurleitni virðist vera í framkvæmd náms og kennslu í upplýsingatækni, upplýsingamennt og stafrænni miðlun. Í þessum hluta rannsóknarinnar kemur það sama fram og í þeim sem skoðaði aðra kennsluhætti; kennarar hafa hug á að bæta við kunnáttu sína í notkun upplýsingatækni og þegar þeir eru í samstarfi við annað hvort aðra kennara eða skólasafnið. Höfundar benda á að tækninni fylgja tækifæri fyrir kennara og ekki síst fyrir nemendur. Tækninni fylgir einnig starfsþróun sem gerir aðrar kröfur til kennara en hefðbundin starfsþróun. Enda gefur hún fleiri möguleika en áður til að nálgast fjölbreytt efni og nálganir en áður hafa þekkst.

Af ofangreindu má sjá að þrátt fyrir að stefnumarkandi skjöl um skólastarf kveði á um að nemendum standi til boða almenn menntun sem geti gagnast þeim í nútímasamfélagi (Aðalnámskrá grunnskóla 2011 og lög um grunnskóla nr. 91/2008) þá hefur þróun fjölbreyttra kennsluhátta vart haldið í við tækniþróun undanfarinna áratuga.

Hið jákvæða í rannsóknunum hér fyrir ofan er að kennarar segjast vera opnir fyrir að auka fjölbreytni í kennsluháttum. Sem dæmi má nefna að í rannsókn Kristínar Jónsdóttur (2005) kemur fram að kennarar hafa áhuga á að auka notkun tölvutækninnar í námi og kennslu. Hið sama kemur fram í rannsókninni Starfshættir í grunnskólum (Ingvar Sigurgeirsson o.fl., 2014, bls. 149; Sólveig Jakobsdóttir o.fl., 2014, bls. 314). Þar sýna niðurstöður að þrátt fyrir að greina megi töluverða ánægju kennara með notkun þeirra á kennarastýrðum aðferðum hafa þeir áhuga á að nota fjölbreyttari kennsluaðferðir í meira mæli en áður. Sá áhugi er nánast í öfugu hlutfalli við raunverulega notkun þeirra. Mest langar kennara til að auka notkun útikennslu og vettvangsferða. Næst mest vilja þeir auka hlut tölvu- og upplýsingatækni, þrátt fyrir að notkun hennar mælist mjög lítil í raun. Og í þriðja lagi langar kennara að nýta meira það sem kallað er nemendamiðaðar kennsluaðferðir (leitaraðferðir og efniskönnun).

Af þessum niðurstöðum má greina að kennarar hafa áhuga á að þróa kennsluhætti sína og því má ætla að auðvelt verði að efla starfsþróun þeirra í þá átt að þeir opni kennslustofur sínar þannig að skólastarfið nýti til þess bæði upplýsingatæknina og umhverfi skólans, bæði nærumhverfi (vettvangsferðir og útikennslu) og það sem er nemendum fjær (notkun upplýsingatækni).

Eru kennsluhættir í grunnskólum almennt fjölbreyttir?