Núgildandi aðalnámskrá er stórt skref í átt að uppfærslu menntastefnu á Íslandi. Hún boðar nýjar áherslur. Áherslur á einstaklingsmiðað nám með aðstoð tækni og áherslu á hæfni einstaklinga að loknu námi. Lykilhæfnin er sannarlega viðleitni til að meta þá þætti sem alþjóðlegum stofnunum kemur saman um að séu mikilvægir fyrir nemendur til framtíðar. Hæfni til að vinna með öðrum, hæfni til að læra, hæfni til að takast á við nýjar áskoranir og ævimenntun bera merki um uppfærða menntastefnu (Gunnar E. Finnbogason, 2016). Nú þarf að sjá til þess að hinn almenni grunnskóli með hinn almenna grunnskólakennara hafi burði til að vinna eftir þessum áherslum.
Ingvi Hrannar Ómarsson og Örn Arnarson. (2015, 20. febrúar). SVAN módelið við innleiðingu á tækni (SAMR model).
Dr. Ruben Puentedura er höfundur SAMR líkansins og Ingvi Hrannar Ómarsson hefur sett fram íslenska þýðingu á líkani hans og kallar það SVAN líkanið. Það má nota til að lýsa ferlinu við innleiðingu tækni í skólastarfi. Það skiptist í fjögur stig: skipting (e. substitution), viðbót (e. augmentation), aðlögun (e. modification) og nýbreytni (e. redefinition) (Ingvi Hrannar Ómarsson og Örn Arnarson, 2015). Fyrstu skrefin í því að nýta upplýsingatækni í skólastarfi markast oft af því að skólar fara ekki lengra en sem nemur fyrsta stigi í líkani Puentedura. Samkvæmt því er aðaláherslan þá á að nota tækni sem staðgengil þess hefðbundna. Tæknin kemur þá bara í stað þess gamla án þess að bæta neinu nýju við eða breyta því sem fyrir er. Þetta kallast skipting (e. substitution). Þegar tekst að ná sem lengst í líkaninu hefur tekist að umbreyta kennsluháttum þannig að nemendur fá viðfangsefni og leysa þau á þann hátt sem ekki hefur áður verið mögulegt að gera.
Ruben Puentedura (2018) bendir einnig á að ný tækni gefi aðra möguleika en áður til þess að eiga í samveru (e. social) , í hreyfanleika (e. mobility), að segja frá á sjónrænan hátt (e. visualization), í frásögn og miðlun (e. storytelling) og að leika sér (e. gaming). Puentedura bendir á að fyrr á öldum hafi verið notast við eftirfarandi tæki.
Puentedura, R. R. (2018). Educational Technology, Research, and Creativity
Pepentura (2018) dregur fram atriðin hérna til hliðar sem hafa breytt umhverfi náms og kennslu á undanförnum árum og segir að nútímalegir kennsluhættir ættu að taka mið af þeim. Hann segir að þannig takist að ná fram nýbreytni í skólastarfi.
Wheeler (2015) fjallar um það sama og segir nauðsynlegt að breytingum fylgi nýjar aðferðir. Hann segir að ekki sé hægt að lát tæknina koma eingöngu í stað þess sem við þekkjum fyrir. Það þarf að fara út fyrir rammann og skoða nýja möguleika, gera uppgötvanir og fara nýjar leiðir í námi. Leiðir sem eingöngu eru færar með aðstoð tækni sem er aðgengileg í dag en var óhugsandi þegar menntastefnan sem kennd er við verksmiðjulíkanið e. (industrial model) var innleidd.
Wheeler notar dæmisögu úr Biblíunni um nýtt vín á gömlum belgjum til að leggja áherslu á að við verðum að leggja fram nýjar námskenningar til að útskýra nám og kennslu nútímans. Það dugar ekki að nota hefðbundnar námskenningar til að skýra eða réttlæta nýjar aðferðir. Það er eins og að setja nýtt vín í gamla og notaða belgi. Þegar vínið er sett í belgina gerjast það og belgirnir þenjast út. Ef ætlunin er að setja nýtt vín í notaða belgi þenjast belgirnir svo mikið út að þeir springa að lokum. Þá er vínið farið til spillis. Það sama á við um námskenningar. Þær sem áttu við fyrir 50 árum eiga ekki endilega við í dag þar sem miklar samfélagslegar breytingar hafa átt sér stað sem hafa áhrif á skólastarf (Wheeler, 2015). Ef hefðbundnar námskenningar eru settar inn í skólastarf sem tekur mið af tækni númtímans fara bæði kenningarnar og tími nemenda til náms til spillis. Til að sporna við að þetta gerist hvetur Wheeler (2015, bls. 73-75) til þess að skólar nýti flæðiskenningar Mihali Csikszentmihalyi í skólastarfi. Hann bendir á að kenningar hans eigi jafn vel við nú sem áður.
Flæði (e. flow) er líkamlegt og tilfinningalegt ástand sem manneskja kemst í þegar hún fæst við verkefni sem á hug hennar og einbeitingu, svo mikið að ekkert annað virðist skipta máli. Í flæði er það gleðin við að fást við verkefnið sem er drifkrafturinn en ekki árangurinn af verkefninu eða ytri umbun.
Ljóst er að ekki öll verkefni og allar aðstæður framkalla flæði. Csikszentmihalyi (1990) telur upp eftirfarandi atriði sem þurfa að vera til staðar til að einstaklingur nái að komast í flæði:
Kjörskilyrði flæðis sýna vel samhengi hugarfars einstaklings við að takast á við verkefnið og þess hvernig honum tekst að nýta færni sína við lausn þess. Í flæðisaðstæðum þarf einstaklingurinn að gefa verkefninu og lausn þess alla einbeitingu sína. En einbeitingin er viljastýrð og þess vegna verður einstaklingnum að takast að koma auga á færnina sem hann býr yfir til þess að leysa verkefnið. Áskorunin sem felst í verkefninu helst því í hendur við færnina sem verkefnið krefst.
Ef verkefnið krefst lítillar færni (e. skills) er það lítil áskorun (e. challenge) fyrir einstaklinginn og þá eru miklar líkur á að hann finni til leiða (e. boredom) við lausn þess. Ef verkefnið hins vegar krefst meiri færni en einstaklingurinn býr yfir eða telur sig búa yfir, eru líkur á að hann finni til hræðslu eða kvíða (e. anxiety). Í flæði og hámarksupplifun er jafnvægi milli áskorunar og færni.
Flow - the psychology of optimal experience eftir M. Csikszentmihalyi (1990; bls. 74)
Csikszentmihalyi boðar í skrifum sínum (1990; 1997) að allir geti tamið sér flæði sem lífsstíl með því að beina hugarorku sinni að því að ná tökum á einbeitingu sinni í hverju verkefni sem þeir taka sér fyrir hendur. Þegar því markmiði er náð hafa menn beitt orku sinni í farveg jákvæðni og gleði við lausn verkefnanna sem þeir þurfa að fást við hverju sinni.
Csikszentmihalyi (2000) sagði í fyrirlestri að skólar væru að öllu jöfnu ekki staðir þar sem flæði á sér stað. Hann taldi að skólastarf skorti marga þætti úr kjöraðstæðum flæðis. Hann nefndi sérstaklega að oft á tíðum væri nemendum ekki ljós markmið námsins og þar með væri ekki gefið tækifæri til þess að þeir sæju greinilega hvað þeir vildu og ætluðu að gera. Í öðru lagi skortir á að nemendur fái reglulega endurgjöf um að nám þeirra sé á réttri leið. Og að lokum nefndi hann að verkefnin eru oftast þannig úr garði gerð að nemendur eiga erfitt með að bera færni sína saman við áskorunina sem verkefnið felur í sér. Af þessum þáttum samanlögðum má sjá að skólar hafa skapað aðstæður þar sem áhugahvöt nemenda er lítt virkjuð og þar með skortir á að nemendur geti nýtt sér einbeitingu sína til fulls við lausn verkefna. En einbeitingin er ein af aðalforsendum flæðisupplifunar.
Kenningar Puentedura um SVAN líkanið (2017) og UT fimmuna sem tekur mið af nútíma tækni (2018) og ábendingar Wheeler (2015) um nýbreytni í námi og kennslu og notkun kenninga Csikszentmihalyi í skólastarfi gefa tilefni til þess að íhuga á hvern hátt námstíma nemenda er varið. Sértaklega þegar horft er til þeirra rannsóknarniðurstaðna sem hafa verið reifaðar í þessu verkefni. Ef breytingar á skólastarfi eiga að ná að halda í við tækni- og samfélagsþróun til framtíðar þarf starfsþróun kennara að taka tillit til þess sem kemur fram í rannsóknum Kristínar Jónsdóttur (2005) og rannsókninni Starfshættir í grunnskólum (2014). Þar kemur fram að kennara langar til að þróa kennsluhætti sína í þá átt að opna kennslustofur sínar, bæði í eigindlegri og óeigindlegri merkingu. Það vekur upp spurninguna hvort hefðbundin starfsþróun muni duga þar til?
Stefnuskjöl skólastarfs (Aðalnámskrá grunnskóla 2011 og lög um grunnskóla nr. 91/2008) og kenningar og ábendingar fræðifólks sem hér hafa verið kynntar (Puentedura, 2017; 2018 og Wheeler, 2015) gera þá kröfu til skólastarfs að notaðir séu kennsluhættir sem taki mið af einstaklingnum og umhverfi hans, þar með talið þeim tækninýjungum sem fylgja daglegu lífi nemenda. Til þess að svo megi verða þurfa kennsluhættir að taka mið af samstarfi á milli kennara, sérstaklega ef litið er til þeirrar niðurstöðu í rannsókninni Starfshættir í grunnskólum (2014) sem segja að kennsluhættir séu fjölbreyttari í teymiskennsluskólum en bekkjarkennsluskólum. Það bendir til þess samvinna kennara efli þá til að nýta sér fjölbreytta kennsluhætti. Kennsluhættir nútímans gera einnig ráð fyrir samstarfi við nemendur og foreldra. UT fimman (Puentedura, 2018) ætti að auðvelda það starf vegna þess að hún reiknar með fleiri möguleikum áður til samskipta, skráningar og miðlunar. Með slíku vinnulagi er hægt að ná fram meiri virkni og áhuga nemenda og foreldra fyrir verkefni og starfi í skóla. Þar með er komist eins nálægt framkvæmd meginmarkmiða grunnskólalaga og aðalnámskrár og hugsast getur.