Grunnskólalög og aðalnámskrá

Í annarri grein laga um grunnskóla er hlutverk skólanna skilgreint og þar segir að skólinn eigi í samvinnu við heimilin, að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi í sífelldri þróun. Ennfremur skal skólinn leitast við að haga störfum sínum í sem fyllsta samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins. Sama grein kveður líka á um að nemendum skuli veitt tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og að afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Til viðbótar skal skólastarfið leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra (Lög um grunnskóla nr. 91/2008).

Að bjóða nemendum sínum almenna menntun og stuðla að jafnrétti til náms eru grundvallarhlutverk og skyldur grunnskólans. Annar kafli aðalnámskrár grunnskóla fjallar um almenna menntun. Þar segir að hún stuðli á hverjum tíma að aukinni hæfni einstaklingsins til að takast á við áskoranir daglegs lífs og að almenn menntun miði að því að efla skilning einstaklingsins á eiginleikum sínum og hæfileikum og þar með hæfni til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi. Þess vegna telst hún bæði vera einstaklingsmiðuð og samfélagsleg (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011).

Í umfjöllun sinni um lykilhæfni fer Gunnar E. Finnbogason (2016) yfir þá þróun sem hefur átt sér stað í Evrópu og á Íslandi varðandi námskrár. Hugtakið lykilhæfni kemur fram í skýrslum alþjóðlegu stofnanna OECD og ESB og er lýst á þann hátt að það séu þeir þættir sem nauðsynlegir eru fyrir nemendur að búa yfir að lokinni skólagöngu. Þeim er ætlað að búa nemendur sem best undir líf og starf í framtíðinni. Þar er einnig lögð sérstök áhersla á ævimenntun, þ.e. að nemendur læri út lífið. OECD setur fram níu lykilhæfniþætti sem skiptast í þrjá flokka en ESB setur fram átta lykilhæfniþætti sem skiptast í „harða“ og „mjúka“ lykilhæfni.

Í ljós kemur að lykilhæfniþættir OECD og ESB eiga samsvörun í lykilhæfniþáttum íslensku námskrárinnar frá 2011. Þættirnir eru ekki allir þeir sömu en skörunin er mikil og þeir fela hver annan í sér. Því má draga þá ályktun að lykilhæfniþættirnir fimm í Aðalnámskrá grunnskóla (2011) séu að miklu leyti byggðir á niðurstöðum umfjöllunar OECD og ESB um lykilhæfni (Gunnar E. Finnbogason, 2016).

Þá er spurt hvort íslenskir grunnskólar séu að búa nemendur sína undir nám, líf og störf í framtíðinni með áherslu á lykilhæfniþættina sem skilgreindir eru í námskránni: Tjáning og miðlun, sköpun og gagnrýnin hugsun, sjálfstæði og samvinna, nýting miðla og upplýsinga og ábyrgð og mat á eigin námi. Hér á eftir verður leitast við að svara þeirri spurningu.