Foreldrar bera ábyrgð á ungmennum sínum að 18 ára aldri.
Foreldrar bera ábyrgð á að gögn sem skipta máli um námsframvindu í framhaldsskólum berist framhaldsskólum við innritun eða þegar það á við.
Foreldrar gæta hagsmuna ungmenna sinna og ber að stuðla að því að þau stundi nám sitt. Foreldrum ber að fylgjast með námsframvindu í samvinnu við þau og kennara. Foreldrar skulu fá tækifæri til að taka þátt í námi ungmenna sinna, í samráði við kennara og skólastjórnendur.
Foreldrum ber að greina skólanum frá aðstæðum sem gætu haft áhrif á skólagöngu ungmenna þeirra.
Foreldrum ber að vinna að lausn mála í samstarfi við skóla vegna brota ungmenna þeirra á skólareglum. Þeim ber ásamt ungmenni að taka þátt í meðferð máls.
Leitast skal við að hafa samstarf við foreldra/forráðamenn nemenda eldri en 18 ára að höfðu samráði við nemandann, um mál sem upp kunna að koma samkvæmt grein þessari.
Gæta skal þagnarskyldu um upplýsingar sem berast skóla á grundvelli þessarar greinar.
(heimild, febrúar 2024: https://island.is/reglugerdir/nr/0326-2016).
Skólastjórnendum og kennurum ber að eiga samstarf við foreldra um hegðun, líðan og samskipti ungmenna þeirra yngri en 18 ára. Starfsfólki skóla ber að taka afstöðu gegn líkamlegu, andlegu, kynferðislegu og félagslegu ofbeldi í skólanum. Ef slík tilvik koma upp skal bregðast við þeim samkvæmt stefnu skólans, sbr. III. kafla reglugerðar þessarar.
Skólastjórnendum og kennurum ber að upplýsa foreldra nemenda yngri en 18 ára um brot nemenda á skólareglum.
(heimild, febrúar 2024: https://island.is/reglugerdir/nr/0326-2016).
Úr lögum um framhaldsskóla frá 2008 (nr. 92/2008):
50. gr.
Foreldraráð.
Við hvern framhaldsskóla skal starfa foreldraráð. Skólameistari boðar til stofnfundar þess. Hlutverk foreldraráðs er að styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda og í samstarfi við skólann efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda við skólann. Félagsmenn geta verið foreldrar nemenda við skólann. Kjósa skal í stjórn ráðsins á aðalfundi þess. Foreldraráð tilnefnir einn áheyrnarfulltrúa í skólanefnd. Foreldraráð setur sér starfsreglur.