Máni og Mía er verkefnabók eftir Emmy van Heuvel og Joke Wit.
Þessa verkefnabók er hægt að nýta í félagsfærniþjálfun og er hún sérstaklega ætluð börnum á aldrinum fjögurra til átta ára.
Bókin inniheldur dæmisögur sem fjalla um félagsleg samskipti. Sögurnar eru líkar félagshæfnisögum en fjalla ekki um einstaklinginn sjálfan. Best er að nýta þetta námsefni í hópþjálfun þar sem sögurnar hafa opinn endi og bjóða upp á það að börnin búi til umræður og spyrji spurninga.
Bókin skiptist í tvo hluta, fyrri hlutinn fyrir 4-6 ára börn og seinni hlutinn fyrir 6-8 ára börn. Bókin skiptist í raun og veru í leikskólaaldur og grunnskólaaldur.
Máni og Mía eru brúður sem lenda í ýmsum ævintýrum og eru sögurnar þeirra skiptar upp í átta hegðunarflokka:
Deilum upplifun - Mía heyrir óhugnanleg hljóð / Martröð
Verum góð við aðra - Þar fór verra! / Leikfimi
Leikum og vinnum saman - Afmælisfranskbrauð fyrir mömmu / Abdi kemur í bekkinn
Ljúkum verkefni - Húrra, við björguðum okkur fyrir horn / Litla mín?
Kynnum okkur - Khatai kökur Anjali frænku / Götuhátíðin
Veljum - Sumardagurinn fyrsti! / Hvað velur Mía?
Að standa á sínu - Mía vill komast fram hjá / Stórir strákar?
Leysum úr ágreiningi - Máni er reiður við Míu / Máni og Mía eru ósátt.
Í hverjum tíma er tekinn fyrir einn hegðunarflokkur. Í upphafi þjálfunar er byrjað á því að lesa inngangssöguna, sagan er rædd eftir á í hópnum og spurningum svarað út frá sögunni. Næsta verkefni væri að vinna verkefnið sem fylgir hverri sögu.
Með verkefnabókinni fylgja með tólf tilfinningaspjöld. Þau er hægt að nýta á fjölbreyttan hátt og er engin ein leið sem er rétt.
Nokkrar hugmyndir:
Hún er notuð fyrir nemendur til þess að segja frá hvernig þeim líður.
Aðstoða börn við að tjá tilfinningar í félagslegum samskiptum.
Í hlutverkaleik.
Til þess að opna samræður.
Skilgreina tilfinningar á myndrænan hátt.
Heimildir
Heuvel, E., Wit, J. (2009). Máni og Mía (Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir þýddi). Robo Educational Toys BV.