Ýmis ráð

Þegar unnið er með bekki er litið til efnis úr ólíkum átti. Sem dæmi má nefna KVAN, Olweus, SMT og uppeldi til ábyrgðar.

Verkfærakista KVAN

  • Unnið er með bekkjaranda/menningu í ákveðnum kennslustundum. Í verkfærakistu KVAN er að finna kennslustundir sem allar hafa það markmið að bæta bekkjaranda og samskipti. allar kennslustundirnar eru byggðar upp með svipuðum hætti og er mikið notast við alls kyns leiki.

  • Hér er stutt lýsing á hverri kennslustund.

  • Best og laga: hvað er best við bekkinn og hvað má laga? Töfrasprotinn: ef ég ætti töfrasprota myndi ég...."bæta við því sem má breyta við bekkinn". Bls. 76-79

  • Góður bekkjarfélagi: hvað einkennir góðan bekkjarfélaga? en bekkjarfélaga sem er ekki góður? Bls. 80-81

  • Vinátta: að smíða vin, vinur óskast (eiginleikar taldir upp). Bls. 83-88

  • Að leysa ágreining: hvaða reglur gilda þegar leysa á ágreining? Bls. 89-93

  • Orðbragð: hvernig tölum við hvert við annað? Bls. 100-102

  • Framkoma: hvernig komum við fram við hvert annað? Hvernig viljum við að fólk muni eftir okkur? Bls. 107-110

  • Markmið: hvert viljum við stefna? Þá - nú - framtíðin: hvernig var bekkurinn - er núna - og viljum við hafa hann framvegis? Bls. 111-113

  • Samskiptareglur: sáttmáli um hvernig samskiptareglur eiga að vera. Bls. 115

Olweus

Hægt er að finna margt í smiðju Olweusar sem nýtist vel í vinnu með samskipti og bekkjarbrag/menningu:

  • Bekkjarreglur gegn einelti - gerður er sáttmáli þar sem skilgreint er með skýrum hætti hvað er ásættanlegt og hvað er óásættanlegt.

  • Reglulegir bekkjarfundir - Hér er tengill að góðu efni um bekkjarfundi.

SMT skólafærni

Lausnaleitin er eitt af verkfærum SMT. Með þeirri aðferð er hægt að takast á við vanda sem upp kemur innan bekkja, í vinahópum, á milli bekkjarfélaga og/eða vegna mála sem upp koma í frímínútum.

Fyrsta skrefið er að lýsa vandanum - hvað þarf að finna lausn á? HVers vegna er mikilvægt að finna lausn? Mikilvægt er að vandanum sé lýst á skýran og skilmerkilegan hátt.

Næsta skref er hugarflug um lausnir. Þá skulu hlutaðeigandi aðilar (t.d. kennari og nemendur bekkjar) skrifa niður allar mögulegar lausnir sem þeim dettur í hug. Allar hugmyndir eru viðurkenndar og áhersla er á að vera skapandi og opinn fyrir verkefninu.

Þriðja skrefið er að leggja mat á lausnirnar. Eru þær raunhæfar? En framkvæmanlegar? Hugmyndir sem ekki ganga upp eru afskrifaðar og góðar hugmyndir sameinaðar.

Í fjórða skrefinu er gerð áætlun um hvaða lausnir skuli nota, hvenær og hvar. Lagt er mat á ólíkar lausnir og góðar lausnir valdar. Mikilvægt er að vera raunsær.

í fimmta skrefinu er samningur útbúinn. Hann þarf að vera skýr og umbuna þegar vel gengur.

Verkfæri úr uppeldi til ábyrgðar

Eitt af verkfærum þessarar stefnu eru svokallaðir bekkjasáttmálar. Bekkurinn velur sér þrjú einkunnarorð sem þau telja henta þeirra bekk.

Þegar bekkurinn hefur fundið einkunnarorð útbúa þau T-spjöld þar sem einkunnarorðið er skrifað efst en hægra megin stendur "er" og vinstra megin "er ekki" - sjá hér til vinstri.

Spjöldin eru svo hengd upp á vegg svo þau séu sýnileg nemendum.

Allir í bekknum skuldbinda sig svo til þess að fara eftir einkunnarorðunum. Því næst finnur bekkurinn svo leið til þess að setja bekkjarsáttmálann fram, til dæmis með því að gera plakat eða myndband.

Ef nemandi er ekki að fara eftir þeim einkunnarorðum sem bekkurinn samþykkti er hægt að vísa í bæði bekkjarsáttmálann og T-spjöldin til að minna nemandann á það sem hann samþykkti sjálfur.

Sáttaborðið

Hugmyndin um sáttaborðið kemur úr smiðju kenninga um uppeldi til ábyrgðar. Þar er eitt af megin markmiðunum að nemendur taki sjálfir ábyrgð á því að leysa ágreining. Þá hlutaðeigandi aðilar tækifæri til þess að segja sitt álit, málin eru rædd eftir ákveðnum reglum og svo er reynt að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Tilgangur sáttaborðsins er að nemendur geti saman áttað sig á því hvað gerðist og hvernig hægt er að koma í veg fyrir að aðstæðurnar endurtaki sig.

Sáttaborðið er teiknað á stórt karton, a.m.k. 30cm í þvermál og gjarnan skreytt (sjá mynd hér til hægri).

Notkun sáttaborðsins: 1. Allir gera mistök 2. Allir fá að segja frá 3. Segja sannleikann 4. Forðast ásakanir, afsakanir, skammir, tuð og uppgjöf 5. Hlusta án þess að grípa fram í 6. Skrifa niður hugmyndir 7. Velja bestu lausnina