Hér til hliðar eru heilræði á tímum kórónuveirunnar. Flest eiga alltaf við og gott að tileinka sér þau í lífinu almennt. Eitt heilræði ber að benda á umfram önnur en það er sjöunda heilræðið sem er um mikilvægi þess að við sýnum samfélagslega ábyrgð og fylgjum fyrirmælum. Þetta heilræði á sérstaklega við um þessar mundir svo hægt sé að hægja á útbreiðslu veirunnar og við getum verndað þá einstaklinga sem eru í áhættuhópi.
Í þessu sambandi viljum við minna á bréf, sem sent var til foreldra að beiðni Samhæfingarmiðstöðvar almannavarna, þar sem farið er yfir hvaða reglur gilda fyrir börn á tímum samkomubanns. Mikilvæg regla sem þar kemur fram, er að þeir „Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla“. Við viljum biðja foreldra að lesa yfir beiðnina og virða þær reglur sem þar eru settar fram. Bréfin eru neðst á síðunni á tveimur tungumálum, íslensku og ensku.
Nú í apríl stendur Mennta- og menningarmálaráðuneytið fyrir lestrarverkefni fyrir þjóðina, þar sem börn og fullorðnir eru hvött til að nýta til lesturs þann tíma sem gefst við núverandi aðstæður.
Barna- og ungmennabókahöfundurinn Gunnar Helgason er sérstakur talsmaður verkefnisins sem kallast Tími til að lesa. Árangur lestursins er mældur í tíma, þar sem Íslendingar eru hvattir til að skrá allan sinn lestur á vefsíðunni timitiladlesa.is. Þar geta þátttakendur líka fylgst með sameiginlegum lestri þjóðarinnar frá degi til dags.
Lestur er sérstaklega mikilvægur fyrir börn, enda ræðst námsárangur barna að stórum hluta af lesskilningi sem eykst með auknum lestri. Lestur veitir fullorðnum örvandi hvíld frá amstri og áhyggjum dagsins og með lestri aukum við saman veg íslenskrar tungu. Orðaforði eykst, nýjar hugmyndir kvikna, skilningur á lesmáli batnar og þannig skilningur á heiminum öllum. Þá styður aukinn lestur við skapandi störf rithöfunda og þýðenda. Því meira sem við lesum því betra!
Verkefnið mun standa til 30. apríl og að því loknu munum við freista þess að fá afraksturinn skráðan í Heimsmetabók Guinness. Slíkt hefur ekki verið gert áður og því yrði hér um að ræða fyrsta heimsmet sinnar tegundar. Metið gæti orðið viðmið annarra þjóða, eða okkar sjálfra til að bæta með tíð og tíma.
Veitingastaðurinn Hraunið í Ólafsvík bauð starfsfólki skólans í pítsu sem þakklætisvott fyrir gott og óeigingjarnt starf.
„... byrja á því að þakka fyrir hvað þið gerið vel miðað við aðstæður og haldið jákvæðninni uppi á þessum tímum! 🙏"
„Mig langar bara að hrósa ykkur fyrir frábæra frammistöðu við þessar erfiðu aðstæður. Upplýsingaflæðið er mjög gott að mínu mati og maður finnur að þið eruð að leggja mikið á ykkur til að halda skólanum opnum og þið standið ykkur með prýði. Þúsund þakkir til ykkar allra.“
„Ég held að þetta sé hárrétt ákvörðun hjá ykkur. Þessi veira virðist vera ansi lífsseig.“
„Sæll og takk fyrir góðar upplýsingar síðustu vikur.... þetta er búið að vera ansi strembið.“
„Okkur langar að lýsa ánægju okkar á breyttum skólatíma. Þið starfsfólk skólans eigið mikið hrós skilið fyrir síðustu daga.“
„Mig langar til að þakka fyrir það sem þið hafið verið að gera í skólanum til þess að allt gangi upp. Þessar aðstæður eru alls ekki auðveldar og hvernig þið hafið staðið að málunum er svo sannarlega þakkarvert."
„Takk fyrir að standa vaktina með börnunum, þið standið ykkur ótrúlega vel.“
„Þakka þér og þínu starfsfólki fyrir reglulegar fréttir af skólastarfinu og vel unnin störf.“
„Takk fyrir góðar og miklar upplýsingar. Þetta er mjög skrítið ástand sem er í gangi og mér finnst þú og starfsfólk skólans standa sig mjög vel.“
„... langar mig að nota þetta tækifæri og lýsa mikilli ánægju minni með ykkur öll og ykkar starfsmenn, þið eruð að standa ykkur frábærlega og hafið tekið það alvarlega að það er okkar hlutverk að halda samfélaginu gangandi, við erum öll almannavarnarnefnd.“