Öll börn skólans eiga að þekkja skólasáttmálann. Skólasáttmálinn var endurskoðaður skólaárið 2023-2024 með þátttöku allra barna í skólanum, starfsfólks og foreldra. Sáttmálinn var skrifaðar út frá greinum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem lagðar eru til grundvallar öllu skólastarfi í Vesturbæjarskóla.
Skólaárið 2023 - 2024 var farið í endurskoðun á skólareglum Vesturbæjarskóla. Réttindaráð hóf leikinn með samtali, fræðslu og ígrundun og valdi níu greinar úr Barnasáttmálanum sem áttu að endurspegla skólareglurnar. Haldnir voru bekkjarfundum í öllum bekkjum þar sem börnin skilgreindu hvað hver grein þýðir í skólanum. Á Skólaþingi sem haldið var í lok apríl var það hlutverk úrtaks barna og fullorðinna að skilgreina nánar hvað það er sem hver og einn þarf að gera til að fylgja þessum skilgreiningum. Nýjar skólareglur voru að lokum kynntar á starfsmannafundi og samþykktar í Skólaráði í maí 2024. Í september sama ár var það verkefni allra í skólanum að læra að þekkja nýja skólasáttmálann. Sett var upp skipulag um kynningu á skólasáttmálanum:
1. - 5. september: Öll börn eru jöfn (2.gr.) og Það sem er barninu fyrir bestu (3.g.r)
9. - 13. september: Aðgangur að menntun (28.gr.) og Virðing fyrir skoðunum barna (12.gr.)
16. - 19. september: Líf og þroski (6.gr.) og Heilsuvernd, vatn, matur og umhverfi (24.gr.)
23. - 27. september: Vernd gegn ofbeldi (19.gr.) og Hvíld, leikur, menning og listir (31.gr.)
Við erum afar stolt af þessari vinnu sem Réttindaráð fór af stað með og öll börn skólans komu að, að einhverju leyti. Þetta er skólasáttmáli sem við höfum sameinast um og viljum að endurspegli skólamenninguna í Vesturbæjarskóla. Ákveðið hefur verið að byrja alltaf skólaárið með svipaðri vinnu þar sem kennarar og börn rifja upp skólasáttmálann og í kjölfarið búa til bekkjarsáttmála.