Vesturbæjarskóli og Skýjaborgir eru Réttindaskóli og frístund Unicef. Markmið er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Með þetta að markmiði eru grunnforsendur Barnasáttmálans útgangspunktur fyrir allar ákvarðanir í skóla- og frístundastarfi auk þess sem þær endurspeglast í samskiptum barna, ungmenna, kennara, frístundaráðgjafa og annarra starfsmanna.
Fjórar greinar sáttmálans fela í sér grundvallarreglur sem eru rauður þráður í gegnum allan sáttmálann og tengja saman ólík ákvæði hans en það eru 2., 3., 6. og 12. greinin. Rannsóknir sem gerðar hafa verið í meira en 1.600 Réttindaskólum hafa sýnt fram á jákvæð áhrif á skólastarf. Dregið hefur úr einelti og ofbeldi í skólunum, nemendum líður betur og þeir sýna meira umburðarlyndi fyrir fjölbreytileika, starfsánægja kennara hefur aukist umtalsvert, nemendur taka aukinn þátt í skólastarfinu og þeir hafa meira sjálfstraust. Með þátttöku í verkefninu eflum við enn frekar lýðræðislegt námsumhverfi og gerum börnin okkar færari í að þekkja og virða mannréttindi sem byggja á virðingu og jafnræði.
Eitt af meginmarkmiðum frístundaheimilanna er að börn hafi val um þátttöku og viðfangsefnin í starfinu og að lýðræðisleg vinnubrögð séu í heiðri höfð. Mikið er lagt upp úr því að hlusta eftir röddum barnanna og fá fram skoðanir þeirra á stórum jafnt sem smáum málefnum þannig að þarfir þeirra og óskir leggi grunninn að öllu starfinu.
Samkvæmt 42. grein Barnasáttmálans skulu stjórnvöld fræða börn og fullorðna um Barnasáttmálann reglulega svo allir þekki réttindi barna. Menntun á að hjálpa börnum að læra að rækta sjálfsmynd sína, hæfileika og færni. Hún á að kenna þeim að þekkja réttindi sín og að virða réttindi annarra, menningu þeirra og fjölbreytileika. Í Vesturbæjarskóla lærum við öll að þekkja réttindi barna, nemendur, foreldrar og starfsfólk.
Börn og fullorðin þekkja réttindi barna (42. grein Barnasáttmálans)
Börn taka þátt og hafa áhrif (12. grein Barnasáttmálans)
Börn njóta jafnra tækifæra (2. grein Barnasáttmálans)
Börn upplifa að hagsmunir þeirra séu settir í forgang (3. grein Barnasáttmálans)
Börn upplifa öryggi og að réttindi þeirra séu virt (4. grein Barnasáttmálans)
Markmið er að nemendur geti rætt stöðu sína sem þátttakandi í samfélaginu, réttindi og skyldur og mikilvægi mannréttinda og jafnréttis í samfélaginu og á heimsvísu og þekki vel til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.