- Rökstuðningur: ritgerðir eru í grunninn texti sem á að varpa ljósi á tengsl og áhrif, svara rannsóknarspurningu skýrt eða dýpka þekkingu á einhverju fyrirbæri. Því þarf að passa vel uppbyggingu og framvindu í textanum. Til dæmis verður að byrja á að skilgreina grunnhugtök (ef það er ekki gert í inngangi) áður en hægt er að fjalla um hugtökin á dýpri hátt. Ritgerðin verður að mynda heild fyrir lesandanum, þar sem ein umræða leiðir af annarri á eðlilegan hátt.
- Upplýsingar: tilgangur ritgerða er að setja fram þekkingu, að svara spurningum og varpa ljósi á fyrirbæri. Því þarf alltaf að passa að fara ekki út fyrir efnið heldur vera markviss. Hvað ertu að reyna að segja lesandanum? Hver er tilgangurinn með þessari ritgerð?
- Kaflar og efnisgreinar: í mörgum ritgerðum er við hæfi að skipta meginmálinu í nokkra kafla. Fjöldi kafla fer eftir nálgun á efnið, umfjöllunarefni og eðli ritgerðar. Almenn regla er að einstaka kaflar megi ekki vera styttir en ½ síða. Það er mikilvægt að flétta textann vel saman þannig að hann sé heildstæður, en á sama tíma er mikilvægt að hafa skipulag á umfjölluninni. Almenna viðmiðið er að hver efnisgrein sé 5 – 16 línur ca. Hver efnisgrein á að byrja á lykilsetningu sem segir lesanda nákvæmlega hvert umfjöllunarefni málsgreinarinnar er. Svo fer fram úrvinnsla á þessari lykilsetningu og heimildavinna og síðast er ályktun eða niðurstaða sem er fléttuð við heildarefni ritgerðarinnar. Hver kafli getur þannig haft nokkrar efnisgreinar sem allar tengjast innbyrðis.
- Heimildir: það er lykilatriði í ritgerðarskrifum að meta gæði heimilda áður en þær eru notaðar. Hér er nauðsynlegt fyrir nemendur að vera gagnrýnir á heimildir og þekkingu og beita heimildalæsi og gagnrýnni hugsun.
- Tilvísanir og tilvitnanir: stundum er við hæfi að nota beinar tilvitnanir í ritgerðum. Þá þarf að afmarka þann texta sérstaklega með íslenskum gæsalöppum eða með því að draga textann inn á hliðunum og miðja hann. Ef orð annarra eru tekin beint upp þá þarf alltaf að afmarka textann sérstaklega og vísa í heimildir. Almenna reglan er að reyna að forðast að taka stóra textabúta frá öðrum og setja í beina tilvitnun. Oft er ekki hægt að komast hjá því að nota beinar tilvitnanir en nemendur eru hvattir til að umorða textann frekar með eigin orðum þegar það er hægt. Þegar tekin er þekking frá öðrum þarf alltaf að vísa til heimilda, hvort sem nemandi umorðar eða tekur orðin beint upp. Þegar þekking er tekin frá öðrum en nemandi setur hana í eigin orð er talað um tilvísanir. Tilvísanir eru mismunandi uppsettar í Chicago og APA og eru nemendur hvattir til að kynna sér fyrirmæli kennara og reglur hvers kerfis.
- Ritstuldur: þegar nemandi tekur orð beint frá öðrum, hvort sem það er úr kennslubókinni eða af netinu, og afmarkar textann ekki sérstaklega eða vitnar ekki til heimilda er hann að stunda ritstuld. Slík vinnubrögð eru ekki í takt við fræðileg vinnubrögð. Verði nemandi uppvís að ritstuldi getur hann að lágmarki átt hættu á að fá 0 fyrir verkefnið.
Almenna reglan er að nota ekki persónulega sýn í meginmáli. Hér eiga heimildir að tala. Mikilvægt er að muna að heimildirnar ráða ekki för heldur ræður nemandi yfir ritgerðinni. Því þarf nemandi alltaf að vera gagnrýninn og passa að týnast ekki á bak við heimildirnar.