Í fræðilegri ritgerð er mikilvægt að vandað sé til allrar heimildavinnu. Þótt heimild finnist er ekki þar með sagt að hún henti vel eða komi að gagni. Höfuðmáli skiptir að höfundur beiti gagnrýnni hugsun á þær heimildir sem hann finnur en skrifi ekki upp eftir þeim gagnrýnislaust. Gagnrýnin hugsun er sérstaklega mikilvæg nú á dögum þegar vægi heimilda á netinu hefur aukist mikið.
Frumheimildir / eftirheimildir – Frumheimild er sú heimild sem fyrst segir frá nýrri kenningu, vitneskju eða niðurstöðum rannsóknar. Í eftirheimildum er yfirleitt að finna úrval frumheimilda og einhvers konar úrvinnslu eða túlkun höfundar á þeim. Ávallt skal nota frumheimild sé þess kostur en í námsritgerðum er þó oft stuðst við eftirheimildir. Það tekur tíma að læra að meta gildi heimilda, átta sig á stöðu þeirra og taka afstöðu þegar heimildir greinir á. Það lærist smám saman og kemur með æfingunni.
Þegar unnið er með heimildir þarf að vanda til verka, halda utan um heimildir í heimildaskrá og nota tilvitnanir og tilvísanir á réttan hátt í lesmálinu. Þetta er ekki að ástæðulausu því heimildaskráning hefur tvíþættan tilgang; annars vegar þarf lesandi að geta sannreynt fullyrðingar höfundar og hins vegar til að koma í veg fyrir ritstuld.
Til eru ýmis stöðluð kerfi til heimildaskráningar. Nemendur fá yfirleitt nákvæmar upplýsingar frá kennara sínum um hvaða heimildaskráningakerfi skuli nota og er ráðlegt að lesa þær leiðbeiningar mjög vel. Það er sama hvaða heimildaskráningakerfi er notað, öll gera þau ríka kröfu um vandvirkni og að samræmis sé gætt.
Í heimildaskrá á að færa upplýsingar um allar þær heimildir sem vísað er til í lesmálinu. Heimildir sem aldrei er vísað til í lesmáli eiga ekki heima í heimildaskrá. Í heimildaskrá er heimildum yfirleitt raðað í stafrófstöð eftir nafni höfundar þannig að lesandi eigi auðvelt með að fletta upp heimild sem vísað er til í lesmáli. Til að hægt sé að skrá heimild í heimildaskrá þurfa að minnsta kosti eftirfarandi upplýsingar að liggja fyrir:
1. Höfundur: Hver er höfundur heimildar eða sá sem tekur höfundarábyrgð á verkinu?
2. Tími: Hvert er útgáfuár heimildar? Athugið að stundum er nákvæm tímasetning skráð.
3. Titill: Hver er titill heimildar?
4. Útgáfa: Hver er útgáfustaður og hvert er útgáfufyrirtækið?
5. Vefslóð: Ef um er að ræða heimild á vef þarf að skrá vefslóð eða DOI-númer.
Að auki getur verið um að ræða ýmsar viðbótarupplýsingar sem nauðsynlegt er að skrá. Þegar þessum upplýsingum er raðað í heimildaskrána er farið eftir reglum þess heimildaskráningakerfis sem notað er.