Nemendum mínum finnst virkilega gaman að skrifa sögur og deila þeim með öðrum nemendum. Ég geri það mjög oft með nemendum mínum því það er mikilvægt að nemendur æfi sig í sögugerð og að koma fram fyrir framan aðra. Það er mikilvægt að efla málþroska hjá börnum og það er nauðsynlegt að veita þeim tækifæri til að tjá sig á fjölbreyttan hátt. Nemendur hafa tekið miklum framförum í sögugerð og að koma fram. Ég man að þegar ég byrjaði að kenna þeim í 3.bekk þá áttu þau mjög erfitt með að koma fram og sumir vildu það alls ekki. Nú í dag eru allir spenntir að deila sögum sínum. Fyrst um sinn lét ég nemendur mína skrifa söguna sína í stílabók. Svo uppgötvaði ég forritið Book Creator og ég fór að leyfa nemendum mínum að skrifa sínar sögur þar af og til. Þar geta nemendur teiknað og sett inn myndir. Þegar nemendur lásu síðan upp sína sögu þá var þeirra verkefni sýnilegt á skjávarpa og sáu því aðrir nemendur myndirnar og textann á meðan nemendur lásu sína sögu.
Það er gott að breyta til og finna fjölbreyttar leiðir til að leyfa nemendum að beita nútímalegum aðferðum til að sinna skapandi vinnu. Mig langaði því að prófa eitthvað nýtt með nemendum og ég sá að nemendur voru með forritið Toontastic í sinni spjaldtölvu. Ég fór því að kynna mér það forrit og sá að það var mjög sniðugt að nota það í sögugerð. Í Toontastic útbúa nemendur teiknimynd í þrívídd. Forritið gerir nemendum kleift að lífga sögupersónur sínar við á skjánum. Ég vissi að einhverjir nemendur voru búnir að prófa sig áfram í forritinu en mér fannst mikilvægt að kynna það vel fyrir nemendum áður en vinnan hófst. Ég leyfði þeim að horfa á myndband með leiðbeiningum um hvernig útbúa ætti stuttmynd. Áður en þau fóru að vinna í forritinu þá lét ég þau hafa blað þar sem þau þurftu að skrá niður sögupersónur, tilfinningu og boðskap sem átti að koma fram í sögunni. Síðan áttu nemendur að skrifa stutt handrit þar sem ætti að innihalda upphaf, miðja og endir. Þegar nemendur voru búnir að sýna mér það máttu þau hefjast handa við teiknimyndagerð. Þar sem nemendur þurfa að talsetja verkefnið þá er ekki hægt að láta alla vinna á sama tíma í kennslustofunni. Nemendur fengu því leyfi til að finna sér stað innan skólans til að sinna verkefninu. Ég gekk síðan um skólann og það var virkilega gaman að sjá hversu vel nemendur voru að vinna í verkefninu.
Nemendum fannst verkefnið það skemmtilegt að þegar þau voru búin að ljúka við sína sögu þá spurðu þau hvort þau mættu búa til aðra. Þegar nemendur þurfa að skrifa sögu í stílabók þá eru þau misvirk og nokkrir nemendur vilja skrifa algjört lágmark af texta. Það vandamál var ekki til staðar þegar þau voru að gera sína sögu í Toontastic. Sögur nemenda voru líflegri, lengri og fjölbreyttari. Kostir Toontastic eru ótvíræðir. Það er í raun bara einn galli og hann er að vegna fjölda nemenda þá getur verið erfitt að láta alla talsetja á sama tíma. Ég leysti það með því að leyfa nemendum að vinna verkefnið utan skólastofunnar.
Hér áttu nemendur að skrifa helstu upplýsingar sem áttu að koma fram í sinni sögu.
Hérna áttu nemendur að skrifa handrit að sögunni sinni