Með hverju ári þróast heimurinn hraðar og tæknin á sífellt meiri sess í okkar lífi. Það hefur oft verið talið að sú þróun ætti að skila sér á jafn miklum hraða í skólastofunni líkt og víðast hvar annars staðar í samfélaginu en svo virðist raunin ekki vera. Fyrir um 30 árum fékk Jón Torfi Jónsson (2020) prófessor í uppeldis- og menntunarfræði það hlutverk að spá um fyrir hvaða áhrif tækni myndi hafa á kennslu. Hans skoðun var sú að tæknin myndi ekki hafa mikil áhrif en þegar hann skoðaði svo stöðuna í kennslustofum í dag þá tók hann eftir því að tæknin var búin að hafa enn minni áhrif heldur en hann hafði gert ráð fyrir. Jón minnist á að stjórnvöld veiti fagfólki í skólum á Íslandi frelsi og ábyrgð til að móta starf sitt og því sé það í höndum kennara að þróa sig í starfi svo menntun sé í takt við tímann. Það er því mikilvægt að kennarar séu duglegir að leita sér upplýsinga um hvernig þeir geta bætt kennsluhætti sína með tækni að leiðarljósi.
Það er í höndum kennara að skipuleggja kennslu sína svo að nemendur fái nám við hæfi. Að skipuleggja góða kennslu getur verið tímafrekt og tíminn er oft af skornum skammti hjá kennurum. Umsjónarkennarar þurfa að sinna mörgum verkefnum og er því mikilvægt að þeir leiti sér leiða til að auðvelda sér skipulag kennslunnar. Þá er einmitt gott að nýta sér tæknina en í dag er til nóg af vefsíðum, forritum og öppum sem kennarar geta nýtt sér. Það er ekki endilega af hinu góða að það sé svo mikið í boði. Kennarar þurfa að finna tíma bæði til að leita að verkfærum sem þeir geta notað sem og til að kynna sér verkfærin og prófa þau.
Upplýsingatækni er orðinn stór hluti af samfélaginu. Notkun snjalltækja hefur aukist og eru ungir krakkar með greiðan aðgang að snjallsímum og öðrum tækjum. Í aðalnámskrá grunnskóla (2013) segir að nemendur þurfi að læra að nýta tæknina og að efla þurfi upplýsinga- og miðlalæsi nemenda. Sköpun er mikilvægur þáttur í námi og kennarinn gegnir lykilhlutverki í að efla sköpun í skólastarfi. Í ritinu sköpun (Ingibjörg Jóhannsdóttir, Elísabet Indra Ragnarsdóttir og Torfi Hjartarson, 2012) kemur fram að með stafrænni tækni sé hægt að víkka og dýpka skapandi starf í skólastofunni. Til þess að það sé gert rétt þá þurfa kennarar að gefa sér tíma til að kynna sér þá tækni sem er í boði til að ganga úr skugga um að tólin sem valin eru séu auðgandi fyrir skapandi starf. Sé tæknin nýtt rétt þá getur hún eflt skapandi starf og hjálpað nemendum við að ná námsmarkmiðum í sínu námi (Laverick, 2015)
Í þessu verkefni var markmiðið mitt að kynnast tækninýjungum sem ég gæti nýtt til að spara mér tíma, einfalda skipulag og til að gera kennslu mína hnitmiðaðri og betri. Markmiðið var einnig að finna leiðir til að nýta mér tækni í skólastofunni til að efla nemendur í námi, auka sköpun, auka áhuga nemenda á námi og nútímavæða kennslu mína.
Ég ákvað að skipta þessu verkefni í tvo hluta, annarsvegar skipulag og hinsvegar tækni og sköpun. Vinnan mín í þessu verkefni leiddi til þess að ég varð skipulagðari og það hafði jákvæð áhrif á kennslu mína. Ég mætti alltaf undirbúinn og kennslustundir urðu skilvirkari. Með því að nýta tækni í námi þá urðu nemendur áhugasamari um námið, það hafði jákvæð áhrif á sköpun, nemendur voru virkari og þá sérstaklega þeir nemendur sem eru ekki oft áhugasamir og virkir í skólastofunni. Verkefni nemenda urðu fjölbreyttari og innihaldsríkari. Ég lærði mikið af þessu verkefni og það hefur gert mig að betri kennara. Hér fyrir neðan má sjá hvaða stafræna tækni ég ákvað að kynnast og nýta mér í starfi. Hægt að lesa um hvert og eitt þeirra og hvernig gekk að nota þau með því að smella á myndirnar.
Heimildaskrá
Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011: Greinasvið 2013 /2013.
Ingibjörg Jóhannsdóttir, Elísabet Indra Ragnarsdóttir og Torfi Hjartarson. (2012). Sköpun: Grunnþáttur í menntun á öllum skólastigum. Í Aldís Yngvadóttir og Silvía Guðmundsdóttir (ritstjórar ritraðar), Ritröð um grunnþætti menntunar. http://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/themahefti-menntunar/
Jón Torfi Jónsson. (2020). Fátt mun breytast sem skiptir máli nema drifkrafturinn komi frá kennurum. Skólaþræðir. (2020, Desember 21). https://skolathraedir.is/2020/12/21/jon-torfi-drifkraftur-kennara/
Laverick, D. M. (2015). Teaching with Technology and Interactive Media to Promote Creativity and Arts-based Learning in Young Children. In K. L. Heider & M. Renck Jalongo (Eds.), Young Children and Families in the Information Age: Applications of Technology in Early Childhood (61–75). Springer Netherlands. https://doi.org/10.1007/978-94-017-9184-7_4