Stop motion er forrit þar sem nemendur geta útbúið sína eigin hreyfimynd. Forritið virkar þannig að nemendur taka margar ljósmyndir sem verða síðan að einu myndbandi. Það er einfalt fyrir nemendur að læra á forritið og því er gott að nota það í kennslu. Með stop motion er hægt að gefa nemendum tækifæri til að skila verkefnum á skapandi hátt og einnig að auka áhuga þeirra á viðfangsefninu. Ég ákvað að nota forritið með nemendum í stærðfræði þar sem þau væru að læra margföldun. Mér finnst mikilvægt að auka fjölbreytni í minni stærðfræðikennslu og fannst mér því kjörið að prófa forritið þar.
Ég setti nokkur margföldunardæmi upp á töflu og áttu nemendur að leysa þau með því að reikna dæmin í “Stop Motion” forritinu. Ég fékk lánaða tvo kassa af lego körlum hjá syni mínum sem nemendur fengu til afnota. Hugmyndin með lego körlunum var að reyna auka líkur á því að nemendur myndu njóta þess að gera verkefnið og að þau myndu skemmta sér. Þegar ég sagði nemendum frá verkefni dagsins hrópuðu þau af gleði. Þeim fannst gaman að fá tækifæri að gera sínar eigin stuttmyndir og þeim fannst einnig hrikalega spennandi að fá að nota lego karlana. Nemendur fengu síðan frjálsar hendur til að vinna verkefnið. Ég var mjög spenntur að sjá hvernig þau myndu leysa þetta og kom mér á óvart hvað þau unnu verkefnið vel. Nemendur voru sokkin í vinnu sína og það var klárt mál að gott flæði væri í stofunni. Nemendur voru skapandi í sinni vinnu. Sumir notuðu kubba, aðrir notuðu texta sem þau skrifuðu á blað og einhverjir notuðu tússtöflu.
“Stop Motion” sló í gegn og ef nemendur mínir fengu að ráða þá myndu þá fá að vinna í forritinu á hverjum degi. Það er klárt mál að nemendur voru glaðir að vinna í forritinu og það jók áhuga þeirra á viðfangsefninu. Það er hægt að nota forritið í öllum fögum sem skemmtilega leið til skapandi skila á hinum ýmsu verkefnum. Kostir “Stop Motion” eru margir. Forritið er aðgengilegt og allir nemendur geta notið sín þegar þau vinna verkefni í því. Það veitir nemendum tækifæri á að vera skapandi og er því útkoman sú að verkefnaskil eru fjölbreytt og skemmtileg. Forritið veitir nemendum tækifæri á að vekja hugmyndir sínar til lífs og gefur þeim leið að tjá hugmyndir sínar á sjónrænan hátt. Ég hef haldið áfram að nota “Stop Motion” í öðrum fögum en stærðfræði og ég mun koma til með að kynna mér forritið enn frekar svo ég geti nýtt mér það oft og betur í framtíðinni.
Myndband eftir nemanda
Nemendur við vinnu