Skipulag er mikill veikleiki hjá mér og ég vildi finna aðferðir og leiðir til einfalda og bæta skipulag mitt. Ég ákvað að prófa að nota Classroomscreen og Chalk. Ég fjalla um þetta saman hér því ég nota forritin saman í mínu skipulagi.
Classroomscreen er vefsíða sem kennarar geta notað sem stafræna upplýsingatöflu. Kennarinn býr til skjá á vefsíðunni þar sem hann getur skrifað leiðbeiningar og upplýsingar sem nemendur þurfa á að halda í kennslustundinni. Það er ýmislegt í boði til að setja á skjáinn. Það er hægt að setja dagsetningu og tíma, deila QR kóða, nota skeiðklukku, setja upp vinnutákn og margt fleira.
Ég hafði nokkrum sinnum áður nýtt mér fríu útgáfuna af Classroomscreen til að deila QR kóða með nemendum. Gallinn við fríu áskriftina er að það er ekki hægt að vista skjái til að nota aftur. Áskriftin kostar um 30 dollara á ári. Ég ákvað því að fjárfesta í áskrift til að geta notað alla þá kosti sem Classroomscreen hefur upp á að bjóða.
Alla mína tíð sem kennari þá hef ég notað skipulagsdagbók til að skipuleggja kennslu mína. Það hefur ekki virkað nógu vel fyrir mig. Ég á það til að finna ekki bókina og svo gleymi ég henni oft bæði í skólanum eða heima hjá mér. Eftir nokkra leit og prufur á hinum ýmsu vefsíðum og forritum þá uppgötvaði ég Chalk. Chalk er rafræn skipulagsdagbók fyrir kennara sem er hægt að nota sem bæði heimasíðu og smáforrit.
Með notkun Classroomscreen og Chalk þá hefur skipulagið mitt bæst töluvert. Þar sem báðir kostirnir eru rafrænir þá get ég unnið í þeim hvar sem er og hvenær sem er. Þar sem ég fæ oft hugmyndir á furðulegum tímum þá er virkilega gott að geta tekið upp símann og farið í forritin til að skrifa niður hugmyndir mínar. Mér finnst einnig gott að vinna heima hjá mér eða á kaffihúsum og þá er mikill kostur að geta sett inn tengla og annað sem ég þarf að nýta í kennslustundum. Það helsta sem ég hef tekið eftir er að ég er farinn að skipuleggja lengra fram í tímann. Það er hætt að koma í bakið á mér að ég mæti í kennslustund óundirbúinn. Það er líka mikill tímasparnaður að geta sett upplýsingar um skipulag dagsins og kennslustundarinnar á Classroomscreen fram í tímann. Það tekur enga stund að opna Classroomscreen og deila skjánum á skjávarpa. Nemendur sjá því strax í upphafi kennslustundar hvað sé á dagskrá. Leiðbeiningarnar mínar hafa einnig orðið skýrari þar sem ég hef skrifað þær í ró og næði og með nægan tíma til að breyta þeim og bæta. Ég hef einnig nýtt tímann betur í kennslustundinni og þær orðið töluvert skilvirkari. Ég er ekki lengur eins og belja á svelli að leita í tölvunni að tenglum, efni eða öðru sem ég þarf á að halda heldur er ég orðinn eins og upplýstur munkur sem er skilvirkur og skipulagður.