Ég hef aðgang að spjaldtölvum sem ég get nýtt mér í kennslu minni. Ég nýti mér það oft með mínum nemendum og leyfi þeim að vinna að verkefnum í þeim. Þegar nemendur voru að vinna í spjaldtölvum þurfti ég að ganga um stofuna til að fylgjast með hvort nemendur væru ekki alveg örugglega að gera það sem þau áttu að vera að gera. Það getur nefnilega verið freistandi fyrir nemendur að vera í öðrum forritum en þau eiga að vera vinna í og það er erfitt að fylgjast vel með öllum. Ég ákvað því að prófa að nota apple classroom en þar get ég fylgst með í minni spjaldtölvu hvað hver nemandi er að gera hverju sinni. Á sama tíma og ég ákvað að byrja að prófa Apple Classroom þá innleiddi Hafnarfjarðarbær Jamf í spjaldtölvur hjá kennurum og nemendum. Með tilkomu Jamf þá get ég stýrt því hverju nemendur hafa aðgang að í sinni spjaldtölvu hverju sinni. Markmiðið með að nota Apple Classroom var að geta fylgst með hvað nemendur væru að gera en ég þurfti ekki eins mikið á því að halda eftir að ég gat notað Jamf til að stjórna spjaldtölvum nemenda. Það er mikill munur á að geta stjórnað því sem nemendur hafa aðgang að í þeirri spjaldtölvu sem þeir eru að vinna í. Þá hafa þau ekki tækifæri til þess að fara og leika sér í öðrum forritum en þeim þau eiga að vera að vinna í. Þrátt fyrir að Jamf hafi gefið mér þann möguleika að stjórna aðgengi hjá nemendum þá ákvað ég að skoða hvað Apple Classroom hefur uppá að bjóða. Ég þurfti ekki lengur á því að halda til að fylgjast með því hvort nemendur væru ekki örugglega í réttum forritum. Ég tók hinsvegar eftir því að mér fannst mjög gott að geta séð skjáina hjá öllum nemendunum í minni spjaldtölvu. Það auðveldaði mér að fylgjast með vinnu nemenda og þau voru virkari þar sem þau vissu að ég væri að fylgjast með þeim. Apple Classroom hafði einnig nokkra kosti til viðbótar við að fylgjast með spjaldtölvum nemenda. Það er valmöguleiki að læsa spjaldtölvum hjá nemendum. Það er mjög gott að nota það þegar nemendur eiga að hætta í spjaldtölvu. Áður fyrr þá tók það nemendur langan tíma að hætta vinnu sinni og ganga frá spjaldtölvum þegar þau áttu að gera það. Núna læsist spjaldtölvan hjá öllum á sama tíma og frágangur í lok tíma er því skilvirkari og fljótari. Eins og flestir þekkja þá stríðir tækni manni stundum. Helsti gallinn við bæði Apple Classroom og Jamf er hversu oft upp koma hnökrar og eitthvað sem ekki virkar sem skyldi. Þrátt fyrir það þá er ég mjög sáttur með forritin og þau hafa aukið öryggi mitt í að nota spjaldtölvur í minni kennslu.
Hér eru nemendur að vinna í Stopmotion. Þarna er ég með það stillt þannig að einungis er hægt að vinna í Stopmotion
Hér eru nemendur að vinna hugarkort. Þarna er ekkert læst og geta því nemendur verið í öðru. Nokkrar spjaldtölvur eru enn í Kahoot vegna þess að þeir nemendur eru ekki mættir og voru síðast í Kahoot þegar þeir voru í spjaldtölvu.