Ég hef látið nemendur mína útbúa hugarkort þar sem þau geta sett fram hugmyndir sínar og vitneskju á sjónrænan hátt. Ég hef notað hugarkort til að kanna forþekkingu nemenda og til að taka saman helstu atriði úr sögu eins og sögupersónur, atvik, boðskap og hugmyndir. Hugarkort veitir nemendum leið til að tjá hugmyndir sínar og vitneskju á skapandi hátt. Nemendur hafa frjálsar leiðir til að vinna hugarkortið og geta notað texta, myndir, liti eða hvað sem þeim dettur í hug. Mínir nemendur hafa alltaf gert sín hugarkort í teiknibók en ég ákvað að skoða forrit þar sem nemendur gætu unnið sín hugarkort rafrænt. Ég ákvað að prufa forritið Ayoa Mindmap 4 Kids.
Bekkurinn er að lesa saman bókina Hetjurnar þrjár úr Sestu og Lestu bókaflokknum. Við lesum hvern kafla saman, förum yfir óþekkt orð og ræðum innihald hans. Þegar lestri á þriðja kafla lauk þá ákvað ég að láta nemendur hefjast handa við að útbúa hugarkort um framgang sögunnar í forritinu. Það heppnaðist mjög vel. Í forritinu er fjölbreytt val til að útfæra hugarkortin. Það er hægt að nota mörg mismunandi form, liti, mismunandi arma og það er hægt að setja inn myndir, hljóð og teikna. Ég tók strax eftir kostunum við það að leyfa þeim að gera sín hugarkort í þessu forriti. Hugarkortin urðu fjölbreyttari heldur en þegar þau teiknuðu hugarkortin sín sjálf. Hugarkortin þeirra urðu einnig ítarlegri, meira skapandi og þau sukku dýpra í vinnuna við gerð þeirra. Nemendur sem kvörtuðu áður yfir því að þurfa að gera hugarkort og framkvæmdu lágmarksvinnu unnu hörðum höndum að sínum kortum. Það var strax auðsjáanlegur ávinningur af því að láta nemendur vinna hugarkortin sín í þessu forriti og von mín er sú að þetta hjálpi þeim að nota hugarkort til að aðstoða sig í sínu námi í komandi framtíð.