Eina heimanámið sem nemendur mínir þurfa að sinna er heimalestur. Venjan er sú að nemendur taka heim með sér útprentað lestrarhefti þar sem foreldrar kvitta fyrir lestri. Þegar nemendur mæta í skólann á mánudegi þá þarf að kíkja í lestrarheftin hjá öllum nemendum og athuga hversu oft þeir lásu í liðinni viku. Það er tímafrekt að fara yfir lestrarheftin og nauðsynlegt var að fara yfir þau í tímanum svo nemendur gætu tekið lestrarheftin aftur með sér heim. Það gerðist síðan oftar en einu sinni að nemendur gleymdu lestrarheftinu eða voru jafnvel búin að týna því. Eins gerðist það að nemendur gleymdu heftinu í skólanum og gátu því foreldrar ekki kvittað.
Mér fannst þetta ekki ganga nógu vel og ákvað að breyta um aðferð. Í staðinn fyrir lestrarhefti fyrir árið fengu nemendur eitt blað í hverri viku. Kostirnir við þessa nálgun var að ég þurfti ekki að prenta heilt hefti aftur ef nemendur týndu því og ég gat farið yfir kvittunarblöðin í rólegheitum eftir skóladaginn. Þetta virkaði aðeins betur en vandamálið með týnd eða gleymd kvittunarblöð hélt áfram. Einnig tók það smá tíma að fara yfir blöðin, skrá inn kvittanir í tölvuna og síðan í mentor. Ég velti þessu mikið fyrir mér og hugsaði að það væri pottþétt hægt að gera þetta betur.
Ég fór því í rannsóknarvinnu og reyndi að finna leiðir til þess að foreldrar gætu kvittað fyrir lestri rafrænt. Ég fann nokkrar mismunandi leiðir en það vantaði samt alltaf þann möguleika að ég gæti séð kvittanir hjá öllum foreldrum á sama stað. Þar sem mín hugsun var að reyna að spara tíma þá var það sem ég fann á netinu ekki alveg það sem ég var að leita að. Þær leiðir sem ég fann kröfðust þess allar að ég þyrfti að opna skjal hjá hverjum og einum nemanda. Sumar leiðir sem ég fann á netinu, þar sem hægt var að sjá kvittun hjá öllum á sama stað, var þannig að aðrir foreldrar gátu séð það líka. Vegna persónuverndarlaga þá er sú leið ekki í boði.
Ég ákvað því að hafa samband við Ingva Hrannar og athuga hvort að hann vissi um góða aðferð eða þekkti einhvern sem hann gæti komið mér í samband við sem væri búinn að finna góða lausn. Hann kom mér í samband við kennara í Giljaskóla sem var tilbúinn til þess að deila með mér hvernig hann útfærði þetta.
Hann deildi með mér skjölunum sínum en hann lét foreldra kvitta fyrir heimalestri í gegnum google sheets. Ég skoðaði skjölin hans og fór síðan á netið og horfði á nokkur fræðslumyndbönd svo ég gæti lært betur hvernig þetta virkar. Þetta hefur auðveldað vinnu mína töluvert. Þegar ég mæti í vinnu á mánudegi þá þarf ég bara að kíkja í móðurskjalið og þar sé ég í sama skjali kvittanir frá öllum nemendum. Það tekur mig því núna bara um 2 mínútur að skoða skjalið og færa það yfir í mentor. Það eru margir kostir við þetta fyrirkomulag. Ég þarf að eyða töluvert minni tíma í að fara yfir kvittanir og get ég því nýtt tímann minn í annað. Þetta sparar pappír því ég þarf ekki að prenta út kvittunarhefti lengur. Nemendur eru ekki lengur að týna heftunum né að gleyma þeim og er það vandamál því úr sögunni.
Það tók þó smá tíma að vinna grunnvinnunna en hún var vel þess virði. Ég þurfti að útbúa google sheets skjal fyrir hvern og einn nemanda sem foreldrar fengu aðgang að hjá sínu barni. Ég tengdi síðan hvert og eitt skjal við móðurskjal sem ég einn hef aðgang að. Nemendur fengu bókamerki heim sem á var QR kóði sem foreldrar geta skannað til að kvitta fyrir lestri. Ég var spenntur að prufa þetta en var hræddur um að einhverjir foreldrar myndu lenda í vandræðum eða þykja þetta óþarfa vesen og vilja fá gamla kvittunarheftið aftur. Sú hræðsla var óþörf því strax frá fyrsta degi hefur þetta gengið eins og í sögu. Ég hef ekki fengið neinar kvartanir heldur þvert á móti þá hef ég fengið mikið hrós fyrir þetta frá foreldrum. Aðrir kennara hafa einnig heillast af þessu og ég hef verið með kynningu á þessari vinnu bæði fyrir kennara í mínum skóla sem og í öðrum skólum í Hafnarfirði. Ég er mjög sáttur með hvernig þetta kom út og ég mun halda áfram að vinna að því að gera útfæra þessa aðferð betur á komandi árum.
Þetta er skjalið sem ég fékk frá Giljaskóla. Þetta er nemendaskjal sem foreldri hvers nemenda fær aðgang að til að kvitta fyrir lestri.
Þetta er móðurskjalið frá Giljaskóla. Kennarinn hefur aðgang að þessu og þarna sér hann hvað hver og einn nemandi hefur lesið.
Þetta er nemendaskjalið sem ég útbjó. Þar sem ég er kennari á yngsta stigi þá breytti ég þessu úr mínútum og yfir í skipti lesin í hverri viku. Foreldrar setja tölustafinn 1 til að skrá hvert skipti sem lesið er.
Þetta er móðurskjalið mitt. Þegar foreldrar kvitta fyrir heimalestri í nemendaskjalið þá uppfærist móðurskjalið sjálfkrafa og þarna get ég því fylgst með hversu oft nemendur eru búnir að lesa.