Lundarskóli

Hagnýtar upplýsingar um val nemenda

Í stundaskrá nemenda í 8., 9. og 10. bekk eru 37 kennslustundir. Af þeim eru 6 stundir í valgreinum. Þannig hafa nemendur töluvert tækifæri til að hafa áhrif á grunnskólanám sitt. Valið skiptir miklu máli og gott að hafa þætti eins og áhugasvið og framtíðaráform í huga og athuga að velja sjálfstætt út frá eigin áhuga. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að nám í valgreinum er ekki frábrugðið námi í öðrum greinum, þar gilda sömu reglur um mætingu o.þ.h. og í kjarnagreinum, það er ekki val að mæta í valgreinar.

Skólaárið 2023-2024 geta nemendur valið úr fjölmörgum greinum sem  nánar eru kynntar hér. Markmiðið er að bjóða upp á fjölbreytt úrval valmöguleika og von okkar er sú að allir geti fundið sér áhugaverðar og spennandi greinar.

Flestar greinar eru opnar fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk en þó eru nokkrar einungis fyrir 9. og 10. bekk. Vinsamlegast hafið það hugfast.

Almennt samsvarar hver grein 2 kennslustundum á viku og eru kenndar hálfan vetur hver og því þarf að velja sérstaklega fyrir hvora önn.

Samvalsgreinar eru kenndar í grunnskólum bæjarins, nokkrar í VMA og á fleiri stöðum.  Reiknað er með að nemendur geti nýtt sér strætisvagnakerfi bæjarins til að komast milli staða.

Fyrstu 1-2 vikur í valgrein getur verið mögulegt að skipta um grein en þó er slíkt alltaf háð aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig.
Eftir þann tíma er ekki hægt að skipta milli greina og því mikilvægt að vanda valið vel. 

Nemendur eiga kost á að fá nám við sérskóla metið sem og ýmiskonar félags- og/eða íþróttaiðkun ásamt þjálfun hjá íþróttafélagi. Einfalt metið val samsvarar tómstundastarfi 1-5 klst. á viku. Tvöfalt metið val samsvarar iðkun í 5 klst. eða meira á viku í íþróttum, þjálfun eða félagsstarfi. Einnig geta nemendur fengið fjarnám við framhaldsskóla metið.

Til staðfestingar þátttöku í metnu vali þarf að skila staðfestingu á ástundun í sept/okt á þar til gerðu eyðublaði sem nemendur fá hjá deildarstjóra.

Nemendur og foreldrar bera fulla ábyrgð á iðkun í metnu vali og skilum á staðfestingu til að starfið fáist metið. Ef breyting verður á, eða nemendur hætta að iðka þá tómstund sem metin er ber að tilkynna það strax til skóla til að hægt sé að bæta inn valgrein strax.

Athugið að metið val má að hámarki koma í stað 4 kest. á viku. Foreldrar bera allan kostnað af tómstundastarfi sem óskað er eftir að fá metið með þessum hætti.

Nemendum og foreldrum/forráðamönnum er velkomið að ráðfæra sig við  Fjólu Dögg Gunnarsdóttur, deildarstjóra (fjolad@akmennt.is) ef spurningar vakna. Sími skólans er 462-4888.


Valinu þarf að skila inn í síðasta lagi mánudaginn 22. maí 2023 og einnig minnum við á að velja þarf fyrir bæði haust og vorönn.


Innanskólaval

Fiðringur

Innanskólaval

Fyrir hverja: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Lundarskóli

Kennari: Stefán Smári

Vorönn


Nemendur semja og útsetja atriði fyrir hæfileikakeppni grunnskólanna á Akureyri sem ber heitið Fiðringur og er náfrændi Skrekks í Reykjavík og Skjálftans á Suðurlandi. Þetta er hæfileikakeppni þar sem 8. 9. og 10. bekkir fá að taka þátt.

Í þessu felst undirbúningur og æfingar fyrir lokasýningu að vori, nemendum gefst tækifæri til að hanna búninga, sviðsmynd, tónlist, dans og fleira, ekki er nauðsynlegt að taka þátt í sjálfu atriðinu til að vera með. 

Aðstoð við ensku

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Lundarskóli


Haustönn, Vorönn

Markmið: Að nemendur, sem telja sig hafa þörf á, fái aðstoð við ensku. Nemendur skipuleggja sjálfir hvað þeir ætla að vinna í tímanum, en þess er krafist að það ríki vinnufriður og að nemendur séu vinnusamir. Ef í ljós kemur að nemendur virðast ekki hafa þörf né áhuga á að nýta sér tímana verða þeir að fara í aðra valgrein. 

Námsmat: Ástundun, áhugi og frammistaða í kennslustundum.

Tíminn er aðeins 40 mín og því þurfa nemendur að velja aðra 40 mín valgrein svo það teljist sem ein

Sértæk aðstoð í námi

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Lundarskóli

Haustönn, Vorönn

Valgrein fyrir nemendur sem þurfa aukinn stuðning í námi og utanumhald – fámennur hópur þar sem unnið verður með heimanám og önnur verkefni eftir þörfum. Nemendur geta einnig fengið aðstoð við skipulagningu.

Bakstur

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Lundarskóli

Haustönn, Vorönn

Lýsing: Kenndar verða allar helstu bakstursaðferðir s.s. brauðbakstur með bæði lífrænum og ólífrænum lyftiefnum, kökubakstur af ýmsu tagi s.s. hrærðar kökur, hnoðaðar kökur, þeyttar kökur, auk kökuskreytinga. 

Markmið: Að nemendur nái tökum á fyrrgreindum tegundum baksturs og geti í lok tímabils bakað án aðstoðar eftir uppskriftum og helmingað eða margfaldað uppskriftir eftir þörfum og jafnvel búið til sína eigin uppskrift.

Kennsluaðferðir: Sýnikennsla, hóp og paravinna.

Námsmat: Mat á verkefnum í lok hvers tíma, kennaramat og sjálfsmat.

Starfsnám í skóla

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Lundarskóli

Haustönn, Vorönn

Alla daga

Fyrirkomulag: Nemendur eru fyrst og fremst að aðstoða í Frístund og vinna þar undir verkstjórn forstöðumanns. Verkefnin geta verið fjölbreytt en þau felast fyrst og fremst í því að vinna með yngstu nemendum skólans, að aðstoða þau í leik og starfi. Þeir nemendur sem vilja vera í starfsnámi innan skóla en treysta sér ekki til að vera í Frístund geta fengið að vinna undir verkstjórn skólaliða við þrif eða annað sem til fellur innan skólans.
Námsmat: Verður í formi umsagna um frammistöðu, vilja og virkni.

Námstækni og markmiðasetning

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Lundarskóli

Haustönn, Vorönn

Kennari: Hildur Mist, náms-og starfsráðgjafi

Markmið: Að nemendur kynnist betur aðferðum í námstækni, skipulagi og markmiðasetningu. 

Tíminn er aðeins 40 mín og því þurfa nemendur að velja aðra 40 mín valgrein svo það teljist sem ein.

Félagsstörf-fjáröflun

Innanskólaval
Fyrir: 10.bekk
Staðsetning: Lundarskóli
Hvenær: Haustönn og vorönn
Lýsing: 
Nemendur skipuleggja og undirbúa fjáraflanir fyrir skólaferðalag 10. bekkjar. Verkefnin eru margvísleg og þurfa nemendur að vera í góðum samskiptum við foreldra, kennara, deildarstjóra, húsvörð og aðra sem koma að fjáröfluninni á einhvern hátt.
Það eru allir í 10.bekk sem sjá um að mæta á vaktir og annað á viðburðunum sjálfum en þeir sem eru í valgreininni sjá um allt skipulag og undirbúning.

Félagsmiðstöð

Félagsmiðstöðvaval: Valgrein fyrir þá sem vilja skipuleggja starfið í sinni félagsmiðstöð (setja upp viðburði, auglýsa þá og stjórna þeim). Nemendur fá einnig fjölbreytta fræðslu og taka þátt í umræðum og hópefli/leikjum. Lögð er áhersla á reynslunám, tómstundir, samvinnu og félagsmál. Mælst er til þess að nemendur í valinu séu virkir þátttakendur í sinni félagsmiðstöð. 

Skólahreysti

Markmiðið er að nemendur:

 · Auki styrk sinn og þol

 · Læri að setja sér markmið

 · Fái jákvæða upplifun af íþróttaiðkun

Kennslutilhögun:

Tímarnir eru að öllu leyti verklegir og nemendur stunda alhliða líkamsþjálfun.

Nemendur fá tækifæri til að skipuleggja tíma fyrir sig sjálfa t.d. eigin þrek– og hraðaþraut.

Sérstök áhersla verður lögð á æfingar sem tengjast „Skólahreysti.

Í lokin taka nemendur þátt í undankeppni „Skólahreysti Lundarskóla”.

Rétt er að geta þess að allir nemendur hafa kost á því að taka þátt í undankeppni fyrir „Skólahreysti“ hvort sem þeir velja þennan áfanga eða ekki.

Gert er ráð fyrir að þeir sem velja þetta val hafi áhuga á því að efla þol og styrk og eða keppa í skólahreysti.
Kennt verður í íþróttahúsi KA

Aðstoð við stærðfræði

Markmið: Að nemendur, sem telja sig hafa þörf á, fái aðstoð í stærðfræði. Nemendur skipuleggja sjálfir hvað þeir ætla að vinna í tímanum, en þess er krafist að það ríki vinnufriður og að nemendur séu vinnusamir. Ef í ljós kemur að nemendur virðast ekki hafa þörf né áhuga á að nýta sér tímana verða þeir að fara í aðra valgrein. 

Námsmat: Ástundun, áhugi og frammistaða í kennslustundum.

Tíminn er aðeins 40 mín og því þurfa nemendur að velja aðra 40 mín valgrein svo það teljist sem ein. 

Aðstoð við dönsku

Markmið: Að nemendur, sem telja sig hafa þörf á, fái aðstoð við dönsku. Nemendur skipuleggja sjálfir hvað þeir ætla að vinna í tímanum, en þess er krafist að það ríki vinnufriður og að nemendur séu vinnusamir. Ef í ljós kemur að nemendur virðast ekki hafa þörf né áhuga á að nýta sér tímana verða þeir að fara í aðra valgrein. 

Námsmat: Ástundun, áhugi og frammistaða í kennslustundum.

Tíminn er aðeins 40 mín og því þurfa nemendur að velja aðra 40 mín valgrein svo það teljist sem ein. 

Fjölbreytt hreyfing

Innanskólaval
Kennari: Birgitta Guðjónsdóttir

Fjölbreytt hreyfing er val sem snýst um að kynnast og njóta fjölbreyttrar hreyfingar.  Eins og t.d. ganga,hjóla, standblak, frjálsar íþróttir, líkamsrækt, jóga, RBST, blak, gönguskíði, golf, leikir, sund og örugglega margt fleira. Þá er hugsunin að vera sem mest úti við en þó líka inn í t.d. í líkamsræktarstöð, golf aðstöðu, Bogann o.s.f.v.