Giljaskóli

Hagnýtar upplýsingar um val nemenda

Skólaárið 2023 – 2024 verður boðið upp á fjölbreytt úrval valgreina og von okkar er sú að allir geti fundið sér áhugaverðar og spennandi greinar. Það er mikilvægt að nemendur ræði hugmyndir sínar við foreldra eða forráðamenn, velji eftir eigin sannfæringu og séu sjálfstæðir í því sem þeir velja.

Hafið í huga að valgreinar eru jafn mikilvægar og aðrar námsgreinar í skólanum. Kröfur um ástundun og árangur eru jafnmiklar og í öðrum greinum.

Flestar greinar eru opnar fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk en þó eru nokkrar einungis fyrir 9. og 10. bekk. Vinsamlegast hafið það hugfast þegar þið skoðið hvað er í boði.

Hver grein er kennd tvær kennslustundir á viku. Nemandi velur sér grein fyrir ½ vetur í senn. Oft er sama valgrein í boði fyrir og eftir áramót og er nemendum þá frjálst að velja sömu greinina fyrir og eftir áramót ef þeir kjósa það.

Hver nemandi í 8. – 10. bekk  þarf að skila 37 kennslustundum á viku, þarf af eru 6 kennslustundir af þessum 37 kenndar í valgreinum eða 3 valgreinar.

Ekki er víst að hægt verði að verða við öllum óskum nemenda um valgrein. Greinar geta fallið niður vegna lítillar þátttöku eða annarra ófyrirséðra ástæðna. Einnig getur komið fyrir að fleiri sækja í greinar en hægt er að koma að. Því þurfa nemendur að merkja við sex valgreinar á valblaðinu fyrir áramót og sex valgreinar eftir áramót. Þeir merkja nr. 1 við þá valgrein sem þeir hafa mestan áhuga fyrir, nr. 2 þá sem þá langar næst mest í o.s.frv.

Samvalsgreinar eru þær valgreinar kallaðar sem eru kenndar sameiginlega fyrir nemendur úr öllum skólum bæjarins víðsvegar um bæinn. Gert er ráð fyrir að nemendur nýti sér strætisvagna til að koma sér á milli staða.

Eftir fyrstu 1-2 vikurnar í valgrein getur verið mögulegt að skipta um grein en þó er slíkt alltaf háð aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig. Eftir þann tíma er ekki hægt að skipta milli greina.

Nemendur eiga kost á að fá nám við sérskóla metið sem og ýmiskonar félags- og/eða íþróttaiðkun eða þjálfun:

Til staðfestingar þátttöku í metnu vali þarf að skila staðfestingu á ástundun í sept/okt á þar til gerðu eyðublaði.

Athugið að metið val má að hámarki koma í stað 4 kest. á viku. 

Foreldrar bera allan kostnað af tómstundastarfi sem óskað  er eftir að fá metið með þessum hætti.

Nemendur og foreldrar bera fulla ábyrgð á iðkun í metnu vali og skilum á staðfestingu til að starfið fáist metið. Ef breyting verður á, eða nemendur hætta að iðka þá tómstund sem metin er ber að tilkynna það strax til skóla til að hægt sé að bæta inn valgrein strax.


Munið að velja fyrir báðar annir!!

 

Valinu þarf að skila inn í síðasta lagi þriðjudaginn 23. maí 2023.

Ef einhverjar spurningar vakna þá er velkomið að hafa samband við  Völu Stefánsdóttur deildarstjóra (vala@giljaskóli.is) ef spurningar vakna. Sími skólans er 462 4820.

Innanskólaval

Efnafræðival

Innanskólaval

Fyrir: 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Giljaskóli


Vorönn

Föstudagur kl. 13:15


Mikil áhersla á tilraunir sem krefjast sjálfstæðra vinnubragða og góðrar umgengni. Nemendur læra um frumur, frumefni, sameindir, efnasambönd o.s.frv. Einnig öðlast nemendur góðan skilning á uppbyggingu frumefna og staðsetningu í lotukerfinu o.m.fl. Vinnubækur og skýrslur vega þungt í einkunn. Mikil hópavinna. Mikill heimalestur. Erfið en skemmtileg valgrein og góður undirbúningur undir efnafræði í framhaldsskóla.

Boltaval

Innanskólaval

Fyrir: 8.-10. bekkur

Staðsetning: Giljaskóli


Vorönn

Mánudagar kl. 13:15


Markmið og kennsluaðferð: Áhersla er lögð á boltagreinar og ýmiskonar boltaleiki. Tilgangur með boltaíþróttum er m.a. til að efla líkamsþroska, bæta heilsufar og vekja áhuga á íþróttaiðkun til ástundunar utan skóla sér til heilsubótar og lífsfyllingar. Kennslunni er skipt niður í tímabil þar sem farið verður m.a. í: Fótbolta, blak, körfubolta, handbolta, hafnarbolta, bandý, ýmsa boltaleiki og margt fleira. Mikil fjölbreytni verður í tímunum og með því móti er reynt að gera kennsluna áhrifameiri, líflegri og skemmtilegri. 

Hönnun og endursköpun í textíl

Innanskólaval

Fyrir: 8. - 10. bekk

Staðsetning: Giljaskóli


Vorönn

Þriðjudagur kl. 14:00


Skólinn fékk mikið magn af prufum og efnum gefins frá fyrirtæki sem hannar útivistafatnað. Við ætlum að nota þessi efni til þess að hanna og útfæra alls konar hluti, læra helling af nýjum tækniatriðum við að sauma og skreyta textíla. Hönnuður kemur í heimsókn með fræðslu og í lokin höldum við sýningu með öllum fallegu hlutunum sem við búum til.

Nýsköpun

Innanskólaval

Fyrir: 8. og 9. bekk

Staðsetning: Giljaskóli


Haustönn, Vorönn 2023-2024 og 2024-2025


Tveggja ára nýsköpunarverkefni 

Valgreinin stendur yfir tvö skólaár (2023-2024 og 2024-2025) og er því einungis í boði fyrir verðandi 8. og 9. bekk. Áfanginn er hluti af mögulegu Ersamus samstarfsverkefni milli Giljaskóla og tveggja annarra skóla, í Hamburg Þýskalandi og Ljubliana Slóveníu. Verið er að sæḱja um styrk fyrir verkefnið og áfanginn er háður því að styrkveiting fáist. Þátttaka í áfanganum krefst mikillar þátttöku nemenda og skuldbindingar af þeirra hálfu þar sem um er að ræða tveggja ára verkefni auk þess sem farið verður erlendis tvisvar á meðan á verkefninu stendur. Nemendur þurfa að sækja um þátttöku í áfanganum en um takmörkuð pláss er að ræða. Nemendur þurfa að fá leyfi foreldra fyrir því að sækja um áfangann vegna ferða erlendis.

Helstu áhersluatriði

Viðfangsefnið er nýsköpun þar sem hönnuð verður vara út frá menningararfi þriggja þjóða. Farið verður í alla umgjörð varðandi stofnun fyrirtækis, þar með talið fjárhagsáætlun, markaðssetingu, vöruhönnun og umbúðahönnun.

Námsmat og uppbygging kennslu:

Valgreinin verður kennd einu sinni í viku að jafnaði en í kringum ferðir erlendis má búast við meiri þátttöku, það á einnig við þega skólinn tekur á móti nemendum og starfsfólki frá samstarfs skólum. Reikna má með tveimur ferðum erlendis, annars vegar til Ljubljana og hins vegar til Hamburg. Á milli ferða er unnið í vikulegum kennslustundum, þá er íslenski hópurinn stundum að vinna sér en stundum verður samvinna eða verkefni í gegnum netið. Námsmat verður byggt á þátttöku og frammistöðu og um staðið/metið að ræða.

Félagmiðstöðvaval

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Giljaskóli


Haustönn, Vorönn

Fimmtudagur kl. 14:30


Valgrein fyrir þá sem vilja skipuleggja starfið í sinni félagsmiðstöð (setja upp viðburði, auglýsa þá og stjórna þeim). 

Nemendur fá einnig fjölbreytta fræðslu og taka þátt í umræðum og hópefli/leikjum.  Lögð er áhersla á reynslunám, tómstundir, samvinnu og félagsmál.  Mælst er til þess að nemendur í valinu séu virkir þátttakendur í sinni félagsmiðstöð. Nemendum í Félagsmiðstöðvavali býðst jafnframt að taka þátt á Landsmóti Samfés og Góðgerðavöku Félak.

Fiðringur

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Giljaskóli


Haustönn, Vorönn

Miðvikudagur kl. 13:15


Undirbúningur fyrir þátttöku í hæfileikakeppni grunnskóla Akureyrar. Ýmis störf í boði, hljóð, búningar, hár og framkoma eru meðal viðfangsefna valsins.

Fjör í Frístund

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Giljaskóli


Haustönn, Vorönn

Kennt, mánudaga, þriðjudaga, miðvikudaga og föstudaga frá kl. 13:15


Kennsluhættir: Nemendur taka þátt í leik og starfi sem fram fer í Frístund í Giljaskóla og sinna verkefnum í undir verkstjórn forstöðumanns Frístundar. Hver lota er 80 mín. einu sinni í viku. 


Námsmat: Verður í formi umsagna um frammistöðu, vilja og virkni. 

Stærðfræði - framhalds

Innanskólaval

Fyrir: 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Giljaskóli


Haustönn, Vorönn

Kennt á þriðjudögum kl. 13:15


Einkum ætlað þeim nemendum sem stefna að námi á raungreinabrautum framhaldsskóla. Greinin er hugsuð sem viðbót við námsefni unglingadeildar. Nemendur þurfa að hafa náð góðum námsárangri í stærðfræði 8. bekkjar til að geta valið þessa valgrein. 


Námsmat byggist á verkefnum og/eða prófum. 

Stærðfræðival 

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Giljaskóli


Haustönn, Vorönn

Kennt á þriðjudögum og miðvikudögum kl. 13:15


Einkum ætlað þeim nemendum sem ekki hefur gengið nógu vel í stærðfræði. Greinin er hugsuð sem stuðningur við námsefni unglingadeildar og önnur grunnatriði í stærðfræði. Valgreinin er aðeins ætluð þeim sem hafa verulegan áhuga á að bæta stærðfræðikunnáttu sína og eru tilbúnir til leggja á sig talsverða vinnu til þess. Nemendur eiga þess kost að vinna heimadæmi í Moodle-kerfinu í kennslustundum en þau eru lögð fyrir alla nemendur unglingadeildar. Þau geta sinnt heimanámi í stærðfræði eða öðrum námsgreinum að því loknu. Símat.

Söngur

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Giljaskóli


Haustönn

Kennt á mánudögum kl. 13:15


Söngur kenndur í litlum hópum, áhersla á íslensk dægurlög. Valgreinin endar með tónleikum.