Glerárskóli

Hagnýtar upplýsingar um val nemenda

Þegar nemandi velur sér valgrein er mikilvægt að hann velti öllum möguleikum vel fyrir sér og ræði hugmyndir sínar við foreldra eða forrráðamenn.  Valið á að byggja á áhuga og þörfum hvers og eins en ekki því hvert félagarnir stefna.  Hafið í huga að valgreinar eru jafn mikilvægar og aðrar námsgreinar og kröfur um ástundun og árangur jafnmiklar og í öðrum greinum.  


Ekki er víst að hægt verði að verða við öllum óskum nemenda um valgrein.  Greinar geta fallið niður vegna lítillar þátttöku eða annarra ófyrirséðra orsaka.  Einnig getur komið fyrir að fleiri sækja í greinar en hægt er að koma að.


Hver nemandi á unglingastigi þarf að skila 37 kennslustundum á viku.  

Nemendur í 8., 9. og 10. bekk eru með 31 kest., í kjarna og þurfa að velja sér þrjár auka námsgreinar og þrjár til vara fyrir hvora önn. 

Veljið greinar með því að setja númer frá 1 til 6. Merkið 1 við það sem þið viljið mest og svo áfram upp í 6.

Hver grein er kennd tvær kennslustundir á viku. Nemandi velur sér grein fyrir ½ vetur í senn. Oft er sama valgrein í boði fyrir og eftir áramót og er nemendum þá frjálst að velja sömu greinina fyrir og eftir áramót ef þeir kjósa það.

Samvalsgreinar eru kenndar í grunnskólum bæjarins og fleiri stöðum.  Gert er ráð fyrir að nemendur nýti sér strætisvagnakerfi til að koma sér á milli staða.

Nemendur eiga þess kost  að fá félagsstarf eða nám utan skólans metið sem námsgrein. Að hausti þarf að skila inn staðfestingu frá þjálfara/kennara/umsjónaraðila og foreldri/forrráðamanni á þar til gerðu eyðublaði frá skólanum. Að vori mun skóli óska eftir upplýsingum um ástundun nemandans.  Nemendur og foreldrar bera ábyrgð á ástundun í metnu námi. Athugið að starfsemi utan skólans má að hámarki meta sem fjórar kennslustundir á viku. Foreldrar bera allan kostnað af tómstundastarfi sem óskað er eftir að fá metið með þessum hætti. Fái nemandi fjarnám við framhaldsskóla metið samsvarar tveggja eininga áfangi einni valgrein. 

Valinu þarf að skila inn í síðasta lagi föstudaginn 19. maí 2023.

Ef einhverjar spurningar vakna þá vinsamlegast hafið samband við Helgu deildarstjóra
netfang: helgah@glerarskoli.is eða í síma skólans 461-2666.

Innanskólaval

Félagsmiðstöð

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Glerárskóli


Haustönn, Vorönn


Val fyrir þá sem vilja skipuleggja starfið í sinni félagsmiðstöð (setja upp viðburði, auglýsa þá og stjórna þeim). Nemendur fá einnig fjölbreytta fræðslu og taka þátt í umræðum og hópefli/leikjum. Nemendur í valinu verða virkir þátttakendur í sinni félagsmiðstöð. Nemendum í Félagsmiðstöðvavali býðst jafnframt að taka þátt á Landsmóti Samfés og Góðgerðavöku Félak. 

Fiðringur

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Glerárskóli/Rósenborg


Haustönn, Vorönn


Nemendur skipuleggja og semja atriði fyrir hæfileikakeppni grunnskólanna á Akureyri sem ber heitið Fiðringur. Nemendur í 8. 9. og 10. bekk fá að taka þátt. Í þessu felst undirbúningur og æfingar fyrir lokasýningu í Hofi að vori, nemendum gefst tækifæri til að hanna búninga, sviðsmynd, tónlist, dans og fleira. Fiðringur verður í stundatöflu samhliða list og verkgreinum. Þeir sem velja Fiðring fara ekki í hefðbundnar list og verkgreinar þar sem mikil sköpun fer fram í þessari námsgrein. Fiðringur telst ekki til hefðbundinna valgreina. Námsgreinin verður kennd allan veturinn.

Forritun

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Glerárskóli/Rósenborg


Haustönn, Vorönn


Markmið valgreinarinnar er að vekja áhuga nemenda á forritun, tækni og vísindum sem og að efla sjálfstraust, leiðtogahæfni og lífsleikni. Nemendur læra grunntækni við forritun. Notuð verða bæði einföld og flóknari forrit í tölvu/I-pad. Nemendur fá þjálfun í að forrita ýmis ferli og hreyfingar. Forrituð verða lego-vélmenni og unnið með lego-tækni. Nemendur læra að beita stærðfræði og vísindum til að leysa raunveruleg verkefni og temja sér öguð vinnubrögð. 

Möguleiki að greinin verði kennd samhliða list- og verkgreinum og teljist þá til þeirra. 


Námsmat verður í formi umsagna um frammistöðu, vilja og virkni.

Frístundaval

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Glerárskóli


Haustönn, Vorönn


Helstu áhersluratriði: Nemendur aðstoða í frístund einn dag í viku e.h. ca. 80. Mín. Nemendur fá að kynnast leik og starfi barnanna í Frístund og vera starfsfólki innan handar við að sinna börnunum. 


Námsmat byggir á áhuga, frumkvæði og virkni.


Nemendur geta valið sér tímasetningar til að mæta í Frístund. 

Hlaðvarp

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Glerárskóli/Rósenborg


Vorönn

Mánudagur


Hlaðvarp/Podcast er miðill sem hefur slegið rækilega í gegn á síðustu árum. Þótt hlaðvörp lúti eigin lögmálum má segja að þau séu í raun útvarpsþættir sem settir eru á netið.


Markmið valgreinarinnar er að þátttakendur kynnist hlaðvarpinu, vinnuaðferðum og búi til sinn eigin hlaðvarpsþátt.

Hlaðvörp eru margvísleg. Sum fjalla um ákveðin efni s.s. tónlist, kvikmyndir eða íþróttir. Önnur byggja á frásögnum og enn önnur fjalla um stjórnmál eða samfélagsmál.


Í valgreininni er lögð áhersla á að nemendur læri að afla sér upplýsinga um ákveðin málefni, greini aðalatriðin frá aukaatriðum og miðli sögu með hjálp tónlistar, viðtala og almennar söguuppbyggingar. Markmið valgreinarinnar er að nemendur geti unnið sjálfstætt og geti miðlað sögum eða upplýsingum á markvissan og skemmtilegan hátt öðrum og sjálfum sér til ánægju.

Íþróttaval   

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Glerárskóli


Haustönn, Vorönn

Mánudagur


Helstu áhersluatriði: Farið er nákvæmar í öll atriði íþrótta og nemendur vinna meira sjálfstætt í þeim íþróttagreinum sem farið er í.

Fyrir þá nemendur sem hafa áhuga – verður unnið að því auka snerpu, úthald og þol með endurteknum æfingum og styttri hlaupum þar sem unnið er að undirbúningi fyrir þátttöku í skólahreysti.


Námsmat byggir á frammistöðu í tímum, virkni, áhuga og frumkvæði.

Myndlistaval

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Glerárskóli


Haustönn, Vorönn

Þriðjudagur


Helstu áhersluatriði: Þjálfuð verða grunnatriði myndlistar og byggt ofan á þá þekkingu sem nemendur hafa öðlast á fyrri stigum. Unnið verður með form og liti á fjölbreyttan hátt og unnið í margskonar efnivið og tækni, lögð áhersla á hvernig litir, form og áferð getur undirstrikað ákveðna þætti eða boðskap í myndverki. Nemendur teikna, mála og móta að eigin ósk inn á milli ákveðinna verkefna og áhersla er á hugmyndavinnuna og úrvinnslu sem hentar hverri hugmynd fyrir sig. Reynt verður að gæta fjölbreytni í verkefnavali, allt frá teikningu til málunar og þrykkaðferða auk mótunar og myndvinnslu í tölvum, allt eftir aðstæðum hverju sinni. Nemendur temja sér skapandi úrlausnir viðfangsefna, vönduð vinnubrögð og góða umgengni um efni og áhöld. 


Helsta námsefni: Efni fengið úr ýmsum bókum um myndlist, með tilliti til fjölbreyttra aðferða og efniviðar til myndgerðar og sköpunar. Einnig er stuðst við bækur um listamenn og myndsköpun þeirra og unnið út frá þeim og ítarefni frá kennara. Námið byggir á markmiðum aðalnámskrár grunnskóla.

Helstu kennsluaðferðir: Stuttar kynningar og verklegar æfingar, einstaklings leiðsögn og umræður. Stuðst verður sem mest við gagnvirka kennsluhætti með það að markmiði að ýta undir sjálfstæð vinnubrögð nemenda og skapandi úrlausnir viðfangsefna. 


Námsmat: Símat, byggt á frammistöðu nemenda í kennslustundum. Þróun og úrvinnslu hugmynda og vinnubrögðum. Einnig fá nemendur tækifæri til að meta eigin árangur. Ferli myndsköpunar verður metið jafnt á við fullunnið verk. Ennfremur verður gerð krafa um viðeigandi skil verkefna.


Kennt á þriðjudögum haust og vorönn Glerárskóli/Rósenborg

Smíðaval

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Rósenborg


Haustönn, Vorönn

Fimmtudagur


Helstu áhersluatriði: Byggt er á einstaklingsmiðaðri verkefnavinnu þar sem hver og einn vinnur að sínu verkefni undir leiðsögn kennara. Unnið verður úr hefðbundnum tréefnum. Möguleiki verður á því að vinna með plast, mósaík, leður og fleira sem til fellur. 

Nemendur þurfa að geta beitt helstu smíðaverkfærum á sjálfstæðan hátt, auk þess að gera sér grein fyrir mikilvægi viðhalds verkfæra.

Lögð er áhersla á frumkvæði, vandvirkni og nákvæmni í vinnubrögðum og að verkefnin krefjist góðrar þekkingar á þeim vinnubrögðum sem kennd hafa verið og taki auk þess mið af þeim markmiðum sem sett eru.


Námsmat: Færni, vinnubrögð, vinnusemi, frumkvæði, umgengni og frágangur.


Kennt á fimmtudögum á haust og vorönn í Rósenborg