Þetta verkefni er hluti af námskeiði sem er kennt í Háskóla Unga fólksins 2022.
Á námskeiðinu verður farið yfir mikilvæg skref sem þarf að hafa í huga þegar kemur að hönnun tölvuleikja. Nemendur fá aðgang að einfaldri útgáfu af tölvuleik sem þeir fá tækifæri til að gera eigin útfærslu á. Lögð er áhersla á tilraunir, skapandi hugsun og að þau sjái hvernig þeirra ákvarðanir geta haft áhrif á upplifun spilara á leiknum þeirra.
Nemendur fá að kynnast því að vinna með sérsmíðaðan hugbúnað til þess að gera uppfærslur á sinni hönnun, s.s. hljóði, hraðabreytingum, litum, ögnum (e. particles) og öðrum minni breytingum.
Leiðbeinendur námskeiðsins munu stuðla að einstaklingsmiðaðri kennslu til að mæta nemendum með ólíka reynslu og þekkingu á viðfangsefninu. Þannig geta allir prófað að dýfa litlu tánni í undraheima forritunar.
Henrý Þór Jónsson er starfandi grafík forritari hjá CCP og MS í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. Í meistaranáminu lagði Henrý Þór áherslu á þróun hugbúnaðar og var lokaverkefnið fullbúinn tölvuleikur í leikjavélinni Unreal.
Sædís Harpa Stefánsdóttir, listgreinakennari í grunnskóla í Kópavogi. Hún útskrifast í sumar með MT í kennslu list og verkgreina ásamt því að hafa lokið BA í tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands.