Mynd 7
Blómstrandi dagar 2018 í Lystigarðinum Fossflöt
(Gestný Rós, 2018)
Blómstrandi dagar er menningarhátíð sem haldin er ár hvert í Hveragerði. Bæjarbúar taka þátt í hátíðinni og boðið er upp á fjölbreytt framboð menningarviðburða, áhugaverðar listsýningar og fjölbreytta tónlistarviðburði (Hveragerðisbær, 2021a).
Mynd 33
Skáldagatan Frumskógar
(Gestný Rós, 2021)
Frá 1940 og fram á áttunda áratug 20. aldar dvaldi fjöldi þjóðþekktra listamanna í Hveragerði.
Þeir bjuggu flestir í þrem götum í þorpinu, við Frumskóga (sjá mynd) sem áður var nefnd Skáldagata vegna fjölda skálda og rithöfunda sem bjuggu þar á tímabili.
Hinar göturnar voru Bláskógar og Laufskógar (Björn Pálsson, 1996, bls. 33-34).
Mynd 30
Manndrápshver
(Gestný Rós, 2021)
Hverinn er einn af hættulegri hverum í Hveragerði og er afgirtur.
Hann ber nafn sitt af því að maður féll í hann og lést árið 1906. Þá var sett upp fyrsta götulýsingin í landinu til að lýsa upp umhverfið um hverina. Var það gert til að koma í veg fyrir að svona hræðilegt slys endurtækju sig (Gunnar G. Vigfússon, 2004).
Mynd 32
Hveragerðiskirkja á Sandhól
(Gestný Rós, 2021)
Upphaflega er Hveragerði nafn á hverasvæði í landi Vorsabæjar í Ölfusi, sunnan og vestan Sandhóls. Í dag stendur Hveragerðiskirkja fremst á hólnum (Björn Pálsson, 1996, bls. 10).
Mynd 31
Ruslið frá hvernum
(Gestný Rós, 2021)
Hverirnir í Hveragerði hafa verið notaðir til alls kyns gáfulegra hluta svo sem húshitunar, ísgerðar og í þeim er bakað dýrindis rúgbrauð.
Einnig hafa þeir verið notaðir til mis gáfulegra hluta eins og til sorpeyðingar.
Fyrstu ár byggðar fleygðu Hvergerðingar rusli sínu í Ruslahver, en árið 1947 varð jarðskjálfti og í framhaldi hans lifnaði hverinn svo rækilega við að hann gaus öllu ruslinu aftur til þeirra sem áttu það (Gunnar Dofri Ólafsson, 2013).
Mynd 29
Ljóðalaut og Hamarinn
(Njörður Sigurðarson, 2015)
Sagan segir að Ljóðalaut hafi verið staður þar sem Hveragerðisskáldin fóru á og ortu kvæði forðum. Jóhannes úr Kötlum skrifaði þetta árið 1964:
"Norðan við þorpið rís Hamarinn, einn fegursti staður á voru landi. Gróður þessa hamars er mjög fjölbreyttur og huldufólk á þar bústað. Hamarinn er Paradís andlegheita, og þar sem hann fer að renna saman við Kambana verður á einum stað laut, sem heitir Ljóðalaut. En einhverjir fjandmenn ljóða keyrðu í hana rusl frá þorpinu svo ástfangin skáld áttu á hættu að fá nagla upp í viðkvæmar iljarnar, yrði þeim reikað þangað."
Mynd 27
Gossabrekka og Varmahlíðarhúsið til vinstri.
(Gestný Rós, 2021)
Margir Hvergerðingar draga þá ályktun að örnefnið Gossabrekka sé komið af því að láta sig "gossa niður" brekkuna.
En önnur saga er að brekkan sé kennd við Guðmund Gottskálksson sem byggði elsta húsið í bænum; Varmahlíð. Hann var kallaður Gossi gamli af börnum í barnaskólanum.
Það fer því tvennum sögum af heiti brekkunnar og er þetta örnefni sem hefur líklega breyst í gegnum tíðina.
Mynd 28
Hverasvæðið
(Gestný Rós, 2021)
Hverasvæðið í Hveragerði er staðsett miðsvæðis í bænum og er ein af merkilegustu náttúruperlum Suðurlands.
Hverasvæðið liggur þvert á gosbelti (sem liggur frá Reykjanesi um Þingvelli og norður Langjökul) (Hveragerðisbær, 2020b).
Nafnið Hveragerði var upphaflega nafnið á hverasvæðinu í landi Vorsabæjar í Ölfusi, sem er staðsett í miðjum bænum, sunnan og vestan Sandhóls (Björn Pálsson, 1996, bls. 10).
Mynd 26
Drullusund
(Gestný Rós, 2021)
Drullusund er göngustígur sem hefur verið í notkun frá því að byggð myndaðist í Hveragerði. Þessi göngustígur liggur þvert yfir hverasvæðið og dregur nafn sitt af því drullusvaði sem stígurinn breyttist í, ef að blautt var úti.
Í dag er göngustígurinn hellulagður en nafnið hefur fest sig í sessi. Drullusund liggur milli Hveramerkur og Bláskóga (Björn Pálsson, 1996, bls. 38-39).
Mynd 25
Brauðhola
(Gestný Rós, 2021)
Brauð var bakað við hverahitann frá gamalli tíð og er enn gert, örnefnið Brauðflöt á bakka Varmár í Fagrahvammi vitnar um þessa nýtingu.
Á hverasvæðinu voru Brauðholur þar sem fólk bakaði rúgbrauð, oftast í stórum blikk dunkum. Brauðin voru þá sett í holurnar, mokað yfir og svo tekin upp að bakstri loknum (Björn Pálsson, 1996, bls. 35).
Mynd 8
Bókasafnið
(Bóksafn Hveragerðisbæjar, 2019)
Bókasafnið í Hveragerði er staðsett í verslunarkjarna bæjarins í Sunnumörk 2 og er í 800 m frá Grunnskólanum í Hveragerði. Bókasafnið tekur á móti skólahópum.
Mynd 9
Byggðarmerki Hveragerðisbæjar
(Helgi Grétar Kristinsson, 1982)
Byggðarmerki Hveragerðisbæjar var tekið í notkun 1983. Það er eftir Helga Grétar Kristinsson málarameistara og er blár skjöldur með þremur litum.
Bólstur í merkinu táknar gufuna frá hverunum en getur einnig táknað lauf eða smára fyrir þá garðyrkju.
Blái fuglinn sem táknar hverafuglinn sem getið er í gömlum ritum og talinn er hafa stungið sér í bullandi hverina á þeim stað sem nú er Hveragerði.
Blái liturinn í bakgrunni er tákn himinsins (samþykkt um byggðarmerki Hveragerðisbæjar nr. 1/2018).
Mynd 10
Hamarshöllin
(Valdimar Thorlacius, júlí 2012)
Hamarshöllin er fjölnota íþróttahöll sem stendur á Vorsabæjarvöllum ofan við Hveragerði og hýsir bæði gervigrasvöll og fjölnota íþróttagólf í fullri stærð.
Stærð íþróttahallarinnar er um 5.000 m² og í henni er gervigrasvöllur og íþróttagólf í fullri stærð. Höllin er upphituð og er úr tvöföldum dúk sem helst uppi með innri loftþrýstingi og loftþrýstngi á milli ytra og innra lags í útveggjum og þaki (MBL, 2012). Í höllinni fer fram íþróttastarf Hvergerðinga.
Mynd 11
Skálinn í Hveragarðinum
(Gestný Rós, 2021)
Í Hveragarðinum er hægt að sjóða egg og fá hverabakað rúgbrauð. Einnig er hægt að fræðast um tengsl jarðhita við örverufræði, jarðfræði, sprungur og eldvirkni. Þar er gróðurhús með bananatré. Þar er einnig hægt að sjá muni sem hafa komið upp úr hverinum Ruslahver. Hverasvæðið í Hveragerði er staðsett miðsvæðis í bænum og ein merkilegasta náttúruperla Suðurlands. Hverasvæðið liggur þvert á gosbelti sem liggur frá Reykjanesi um Þingvelli og norður Langjökul (Hveragerðisbær, 2020b). Skólahópar eru velkomnir að skoða svæðið og greiða ekki fyrir þjónustuna.
Mynd 12
Hveragerðiskirkja
(Gestný Rós, 2021)
Hveragerðiskirkja er staðsett á Sandhól, 300 metrum frá Grunnskólanum í Hveragerði.
Bygging kirkjunnar hófst í júlí 1967. Kirkjan er teiknuð af Jörundi Pálssyni arkitekt og var vígð árið 1972 af séra Sigurði Pálssyni vígslubiskupi (Þorkell Þorkelsson, e.d.).
Mynd 13
Breiðamörk 23-Kvennaskólinn
(Gestný Rós, 2021)
Kvennaskólinn á Hverabökkum var starfræktur í þessu húsi sem stendur við Breiðamörk 23, frá 1936 til 1955 og var fyrsti húsmæðraskólinn í Árnessýslu.
Árný Filippusdóttir byggði Hverabakka sem var hefðbundinn húsmæðraskóli sem hafði það að markmiði að búa ungar konur undir að reka heimili. Hverabakkaskólinn var einkaskóli og var rekstur hans erfiður. Árný rak skólann til vorsins 1955 en bjó í húsinu áfram og seldi það svo árið 1966 (Björn Pálsson, 1996, bls. 31). Húsið er í dag íbúðarhús.
Mynd 14
Listasafn Árnesinga
(Gestný Rós, 2021)
Listasafn Árnesingar er staðsett við Austurmörk 21, 400 metrum frá Grunnskólanum. Safnið býður upp á metnaðarfullar sýningar þar sem sýningarstefnan er oftast með skírskotun í umhverfið á Suðurlandi. Safnið tekur á móti skólahópum og heldur úti markvissu fræðslustarfi. Meginmarkmið Listasafns Árnesinga er að auka áhuga, þekkingu og skilning á myndlist (Listasafn Árnesinga, e.d.).
Mynd 15
Lundur
(Gestný Rós, 2021)
Útiskólastofan Lundur á vegum Grunnskólans í Hveragerði og Skógræktarfélagsins. Lundur er staðsett 900 m frá skólanum undir Hamrinum og er mikið notuð í útikennslu og útivist.
Mynd 16
Lystigarðurinn Fossflöt að vetri til
(Gestný Rós, 2021)
Lystigarðurinn Fossflöt er 50 m frá Grunnskólanum í Hveragerði. Árið 1983 hófst ræktun garðsins og í dag er þar fallegur gróður, leiksvæði, útisvið, bekkir og borð sem allir geta nýtt sér (Hveragerðisbær, 2020a).
Svæðið er mikið nýtt í útivistatímum í Grunnskóla Hveragerðis ásamt því að þar hafa verið haldnir menningarviðburðir, tónleikar, útileikhús, íþróttaæfingar og margt fleira.
Mynd 17
Mjólkurbúið
(Gestný Rós, 2021)
Þann 1. apríl 1930 tók Mjólkurbú Ölfusinga á móti fyrstu mjólkinni til vinnslu en starfaði einungis til 1938 (Björn Pálsson, 1996, bls. 21). Í dag eru þrjár skólastofur í neðri hæð hússins og íbúð á efri hæðinni. Húsið stendur vestast á skólalóðinni.
Mynd 18
Leifar af ullarverksmiðjunni
(Gestný Rós, 2021)
Það var ekki jarðhitinn sem laðaði fólk að staðnum til að byrja með heldur var það fossinn við Varmá, sem kallast Reykjafoss. Rétt eftir aldarmótin 1900 ákváðu fjórir menn að koma upp ullarvinnu á svæðinu og völdu að staðsetja þá vinnu við Reykjafoss í Varmá og nýta afl fossins til þess að snúa vélunum. Húsið var byggt 1902 og verksmiðjan tók að starfa 1903.
Helmingur Varmár var virkjaður, notað var vatnshjól og orkan flutt til vélanna með ásum og reimum. Við húsvegginn var lítill hver og hann var notaður til að hita húsið. Verksmiðjan var endurbætt árið 1906 og raflýst fyrst allra austanfjalls. Árið 1907 var götulýsing sett á eftir að ferðamaður féll í hver og lést af brunasárum sínum. Verksmiðjan starfaði til 1913 og það ár bjuggu 10 manns í húsinu. Ári síðar bjó þar enginn og húsið stóð autt þar til 1915 en þá var húsið rifið (Þórður Ögmundur Jóhannsson, 1984, bls. 301-302). Við bakka Varmár, neðan við Lystigarðinn sést grunnur hússins sem þarna stóð og er fallegt svæði til að heimsækja með nemendum.
Mynd 19
Rústir rafstöðvarinnar við bakka Varmár
(Gestný Rós, 2021
Vorið 1929 var byggð rafstöð í Varmárgilinu. Bjarni Runólfsson frá Hólmi í Landbroti annaðist uppsetningu rafstöðvarinnar sem var um 11 kw að stærð. Rafstöðin var strax í upphafi of lítil og var því stækkuð árið 1930 í 22 kw og stífla var gerð ofar í árgilinu.
Mynd 20
Sundlaugin Laugaskarði
Sundlaugin Laugaskarði er staðsett tæplega 250 m frá Grunnskólanum í Hveragerði. Laugin var í upphafi 25x12 metrar og var tekinn í notkun vorið 1938.
Árið 1939 var hún 33,33.. metrar en veturinn 1939-1940 var hún grafin í 50 metra (Björn Pálsson, 1996, bls. 31-32). Í dag fer skólasund fram í sundlauginni og ganga nemendur Grunnskólans í Hveragerði þangað, enda stutt að fara.
Mynd 21
Varmahlíð
(Gestný Rós, 2021)
Varmahlíð er elsta hús í Hveragerði byggt árið 1929 fyrir Guðmund Gottskálksson frá Hvoli í Ölfusi. Í upphafi var húsið rúmlega 30 fermetrar en er í dag 50 fermetrar. Hveragerðisbær hefur átt húsið frá árinu 1961 og frá 1995 hefur húsið gengt hlutverki að vera gestaíbúð fyrir listamenn (Hveragerðisbær, 2021).
Mynd 22
Vigdísarlundur
(Gestný Rós, 2021)
Þann 29. júní 1980 var frú Vigdís Finnbogadóttir fyrst kvenna í heiminum til þess að vera þjóðkjörin forseti.
Í júní 2015 voru 35 ára liðin frá þeim merka viðburði. Af því tilefni gróðursetti hún þrjú tré af stofni Emblubirkis í þessum lundi.
Eitt tré er fyrir stúlkur, annað fyrir drengi og það þriðja fyrir komandi kynslóðir (MHH, 2015).
Listaverkið ,,Þetta líður hjá'' er verk reist af Hveragerðisbæ í tilefni af 70 ára afmæli bæjarfélagsins. Hugmyndina kynnti Elísabet Jökulsdóttir fyrir bæjaryfirvöldum á afmælisárinu 2016 eftir kynni hennar af Varmá og unglingunum í bænum.
Verkið er tileinkað unglingunum en það er steinn sem hefur verið mótaður sem sæti. Verkið er eins konar núvitundarverk því en það er hugsað svo að þegar setið er í stólnum/listaverkinu erum við minnt á að líkt og áin líður hjá þá munu vandamál og verkefni lífsins sem oft virðast óyfirstíganleg einnig líða hjá (Hveragerðisbær, 2021b).
Mynd 24
Þinghúsið
(Gestný Rós, 2021)
Þinghúsið var byggt árið 1930. Í anddyri þess var rekinn farskóli til ársins 1937, auk þess var þar hótel og skyrgerð (Björn Pálsson, 1996, bls. 30).