Í Hveragerði má segja að það sé stutt í allt eins og gengur og gerist í minni bæjarfélögum. Það er mikil kostabót þegar alla þjónustu er hægt að nálgast fótgangandi. Góðir göngustígar og gönguleiðir eru um allan bæ og við teljum að þeir flestir henti fötluðum jafnt sem ófötluðum. Þeir liggja bæði meðfram öllum götum bæjarins og einnig á svæðum þar sem ekki er bílaumferð. Auðvelt er að komast leiðar sinnar með barnavagn og á hjóli þegar færðin er góð en einnig má nefna að hér í bæ er snjómokstur göngustíga til fyrirmyndar. Það eru þó engir sérstakir hjólreiðastígar og því deila gangandi vegfarendur göngustígunum með hjólreiðafólki, úr þessu mætti bæta vegna þess að börn eiga það til að hjóla á umferðargötum bæjarins líklega vegna skorts á plássi á göngugötum víðsvegar.
Þegar við metum vegalengdir út frá skólahverfi Grunnskólans í Hveragerði þurfum við að taka tillit til ólíkra aldurshópa. Grunnskólinn er staðsettur sunnalega í bænum, 300 metrum frá Laugaskarði sem er sundlaug bæjarins. Gamla íþróttahúsið er á skólalóðinni og fara allar skólaíþróttir fram í því húsi en Hamarshöllin er varla í göngufæri fyrir yngstu nemendur skólans. Hamarshöllin er staðsett á Vorsabæjarvöllum norðan við Hamarinn, 1,5 km. frá skólanum. Það er lítið mál að fara þangað akandi enda gengur rúta þangað fyrir börn sem iðka íþróttaæfingar sínar þar. Einnig er göngustígur þangað sem hægt er að hjóla eða ganga eftir, sem er að mestu upp á við og gæti þótt heldur langt að fara þegar færðin er slæm eða veðrið vont. Eins og áður kom fram gengur rúta frá Skólaselinu á æfingar en það á ekki alltaf við og ákjósanlegast væri að geta farið fótgangandi á íþróttaæfingar. Að öðru leyti er stutt í alla þjónustu fyrir gangandi vegfarendur á öllum aldri.
Við Grunnskólann í Hveragerði er flott leiksvæði, gervigrasvöllur, hjólahreystibraut, aparóla auk annarra hefðbundinna útileiktækja. Nokkra leikvelli er að finna um Hveragerðisbæ, en gott mætti gera enn betur. Leiksvæðin eru bæði afgirt og opin. Leikvöllur við gamla leikskólahúsið Undraland sem í dag hýsir skólasel og félagsmiðstöð og heitir Bungubrekka. Einnig eru glæsilegir leikvellir við leikskóla bæjarins sem eru tveir. Aðrir leikvellir bæjarins eru staðsettir við Borgarhraun 19 vestast í bænum og afgirt leiksvæði er við Arnarheiði 17 sem hefur þó lengi þarfnast yfirhalningar. Þá er ærslabelgur á útivistarsvæðinu undir Hamrinum en hann hefur því miður verið eyðilagður og ekki verið aðgengilegur. Það er þó greið gönguleið til Ölfusborga, sem er sumarbústaðarhverfi austan megin við Hveragerði og þar er bæði ærslabelgur og leikvöllur. Ölfusborgir eru í 1,5 km. göngufæri frá Grunnskólanum í Hveragerði. Það má því segja að vöntun sé á leikvöllum sem eru opnir almenningi öllum stundum í Hveragerðisbæ.
Lystigarðurinn Fossflöt er norðan megin við Grunnskólann í Hveragerði og eru margar fallegar gönguleiðir umhverfis hann. Þar má nefna gönguleiðir í Lystigarðinum Fossflöt, meðfram Varmá og um jarðhitasvæði bæjarins, heilsustígurinn í fjallshlíð Reykjafalls, gönguleið sem er meðfram skógræktinni í Hamrinum og Reykjadalurinn. Í Hveragerðisbæ er einnig lítil verslunarmiðstöð í Sunnumörk 2, 800 m. frá Grunnskólanum í Hveragerði. Þar má finna almenningsbókasafn Hveragerðis, matvöruverslunina Bónus, bakarí, ísbúð, apótek, Upplýsingamiðstöð Suðurlands, pósthús, matsölustað og fleiri verslanir. Heilbrigðisstofnun Suðurlands er í tæplega 250 metra fjarlægð frá skólanum.
Mynd 3
Grunnskólinn í Hveragerði.
(Gestný Rós, 2021)
Mynd 4
Barnaskólinn í Hveragerði 1947
(Þórður Ögmundur Jóhannsson, 1984)
Mynd 5
Grunnskólinn í Hveragerði og skólalóð
(sunnlenska, e.d.)
Mynd 6
Kort af skólaumhverfinu
(Gestný Rós, 2021)