Um bækurnar

Þegar ljóðæðin opnaðist

Veturinn 2018-19 datt ég á bólakaf í ljóðapyttinn og var svamlandi í honum hvað mest í desember og fram í mars. Smám saman urðu til tvö handrit og sömuleiðis eitt með afgöngum og hugmyndum. Ég var svo heppinn að Helgi Jónsson hjá bókaútgáfunni Tindi vildi gefa út handritið Upprisu og kom hún út í maí 2019. Við hjónin höfðum sömuleiðis verið hugfangin af fegurð landsins og tekið ljósmyndir í gríð og erg þannig að ég átti nokkuð auðvelt með að útvega kápumynd og þess vegna aðrar myndskreytingar.

Georg Óskar sonur Rannveigar, kunnur og vaxandi listmálari, var líka í sigtinu hjá mér en hann var í miklum önnum. Eiginkona hans, Yafei Qi, vídeólistakona og ansi góður málari líka, var svo elskuleg að leggja til teikningar á milli kafla í Upprisu.

Eftir að bókaútgáfan Tindur lagðist af eða öllu heldur gekk inn í bókaútgáfuna Sögur var ég í vandræðum með útgefanda en gaf þá út næstu ljóðabók sjálfur. Mar kom út í apríl 2020. Lagði ég til ljósmyndir líka og drög að kápuhönnun en Ásprent annaðist umbrot og prentun. Ég vildi halda útgáfunni í heimabyggð þótt tiltölulega auðvelt sé að fá mun ódýrari prentun erlendis.

Þriðja handritið var tilbúið 2020 og sent í ljóðasamkeppni Tómasar Guðmundssonar en fékk ekki brautargengi og eitthvað fór ég að plokka úr því þegar ég ákvað að setja saman skáldsöguna Þrítugur 1/3 sem ég gaf út í febrúar 2021 og var bókin prentuð í Háskólaprenti. Bókin er prýdd ljósmyndum mínum en Ásdís frænka mín Ívarsdóttir braut um. Þetta er óvenjulegur samtíningur; skáldsaga, skáldævisaga, pistlar, ærslasaga, spennusaga, háðsádeila og... ljóð. Já, ég læði ljóðum á milli kafla og í lokin kemur fram að það er persónan Silla Svan sem yrkir þessi ljóð og er að gefa út ljóðabók.

Til að endurtaka ekki leikinn er hugsanlegt að ljóðum, sem ég var búinn að setja í drög að öðru bindi, verði sleppt. Auk þess var ég búinn að yrkja nokkur ný ljóð og núna eftir að Þrítugur 1/3 fór í dreifingu og ég að vinna að framhaldinu ákvað ég að skella ljóðunum okkar Sillu Svan í vefútgáfu og hljóðskrá - hvort tveggja frítt og niðurhal frjálst. Ljóðin okkar Sillu telst því útgefin þegar síða þessi fer í loftið í lok apríl 2021. Fyrsti og stærsti hlutinn er úr ljóðasafni Sillu; samt ekki alveg ljóst hvort sum eigi heima þar heldur frekar í öðrum hluta sem geymir nýjustu ljóðin mín. Munurinn á okkur Sillu er ekki alltaf áþreifanlegur og ljóðmælandinn hjá mér getur hæglega verið kona; rétt eins og hann er stundum barn, öldungur, þolandi, gerandi o.s.frv.

Þriðji hlutinn er svo persónulegur. Nokkur ljóð sem ég hafði samið til móður minnar heitinnar á tyllidögum og eitt minningarljóð um mömmu, sem ég treysti mér loks til að yrkja ári eftir að hún féll frá allt of ung og lífsþyrst eftir harða atlögu krabbameins. Blessuð sé minning hennar. Hún hafði alltaf gaman að tækifæriskvæðum mínum sem ég hef fengist við frá unga aldri og var mér stuðningur og fyrirmynd í íslensku máli og sömuleiðis amma mín, ömmusystur, faðir minn og fleiri í fjölskyldunni.

Ljóðæðin sem opnaðist hefur kannski lokast í bili en ég er að vinna í því að ljúka framhaldsbindum skáldsögunnar og einnig hef ég verið að skrifa smásögur. Hvað kemur út er ekki gott að segja en ég býð ykkur hér með Ljóðin okkar Sillu í fyrstu útgáfu á vef og sem hljóðbók og einnig útgefnar ljóðabækur mínar Upprisu og Mar í vefútgáfu og upplestri. - Í október 2022 bættist Dauði ljóðsins við, ljóðabók í tveimur hlutum þar sem annars vegar eru nokkur ljóð með lífsmarki en hins vegar ljóðabálkur í frjálsu og bundnu formi um háskann sem steðjar að ljóðinu, máli okkar og menningu.