Starfsáætlun 2025-2026
Ég gleðst yfir góðum degi - geng og virðingu sýni - metnaður af mér skíni - menntun hér vil ég mikla
Starfsáætlun 2025-2026
Í aðalnámskrá grunnskóla, kafla 12, segir orðrétt:
„Í árlegri starfsáætlun er gerð grein fyrir starfstíma skólans og mikilvægum dagsetningum. Í starfsáætlun kemur fram hvernig þeim 180 skóladögum, sem skóli hefur til ráðstöfunar, er varið. Í áætluninni er skóladagatal birt en þar sést hvenær kennsla hefst að hausti og hvenær henni lýkur að vori.
Í starfsáætlun skal m.a. birta upplýsingar um:
stjórnskipulag skólans, þ.m.t. skipurit,
starfsfólk skólans,
skóladagatal, þ.m.t. lengd jólaleyfis, páskaleyfis og annarra vetrarleyfa. Í skóladagatali skulu þeir 10 dagar, sem heimilt er að skerða viðveru nemenda auðkenndir, sérstaklega með skýringum,
tilhögun kennslu, s.s. kennsluáætlanir,
viðfangsefni innramats,
starfsáætlun nemenda, þ.m.t. upplýsingar um stundaskrá nemenda, foreldraviðtöl, helstu viðburðir skólaársins og vettvangsferðir,
val nemenda í 8.–10.bekk,
skólaráð, foreldrafélag og nemendafélag og starfsáætlanir þeirra,
skólareglur,
upplýsingar um stoðþjónustu, þ.m.t. skólaheilsugæslu og sérfræðiþjónustu,
upplýsingar um tómstundastarf og félagslíf,
símenntunaráætlun,
rýmingaráætlun,
viðbrögð við vá, s.s. veikindafaraldri, óveðri, eldgosi, jarðskjálftum,
annað sem varðar starfsemi skólans ár hvert, m.a. hagnýtar upplýsingar um opnunartíma skólans, viðveru sérfræðinga, mötuneyti, forföll og leyfi.“
Egilsstaðaskóli er heildstæður grunnskóli sem fyrst og fremst þjónar nemendum sem búa á Egilsstöðum og í dreifbýlinu sem áður tilheyrði Eiða- og Hjaltastaðaþinghá og Vallahreppi. Skólaárið 2025 - 2026 eru um 430 nemendur í skólanum og um 100 starfsmenn. Aukinn nemendafjöldi og einsetning skóla kallaði á aðgerðir í húsnæðismálum og haustið 2010 var langþráðum áfanga náð, þegar rúmgóð nýbygging var tekin í notkun að fullu og um leið var lokið umfangsmiklum endurbótum á eldra húsnæði skólans.
Allir nemendur hefja skóla á sama tíma eða kl. 8:50 árdegis, en hluti nemenda kemur með skólabílum úr dreifbýlinu.
Gildi skólans eru gleði, virðing og metnaður. Gleði hefur mikil áhrif á líðan okkar, það er mikilvægt að hafa gaman af því sem við erum að gera. Þegar við erum glöð höfum við góð áhrif á aðra og okkur líður vel í návist annarra. Með virðingunni er átt við að allir eigi rétt á að láta sér líða vel í skólanum, fái að njóta sín sem einstaklingar og takist á við verkefni við hæfi. Jafnframt eru hverjum og einum lagðar þær skyldur á herðar að koma fram af virðingu við samnemendur, starfsfólk skóla og aðra þá sem þeir umgangast. Metnaður er að gera ávallt sitt besta og vera stoltur af verkum sínum. Hver einstaklingur býr yfir auði í formi sköpunarkrafts, getu og reynslu. Metnaður felst í því að virkja þennan auð til góðra verka.
Þau starfsþróunarverkefni sem skólinn vinnur að í vetur eru:
Uppeldi til ábyrgðar
Leiðsagnarnám
Heillasporin
Skólastjóri er Viðar Jónsson og aðstoðarskólastjóri er Dagbjört Kristinsdóttir.
Skólastjórar Egilsstaðaskóla:
1956-1967 Þórður Benediktsson
1967-1972 Sigurjón Fjeldsted
1972-1986 Ólafur Guðmundsson
1986-1989 Helgi Halldórsson
1989-1990 Sigurlaug Jónasdóttir
1991-1994 Helgi Halldórsson
1994-1998 Sigurlaug Jónasdóttir
1998-2001 Helgi Halldórsson
2001-2005 Börkur Vígþórsson
2005-2006 Sigurlaug Jónasdóttir
2006-2007 Róbert Gunnarsson
2007-2016 Sigurlaug Jónasdóttir
2016-2022 Ruth Magnúsdóttir
2022-2024 Kristín Guðlaug Magnúsdóttir
2024- Viðar Jónsson