Í þessu starfsþróunarverkefni prófaði ég fimm mismunandi forrit sem öll eiga það sameiginlegt að byggja á gervigreind. Ég fór þessa vegferð því ég hef mikinn áhuga á notkkun gervigreindar í kennslu og vildi kanna hvaða möguleikar standa kennurum til boða í því samhengi. Hér verður gert grein fyrir þeim lærdómi sem ég dreg af verkefninu.
Ég kenni stærðfræði, náttúrufræði og samfélagsgreinar og skoðaði notkun á hugbúnaði í öllum þeim greinum. Hver hugbúnaður var notaður mismikið og ekki allt sem ég gerði sem rataði beint í kennsluna.
Það var margt og mikið sem ég lærði í öllu þessu ferli. Fyrst og fremst hef ég fundið fyrir auknu sjálfsöryggi í að leggja faglegt mat á verkefni og kennsluáætlanir. Ég hef öðlast dýrmæta reynslu við að undirbúa kennslu í auknum mæli og fengið betri mynd á það hvað þarf að hafa í huga við slíkan undirbúning. Með því að vera í stanslausu spjalli við gervigreind um ýmsar útfærslur á verkefnum eða áætlunum er ég búinn að sjá fjölbreyttar útfærslur og bæti þeim við í minn hugmyndabanka er kemur að því að skipuleggja framtíðarkennslu.
Ef litið er beint á gervigreindarhugbúnaðinn lærði ég að nýta mér fjölbreytta tækni við undirbúning á kennslu. Ég fékk betri innsýn í þau verkfæri sem standa kennurum til boða og tækifæri til að prófa mig áfram með þau verkfæri. Það kom á daginn að mörg forrita sem bjóða upp á gervigreindarlausnir eru í raun byggðar á sama grunni en í mismunandi útfærslum. Hvert forrit bjó yfir ákveðnu sérsviði og sé ég fram á að til þess að nýta gervigreind í skólastarfi þurfi að blanda saman notkun á ýmsum hugbúnaði. Enginn einn hugbúnaður sem prófaður var hér hefur allt sem þarf. Það vakti mig þá sérstaklega til umhugsunar þegar ég var að grúska í hinum ýmsa hugbúnaði að margt sem hægt er að gera þar væri einfaldlega hægt að gera með ChatGPT. Það sem skoðað var hér hafði það þó fram yfir ChatGPT að notendaviðmótið var einfaldara og ef til vill þægilegra fyrir byrjendur. Ég finn það þó hjá mér að ChatGPT verði áfram í forgrunni er kemur að undirbúningi á kennslu, enda kann ég vel við mig í því umhverfi.
Það kom á óvart þegar ég ræddi við samkennara mína í skólanum um gervigreind hversu fáir eru í raun að nýta sér hana að einhverju marki. Einhverjir kennarar eru þó vel að sér í faginu. Ég fékk þá tækifæri til að sýna þeim kennurum sem ekki þekktu til gervigreindar við undirbúning kennslu og voru viðbrögð þeirra við getu gervigreindar jákvæð. Nokkrum vikum síðar ræddi ég við sömu kennara en þeir höfðu þá enn ekki nýtt sér gervigreind þrátt fyrir að þekkja gagnsemi hennar. Ef til vill stafar það af vanþekkingu á hugbúnaði.
Heilt yfir fannst mér vinna í þessu starfsþróunarverkefni gefandi og góð varða í áttina að því að verða enn betri kennari. Ég finn að það þarf markvisst að vera vinna að einhverri starfsþróun til að halda sér við í starfi og fylgja nýjustu straumum. Þá reyndist það krefjandi en jafnframt skemmtilegt og lærdómsríkt að setja upp efni er varðar starfsþróunina á skipulagðan hátt á vefsíðu.