Um verkefnið
Í þessu starfsþróunarverkefni ákvað ég að prófa mismunandi hugbúnað sem á það sameiginlegt að byggja á gervigreind. Markmiðið var að skoða þann hugbúnað sem getur reynst kennurum gagnlegur við skipulag á kennslu, fremur en til nemendanotkunar. Til að byrja með skoðaði ég fjöldan allan af forritum sem byggja á gervigreind og valdi þá þau fimm forrit sem mér þótti áhugaverðust. Jafnt og þétt yfir önnina nýtti ég mér þá hvern hugbúnað að einhverju leyti til aðstoðar við undirbúning á kennslu. Ég tók þá saman kosti og galla við hvern hugbúnað ásamt því að nefna hugmyndir um notkun og að lokum sýni ég dæmi um það hvernig ég notaði hann. Listi yfir forritin sem prófuð voru er hér að neðan ásamt stuttri kynningu á virkni þeirra. Það er hlekkur inn á heimsíðu forritana í nafni hvers forrits hér að neðan. Ítarlegri umfjöllun um forritin er þá að finna á undirsíðum undir flipanum gervigreindarforrit.
Af hverju?
Gervigreind hefur verið að ryðja sér til rúms í nútímasamfélagi og er kennsla ekki undanskilin því. Kennarar eiga sífellt að vera leita leiða til þess að þróa sig í starfi. Það að skoða hvernig megi nýta gervigreind við skipulag kennslu er því kjörið viðfangsefni er kemur að starfsþróun. Flestir kennarar þekkja það að hafa lítinn tíma til skipulags á kennslu og er leiðingjarnt að vinna við þannig aðstæður. Ég hef unnið með gervigreind í mínu skipulagi á kennslu um nokkurt skeið og hef sérstaklega fundið fyrir því hversu fljótgert það getur verið að skipuleggja heilu námsloturnar með aðstoð gervigreindar. Sömuleiðis getur reynst fljótgert að aðlaga námsefni eftir þörfum hvers nemenda með hjálp gervigreindar. Það er þess vegna sem ég vil víkka sjóndeildarhringinn og kanna betur þann hugbúnað sem stendur okkur kennurum til boða er kemur að því að hjálpa okkur í starfi. Gervigreindin er ekki hugsuð hér sem staðgengill kennara í skipulagi náms, heldur er um að ræða tryggan aðstoðarmann sem vinnur út frá þeim upplýsingum sem kennari gefur. Til þess að fá sem bestu niðurstöður þarf kennarinn að sjálfsögðu að horfa á allt sem gervigreindin gerir með gagnrýnum augum og aðlaga eftir þörfum. Ekki er víst að allur hugbúnaður reynist vel en það er mikilvægt að hafa tekið skrefið og kannað það hvernig megi nota gervigreind og þá hvort það sé eitthvað sem henti hverjum fyrir sig.
Gervigreind í kennslu
Gervigreind er hugtak sem flestir ættu að kannast við eftir mikið umtal undanfarið. Gervigreind er í raun það kerfi eða tölva sem líkir eftir mannlegri hugsun (Bowen, J.A. og Watson, C.E., 2024). Gervigreind getur ekki einungis gert starf kennarans þægilegra heldur styður einnig við nám nemenda. Fyrst og fremst er gervigreind gagnleg kennurum á þann hátt að spara tíma með því að nýta gervigreind sem aðstoðarmann en ekki síður til þess að aðlaga nám eftir þörfum einstaklingsins. Gervigreindin kemur þó ekki skilyrðalaus. Notkun gervigreindar getur vakið upp spurningar um persónuvernd, gagnasöfnun og hreinlega misnotkun. Þá sé mikilvægt að missa ekki stjórn á notkun gervigreindar og vanmeta aldrei mannlega þátt kennarans. Kennarar eiga þess kost að nota gervigreind sem verkfæri en eiga ekki að nota hana sem staðgengil sinn. (U.S. Department of Education, Office of Educational Technology., e.d.).
Notkun á gervigreind gefur kennara þann tíma til umráða að einbeita sér fremur að námsferli nemenda frekar en einstaka endurgjöf á minni verkefni eða skipulagningu á kennslustundum. Tími sem best er varið í að mennta nemendur. Með aðstoð gervigreindar er kennari að nýta þau verkfæri sem honum stendur til boða með hag nemenda í forgrunni. Kennari nýtist vel þá í virkri leiðsögn og má því með sanni segja að gervigreind stuðli að leiðsagnarnámi (Göçen, Ahmet og Aydemir, Fatih., 2020).
Brisk er viðbót í Chrome vafra sem tengist beint við Google umhverfið. Brisk getur nýst við það að búa til glærur eða skjöl. Sömuleiðis er hægt að nýta Brisk í að fara yfir verkefni nemenda og þá beint í gegn um Google classroom umhverfið. Þá er hægt að nýta viðbótina til að aðlaga námsefni að vissu getustigi. Viðbótin talar ekki íslensku en hægt er að fá afurðina á íslensku ef beðið er sérstaklega um það í fyrirmælum. Líkt og í mörgum slíkum forritum þarf þó að lesa textann vel yfir með gagnrýnum augum og breyta eftir þörfum.
Diffit býður upp á að útbúa námsefni úr nær hverju sem er. Hægt er að setja inn skipun um hvernig námsefnið á að vera. Einnig er hægt að velja ákveðna bók til að vinna með að því gefnu að hún sé í gagnagrunni hugbúnaðarins. Þá má hlaða upp skjölum, myndböndum eða tímaritsgreinum svo eitthvað sé nefnt. Diffit útbýr þá hnitmiðað námsefni með spurningum, lykilhugtökum og fjölbreyttum möguleikum til áframhaldandi vinnu með nemendum. Diffit vinnur vel með Google umhverfinu.
Eduaide er forrit sem býður upp á að útbúa fjölbreytt námsefni. Hægt er að hlaða upp skjölum, slóð að vefsíðu eða slá inn skipun til þess að útbúa efni. Viðmótið býður upp á ótal valmöguleika. Til dæmis má búa til námsleiki, námsmat, verkefni og kennsluáætlanir. Það sem Eduaide hefur fram yfir annan hugbúnað er hversu fjölbreytt efnið er sem hægt er að fá. Slíkt getur hjálpað kennara í að finna frumlegar og skemmtilegar leiðir í námi nemenda. Forritið er einungis aðgengilegt á ensku.
Kahoot er spurningaleikur sem flestum ætti að vera kunnugur. Nýlega bættist gervigreindin við í það góða forrit og býður upp á góða möguleika. Hægt er að útbúa spurningar með því að slá inn viðfangsefni eða með því að hlaða inn skjölum. Það síðarnefnda gefur betri raun ef unnið er með íslensku þar sem búið er að undirbúa spurningar í skjali. Kosturinn er sá að mikill tími sparast við að sleppa við að stimpla allar spurningar inn í Kahoot.
Viskubrunnur er íslensk hugsmíð og þjónar þeim tilgangi að vera kennara innan handar í daglegu amstri kennslunnar. Viskubrunnur virkar nokkuð svipað og ChatGPT nema að Viskubrunni er skipt upp í mörg verkfæri með afmarkaða sérþekkingu. Hægt er að finna sértæk spjallmenni sem geta til að mynda aðstoðað við námsmat, tölvupóstagerð og agamál. Þá er tól sem kallast matsvefjan þar sem auðvelt er að haka í ákveðin hæfniviðmið úr aðalnámskrá grunnskóla og þannig útbúa samþætt verkefni út frá völdum viðmiðum. Viskubrunnur býður þá upp á að búa til myndir, greina ritunartexta og margt fleira. Þó svo að Viskubrunnur sé alfarið á íslensku skal ávallt hafa augun opin fyrir mögulegum málfars- eða stafsetningavillum. Þó svo að verkefni og hugmyndir sem framleiddar eru í Viskubrunni séu ekki endilega þess búin að fara beint í framkvæmd má hafa þau til hliðsjónar við gerð ýmissa verkefna.
Nánar um notkun á Viskubrunni.