3.apríl fór 6. bekkur í heimsókn í Dansgarðinn, sem er undir Klassíska listdansskólanum. Á heimasíðunni hjá þeim segir að hlutverk Dansgarðsins sé t.d. að bjóða upp á faglega og fjölbreytta danskennslu í klassískum ballet, nútíma- og samtíma dansi og skapandi dansi. Einnig að vinna með öðrum stofnunum til að svara betur samfélagsþörfum á sviði dans- og sviðslistar.
Bekkurinn skellti sér í stuttan göngutúr niður á Grensásveg þar sem Klassíski listdansskólinn er til húsa og þar tóku tveir danskennarar á móti bekknum. Tímanum var skipt upp í tvær lotur, fyrri lotan var sett upp í dansleikjum. Krakkarnir fengu leiðbeiningar um hvað ætti að gera og hermdu svo eftir því. Það gekk mjög vel og allir virtust skemmta sér vel. Svo fengu allir verðskuldaða nestispásu fyrir átök seinni lotunnar, danssmíði. Þar voru nemendur fræddir um mismunandi form og áferðir og áttu að dansa eftir því sem kennararnir nefndu. Sem dæmi áttu allir að túlka orð með dansi eins og létt, hart, hratt, mjúkt, elding, alda og rigning. Það fannst krökkunum ótrúlega gaman. Svo var komið að lokasýningunni. Þá var bekknum skipt í fjóra hópa og átti hver hópur að búa til dans út frá minnst fjórum af orðunum sem þau höfðu farið yfir. Þetta gekk ótrúlega vel! Hver dans var svo ígrundaður áður en bekkurinn fékk að dansa frjálst við nokkur óskalög.
Þetta var virkilega skemmtileg heimsókn í Dansgarðinn.