Oddeyrarskóli

Hagnýtar upplýsingar um val nemenda


Þegar nemandi velur sér valgrein er mikilvægt að hann velti öllum möguleikum vel fyrir sér og ræði hugmyndir sínar við foreldra eða forrráðamenn. Valið á að byggja á áhuga og þörfum hvers og eins en ekki því hvert félagarnir stefna. Hafið í huga að valgreinar eru jafn mikilvægar og aðrar námsgreinar og kröfur um ástundun og árangur jafnmiklar og í öðrum greinum.

Hver nemandi á unglingastigi þarf að skila 37 kennslustundum á viku. Nemendur eru með 31 kennslustund í kjarna og þurfa því að velja sér þrjár valgreinar - hver valgrein er kennd tvær kennslustundir á viku.

Nemandi velur sér valgrein fyrir ½ vetur í senn. Oft er sama valgrein í boði fyrir og eftir áramót og er nemendum þá frjálst að velja sömu valgreinina fyrir og eftir áramót ef þeir kjósa það.

Ekki er víst að hægt verði að verða við öllum óskum nemenda um valgrein. Greinar geta fallið niður vegna lítillar þátttöku eða annarra ófyrirséðra ástæðna. Einnig getur komið fyrir að fleiri sækja í greinar en hægt er að koma að. Því þurfa nemendur að merkja við sex valgreinar á valblaðinu fyrir áramót og sex valgreinar eftir áramót. Þeir merkja nr 1 við þá valgrein sem þeir hafa mestan áhuga fyrir, nr. 2 þá sem þá langar næst mest í o.s.frv.

Samvalsgreinar eru þær valgreinar kallaðar sem eru kenndar sameiginlega fyrir nemendur úr öllum skólum bæjarins víðsvegar um bæinn. Gert er ráð fyrir að nemendur nýti sér strætisvagna til að koma sér á milli staða.

Nemendur eiga þess kost að fá félagsstarf eða nám utan skólans metið sem valgrein. Að hausti þarf að skila inn staðfestingu frá þjálfara/kennara/umsjónaraðila og foreldri/forrráðamanni á þar til gerðu eyðublaði frá skólanum. Nemendur og foreldrar bera ábyrgð á ástundun í metnu vali. Mjög mikilvægt er að skólinn fái að vita af því ef nemandi hættir leggja stund á þær tómstundir sem hann fær metnar sem valgrein. Athugið að starfsemi utan skólans má að hámarki meta sem tvær valgreinar á viku. Foreldrar bera allan kostnað af tómstundastarfi sem óskað er eftir að fá metið með þessum hætti. Fái nemandi fjarnám við framhaldsskóla metið samsvarar tveggja eininga áfangi einni valgrein.

Nemendum og foreldrum/forráðamönnum er velkomið að hafa samband við Fjólu Kristínu deildarstjóra fkh@akmennt.is, sími 460-9550, ef eitthvað er óljóst.

Valinu þarf að skila inn í síðasta lagi mánudaginn 23. maí 2022.


Innanskólaval

Áhugamannafótbolti

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Oddeyrarskóli


Vorönn

Mánudagur


Lýsing: Spilaður verður fótbolti og farið yfir reglur sem gilda. Spilað verður bæði inni í íþróttasal og úti á gervigrasvelli þegar veður leyfir. Nemendur verða að vera meðvitaðir um að þetta valfag krefst þess að þeir taki þátt, mæti vel og hafi gaman af fótbolta. Ekki er gerð krafa á að nemendur hafi æft eða séu að æfa íþróttina.


Námsmat: Símat, mæting og þátttaka.

Borðspil

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Oddeyrarskóli


Vorönn

Fimmtudagur


Markmið og kennsluhættir: Ætlað nemendum sem finnst gaman að spila eða vilja öðlast meiri þekkingu á spilum. Auk spilamennskunnar verður lögð áhersla á félagsleg samskipti, en í gegnum spil gefst gott tækifæri að þjálfa ýmsa félagslega þætti, s.s. samvinnu, samskiptareglur, að tapa, að sigra og gleðjast með öðrum.


Námsmat: Ástundun og virkni í tímum.


Enska kvikmyndir

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Oddeyrarskóli


Haustönn


Lýsing: Horft verður á ýmsar kvikmyndir á ensku og unnin verkefni í kjölfarið. Verkefnin verða fjölbreytt og unnin bæði í hóp og einstaklingslega. Verkefnaskil fara alltaf fram í gegnum Google Classroom.


Námsmat byggir á verkefnaskilum og virkni í kennslustundum.

Félagsmálafræði (félagsmiðstöðvarnar)

Innanskólaval

Fyrir: 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Oddeyrarskóli


Haustönn, Vorönn


Valgrein fyrir þá sem vilja skipuleggja starfið í sinni félagsmiðstöð (setja upp viðburði, auglýsa þá og stjórna þeim). Nemendur fá einnig fjölbreytta fræðslu og taka þátt í umræðum og hópefli/leikjum. Við viljum að nemendur í valinu verði virkir þátttakendur í sinni félagsmiðstöð. Nemendum í Félagsmiðstöðvavali býðst jafnframt að taka þátt á Landsmóti Samfés og Góðgerðavöku Félak.

Fiðringur

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Oddeyrarskóli


Vorönn


Nemendur skipuleggja og semja atriði fyrir hæfileikakeppni grunnskólanna á Akureyri sem ber heitið Fiðringur og er náfrændi Skrekks í Reykjavík og Skjálftans á Suðurlandi. Þetta er hæfileikakeppni þar sem 8. 9. og 10. bekkir fá að taka þátt.

Í þessu felst undirbúningur og æfingar fyrir lokasýningu í Hofi að vori, nemendum gefst tækifæri til að hanna búninga, sviðsmynd, tónlist, dans og fleira.


Námsmat byggist á virkni og þátttöku.

Íþróttafræði

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Oddeyrarskóli


Vorönn

Föstudagur


Markmiðið er að stuðla að fjölbreyttri hreyfingu og kynna nemendum fjölbreyttar íþróttagreinar. Tímarnir verða að mestu verklegir en einnig bóklegir. Verklegu tímarnir fara fram í íþróttahúsi skólans en einnig verður farið í nokkrar ferðir til að kynnast fjölbreyttum íþróttagreinum. Kennt verður einu sinni í viku eftir áramót í 80 mínútur, en heimsóknir til íþróttafélaga verða lengri og munu hinir tímarnir styttast á móti.


Námsmat byggist á ástundun og virkni.

Samræður

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Oddeyrarskóli


Haustönn


Markmiðið er að nemendur ræði saman í litlum hóp, verði færari í að hlusta á skoðanir annarra og færa rök fyrir máli sínu, ásamt því að taka rökum. Umræðuefni verða fjölbreytt og mismunandi. Allt frá heimspekilegum vangaveltum hinna ýmsu heimspekinga til þess sem efst er á baugi hverju sinni.


Námsmat byggist á virkni og þátttöku.

Star Trek

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Oddeyrarskóli


Haustönn

Fimmtudagur


Star Trek er bandarískur vísindaskáldsagnabálkur sem spannar um 725 þætti, 11 kvikmyndir og hundruð bóka. Þessi ímyndaðri veröld er byggð á hugmyndum Genes Roddenberry og taka á ýmsum þjóðfélagslegum vandamálum svo sem stríði, trúarbrögðum, stjórnmálum, kynþáttarhatri og alls kyns fordómum. Í hverjum tíma munum við horfa á sérvaldan þátt og taka svo umræður á eftir um þau álitamál sem tekin voru fyrir og velta fyrir okkur hvort útópía sem þessi geti einhvertíman orðið að veruleika.


Námsmat byggist á virkni og þátttöku.

Skólahreysti

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Oddeyrarskóli


Haustönn

Föstudagur


Lýsing: Tímarnir eru verklegir og fara fram í íþróttahúsi skólans. Megin áhersla áfangans verður að þjálfa þol, snerpu, og kraft með fjölbreyttum æfingum. Leitast verður eftir að bæta grunnstyrk þar sem unnið er með eigin líkamsþyngd. Nemendur æfa sig í þeim greinum sem keppt er í skólahreysti (hraðabraut, hreystigrip, dýfur, armbeygjur og upphífingar). Kennt verður einu sinni í viku í 80 mínútur fyrir áramót.

Námsmat byggir á ástundun, virkni og framförum.

Útivera - útieldun

Innanskólaval

Fyrir: 8. bekk, 9. bekk, 10. bekk

Staðsetning: Oddeyrarskóli


Haustönn


Markmiðið með valgreininni er að hvetja nemendur til útiveru og leyfa þeim að prófa að elda úti. Farnar verða 5-6 hjóla-, gönguferðir í nágrenninu, m.a. í Kjarna, Hrafnagil og Krossanesborgir. Þar sem hver ferð getur tekið 2-4 klukkustundir þá verður valgreininni lokið í október. Þeir sem velja þessa valgrein verða að hafa möguleika á að vera bundnir til kl. 17.00 í nokkur skipti. Þeir verða líka að hafa aðgang að hjólum og reiðhjólahjálmum treysta sér til að vera úti þó ekki skíni sólin.

Námsmat byggist á virkni og þátttöku.