Kristín Helga Gunnarsdóttir fæddist 24. nóvember 1963 í Reykjavík. Eftir stúdentspróf stundaði hún nám við Háskólann í Barcelona og lauk síðan B.A. prófi í spænsku og fjölmiðlafræði frá University of Utah í Salt Lake City 1987.
Fyrsta bók Kristínar Helgu, Elsku besta Binna mín, kom út árið 1997 og síðan hefur hún gefið út fjölmargar bækur fyrir börn. Hún hlaut Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur árið 2001 fyrir bókina Mói hrekkjusvín og hefur síðan hlotið fleiri viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. Bókaverðlaun barnanna ítrekað, Vestnorrænu barnabókaverðlaunin og Sögustein, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi.
Sagan gerist meðal annars í Sýrlandi, nánar tiltekið í borginni Aleppo í miðju borgarastríði. Söguslóðir ná einnig til Íslands og fleiri staða í Evrópu.
Borgarastríðið í Sýrlandi felst í átökum á milli stjórnvalda, undir forystu forsetans Bashar al-Assad, og uppreisnarhópa. Sumir uppreisnarhóparnir berjast einnig sín á milli. Rússar og Íranir styðja Assad-stjórnina en Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra eins og Frakkar, Tyrkir og Saudí-Arabar aðstoða suma uppreisnarhópana en varpa sprengjum á aðra.